10.02.1986
Efri deild: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

106. mál, greiðsluskilmálar húsnæðislána

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Mér finnst leiðinlegt að þurfa að tvítaka það sem þegar er búið að koma fram í umræðunum, en út af athugasemd hv. 5. landsk. þm., sem þóttist hafa fundið hér þáltill. í stað lagafrv., vil ég eingöngu benda á það sem ég sagði þegar í upphafi. Við erum ekki að setja reglugerð. Við erum að fjalla um mjög einföld lög um mjög sjálfsögð mannréttindi, mjög sjálfsögð mannréttindi, hv. 5. landsk. þm., sem ekki eru virt í þessu landi. Bankastofnanir komast upp með að hundsa þarfir fólks í viðskiptum sínum við það. Þessum lögum er eingöngu ætlað að gera bönkunum skylt að horfa á aðstæður viðskiptavina sinna og taka tillit til heildarstöðu þeirra í fjárfestingum þeirra og með þeim fyrirvörum sem fram koma í 2. gr.

Ég býst við að það sé óþarfi að tilgreina að þetta frv. er ekki sprottið beint undan mínum penna. Að þessu frv. stóð fjöldi manns. En vegna þess að hér er um að ræða, eins og ég sagði, mjög einföld og sjálfsögð mannréttindi þótti engum sem að þessu stóð ástæða til að fara að mæla og meta það, sem menn eiga að geta samið um, þ.e. að gera úr þessu reglugerð, og þess vegna endaði það í þessu tiltölulega mjög einfalda formi.

Ég ætla að minna menn á að við höfum fjölda laga, mjög vel unnin eins og það er kallað hér í þingsölum. Þessi lög eru þannig orðin að það er nánast orðin regla að menn verða að brjóta þau til að geta framkvæmt það sem þessum lögum var upphaflega ætlað. Ég er t.d. að höfða til þeirra greina í lögum um Húsnæðisstofnun sem fjalla um endurkaup á íbúðum verkamannabústaða þar sem í gildi eru orðnir svo margvíslegir skilmálar á kjörum við upphafleg kaup og á kjörum við endurgreiðslu á mismunandi byggingarflokkum á mismunandi tímum að þeir menn sem eiga að framkvæma mat á þessum eignum og endurgjaldi til þeirra sem eru að láta af hendi eignir innan verkamannabústaðakerfisins eða innan kerfis félagsbyggingar verkamanna, þeir aðilar sem bera ábyrgð á því verða yfirleitt á endanum að þverbrjóta lögin til að geta veitt því fólki úrlausn sem um er að ræða hverju sinni. Þessi lög eru m.a. búin að flækja svo aðstöðu fólks innan þessa kerfis að misréttið, sem allir þekkja, innan verkamannabústaðakerfisins verður líklega aldrei leiðrétt nema til komi einhver maður eða einhverjir einstaklingar sem höggva á þann hnút með ákvörðun sem reyndar verður þá sjálfsagt endanlega skoðuð sem brot á gildandi lögum. En vegna þess hverjum vandræðum þessi lög hafa valdið gegnum tíðina verður að leysa þetta þannig. Það er ekki dyggð að semja né samþykkja flókin lög.