29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

36. mál, tollar Efnahagsbandalagsins á saltfiski

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þegar Íslendingar gengu frá fríverslunarsamningum sínum við Efnahagsbandalagið hafði það verið svo um eins árs skeið að tollur á saltfiski og skreið hafði ekki verið í gildi. Við vorum fullvissuð um að það væru engar líkur á því að slíkur tollur yrði nokkurn tímann aftur upp tekinn. Á þessum forsendum gengum við til samninganna og það var gengið frá samningum sem aðilar töldu að væru í jafnvægi.

Nú gerðist það í desembermánuði 1984 að Efnahagsbandalagið tók ákvörðun um að innieiða þessa tolla á ný upp á 13-20%, eftir því hvort um væri að ræða saltfisk eða skreið. Þessi framkvæmd hefur að vísu ekki bitnað á okkur enn þá þó hún ætti að koma til framkvæmda á miðju þessu ári vegna þess að svokallaður tollfrjáls kvóti hefur verið í gildi og við höfum fengið að njóta þess. En gerðin er söm og ef þessu vindur fram mun það bitna á okkur.

Mér þykir heldur lítil umræða hafa farið fram um þetta athæfi Efnahagsbandalagsins, einkum og sér í lagi vegna þess að þegar þessi breyting er gerð og tollurinn innleiddur af hálfu Efnahagsbandalagsins er í rauninni verið að kippa grundvellinum undan þeim samningi sem við gerðum við Efnahagsbandalagið því að við gerðum hann á þeim grundvelli og í þeirri fullvissu að þessi tollur mundi aldrei verða innleiddur að nýju.

Mér þykir ríkja tómlæti um þetta mál almennt á Íslandi. Kannske er það vegna þess að eins og stendur gengur vel að selja saltfisk. En það þarf ekki alltaf að vera svo. Við munum þá tíð að það var ekki svo auðvelt að losna við saltfiskinn. Slíkur tími kemur aftur. Þá mun tollur af þessu tagi bitna á okkur Íslendingum.

Efnahagsbandalagsmenn tala gjarnan um frjálsa verslun, tala um að brjóta niður tollmúra, tala um að hindra verndaraðgerðir eða „protectionist measures“. En það sem Efnahagsbandalagið sjálft er að gera í þessu máli er að byggja upp tollmúr að nýju, að grípa til verndaraðgerða. Það er andstætt öllum þeim markmiðum sem Efnahagsbandalagið hefur sett sér.

Ég hef lent í því að ræða um þetta mál á ýmsum stöðum á erlendum vettvangi og rætt um það á prinsipgrundvelli, á þeim grundvelli að hér væri Efnahagsbandalagið að brjóta gegn markmiðum sínum. Ég hef líka rætt um það á þeim grundvelli að Efnahagsbandalagið væri að brjóta á Íslendingum og kippa undirstöðunni undan þeim samningum sem við okkur voru gerðir.

Með hliðsjón af þessu og hversu mikilvægt ég tel þetta mál ber ég fram tvær fsp. til viðskrh.:

„1. Með hvaða hætti hefur viðskrh. beitt sér til þess að knýja á um að Efnahagsbandalagið falli frá ákvörðun sinni frá því í desember s.l. um að leggja innflutningstoll á saltfisk og skreið?

2. Hver eru áform ráðherra um áframhaldandi meðferð málsins?"