10.02.1986
Efri deild: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2422 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

166. mál, viðskiptabankar

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 186 flyt ég frv. til l. um breytingu á lögum nr. 86 frá árinu 1985, um viðskiptabanka. Þetta frv., sem ég flyt hér, var flutt sem brtt. við frv. um viðskiptabanka þegar það var til umfjöllunar og afgreiðslu á vori sem leið. Það hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„1. gr. Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr liður er orðist svo:

Alþingi kýs fimm manna nefnd til þess að annast um að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélagsbanka. Skal nefndin ganga frá samþykktum og ákveða hlutafé hvers banka miðað við eignir hans og viðskiptastöðu í samráði við bankaráð, bankaeftirlit og endurskoðendur hvers banka. Breyting ríkisviðskiptabanka í hlutafélagsbanka skal eiga sér stað eigi síðar en 1. jan. 1987 og falla þá úr gildi sérákvæði laga um ríkisviðskiptabanka, eftir því sem við á.

Nefndin skal bjóða hlutabréf bankanna til sölu á frjálsum markaði þegar að loknum stofnfundum þeirra. Enginn einn hluthafi má kaupa meira en 5% hlutafjár. Umboð nefndarinnar til sölu hlutabréfa fellur niður 31. des. 1987. Óseld hlutabréf skulu þá falin í vörslu viðkomandi banka og skulu bankaráð annast sölu þeirra.

Viðskrh. fer með atkvæði óseldra hlutabréfa á aðalfundi.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Grg. með þessu frv. er stutt, virðulegi forseti, þar sem ég talaði fyrir þessu máli í vor sem leið eins og áður sagði, en þar kemur fram sú skoðun mín, sem flestum ætti að vera kunnug í þessari deild, að það rekstrarfyrirkomulag bankastarfsemi sem sparifjáreigendum hefur staðið til boða s.l. 50 ár hefur sýnt og sannað að ekki er siðferðilega verjandi að standa lengur að því af löggjafans hálfu að sparifé landsmanna eða skattfé sé misnotað með þeim hætti sem ríkisvaldið hefur gert og gerir enn í gegnum ríkisbankana.

Við komum aðeins inn á þetta áðan og hv. 2. þm. Austurl. lýsti stuttlega t.d. þeim viðskiptavenjum sem eru því miður allt of algengar í viðskiptum ríkisbankanna og viðskiptabanka almennt við viðskiptavini sína, þ.e. yfirleitt allt of lítil viðskipti, miklu minni en þau sem menn æskja og þá ekki stunduð í ljósi þess að viðskiptin eigi að gera báðum aðilum jafnmikið gagn heldur að viðskiptin séu nokkurs konar „fyrirgreiðsla“, eins og það er kallað, eða ölmusa af hálfu lánastofnunar til þess sem lánið fær og hann megi þykjast góður með það sem hann fær.

Bankastofnanir eru ekki og eiga ekki að vera fyrirgreiðslustofnanir heldur viðskiptastofnanir og það á að vera þeirra markmið að leita viðskiptavina, ekki bara sparifjáreigenda heldur líka lántakenda. Ég tel að hluti af þeim óeðlilegu viðskiptaháttum sem hér hafa skapast stafi af því að bankar hafa verið að stærstum hluta ríkiseign og því hugarfari sem þá hefur búið að baki rekstri þeirra svipað því og almennt gerist um þá þætti eða þá starfsemi sem ríkið annast, að menn líta ekki á þetta sem einfalda og sjálfsagða þjónustu við viðskiptavini sína heldur pólitíska fyrirgreiðslu, og að þessu verði ekki breytt nema með því að bankarnir verði látnir í hendur almenningshlutafélögum.

Ég hef áður, virðulegi forseti, bent á þær einföldu staðreyndir að þetta fyrirkomulag í bankarekstri er með öllu óþekkt annars staðar á Vesturlöndum, þ.e. að ríkið eigi alla helstu og stærstu bankana. Það eitt ætti kannske að verða mönnum að umhugsunarefni. Það sem við höfum horft upp á núna á síðustu mánuðum og síðasta ári í starfsemi bankanna, og þá á ég við t.d. Útvegsbankann, ætti líka að færa mönnum heim sanninn um að það er ekki hollt að ríkisvaldið, hið pólitíska vald, beri ábyrgð á rekstri þessara stofnana. Í því felast bæði óeðlileg völd og óeðlileg ábyrgð sem hið pólitíska vald getur skotið sér undan með því að dreifa henni á herðar sinna umbjóðenda að geðþótta þegar með þarf.

Þess vegna, virðulegur forseti, hef ég lagt þetta frv. til breytinga á lögum nr. 86 frá 1985 fram enn einu sinni. Ég lagði það fram sem brtt. við viðskiptabankafrv. þegar það var hér til umfjöllunar. Það hlaut ekki samþykki þá. En ég legg það fram enn einu sinni til að kanna hvort viðhorf manna í þessum efnum hefur ekki hugsanlega, ekki hvað síst í ljósi reynslu síðustu mánaða, eitthvað breyst.

Auk þess legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og til fjh.- og viðskn.