11.02.1986
Sameinað þing: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

217. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki hefja langt mál, en ég taldi mig eiga nokkurn rétt, þar sem ég er meðflytjandi þessarar fsp., að segja hér nokkur orð.

Það gleður mig að heyra hvernig hæstv. ráðh. tók undir þessa fsp. og ég hef enga ástæðu til að halda annað en að honum sé nokkur alvara í því sem hann hér sagði.

Mér þykir rétt að minna hið háa Alþingi á að ekki hefur öllu verið gleymt í þingsölum á síðustu árum hvað varðar íslenska menningu. Ég vil minna á Þýðingarsjóð Íslands sem hér varð að lögum fyrir líklega þremur, fjórum árum og hefur þegar sýnt ágæti sitt, en það frv. fluttum við hv. þm. Ingólfur Guðnason. Listskreytingasjóður varð lögbundinn í tíð hæstv. fyrrverandi menntmrh. Ingvars Gíslasonar. Kvikmyndasjóður var stórlega bættur í tíð hæstv. þáverandi ráðh. Ragnars Arnalds og ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens setti það að skilyrði fyrir stjórnarsamstarfi að verulega skyldi unnið að smíði Þjóðarbókhlöðu. Þetta er allt gott og blessað, en enn þá er mikið óunnið og ég held að sjaldan hafi verið sótt eins að íslenskri menningu og núna.

Ég veit, herra forseti, að ég er kannske að syndga upp á náðina, en ég vil aðeins leggja áherslu á að það er tvennt sem er arðbært á Íslandi og aðeins tvennt. Það er fiskurinn í sjónum og íslensk menning. Annað hefur aldrei verið arðbært á Íslandi. Þetta vil ég biðja hv. alþm. að muna. Það er ekki tilviljun að ekki er hægt að gera við íslenska þjóð hvað sem stórveldum sýnist. Á því er aðeins ein skýring. Við kunnum að lesa og skrifa og gerum það harla vel. Það veit ég að hæstv. ráðh. veit eins vel og ég.

Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðh. um að það er mjög nauðsynlegt að efna til málþings um stefnumótun íslenskrar menningar. - Ég treysti því að hæstv. ráðh. láti ekki hv. þm. Garðar Sigurðsson segja sér að það sé bara fiskur sem sé arðbær. - Það þarf nefnilega að efna til málþings nú um íslenska menningu, framtíð hennar og mótun. Ég er alveg sammála því að það þarf ekki að vera nein miðstýrð menning, en ég held að aldrei hafi verið meiri þörf á stefnumótun. Fyrsta skilyrðið er auðvitað að einhver megi vera að því að sinna menningu og fræðslu í staðinn fyrir að eyða öllum tíma sínum í brauðstrit til þess að geta skrimt í þessu þjóðfélagi.