11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

Verðlagning á olíuvörum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sem kunnugt er hefur orðið stórfelld breyting á verði á olíuvörum á undanförnum vikum þar sem um lækkun er að ræða frá nálægt 270 dollurum á tonn af gasolíu, svo að dæmi sé tekið, niður í 173,5 bandaríkjadali þegar verðið fór lægst. Hins vegar liggur það fyrir að hérlendis hefur engin breyting orðið á verði gasolíu síðan 23. okt. s.l. að verð á lítra hækkaði úr 11,10 kr. í 11,90 kr. Svartolíuverð hefur að vísu lækkað lítillega eða um 1000 kr. tonnið og bensínlítri smávegis einnig eða um 1 kr. á lítrann, en gasolían hefur ekki hreyfst hvað verð snertir frá því að það hækkaði í okt. s.l. haust.

Seint á síðasta ári keyptu olíufélögin inn mjög mikið magn af olíuvörum á háu verði, gasolíuna á 237-269 bandaríkjadali tonnið. Þessar birgðir eru taldar endast, skv. upplýsingum verðlagsstjóra, fram undir sumarmál eða til 20. apríl. Svartolíubirgðir eru taldar endast til viðlíka langs tíma.

Ljóst er að hér er um stórfellt hagsmunamál að ræða fyrir þjóðarbúið, einkum fiskiskipaflotann og loðnuverksmiðjur. Á sama tíma og lítri af gasolíu er seldur hér á tæpar 12 kr. lítrinn er verðið um 7 kr. í Bretlandi og litlu hærra í Danmörku. Miðað við að togari brenni 5 þús. lítrum af gasolíu pr. sóknardag, sem að mati LÍÚ er nálægt lagi, svarar umframkostnaðurinn hér til 25 þús. kr. á sólarhring og um 6,75 millj. kr. á ári miðað við 270 úthaldsdaga. Þetta er vissulega óheyrilegur munur. En ársnotkun miðað við gildandi verð fyrir togara sem brennir gasolíu er nálægt 16 millj. kr.

Útgerðarmenn reyna að sjálfsögðu að komast yfir ódýrari olíu erlendis og þá í tengslum við siglingar með fisk og láir þeim það vissulega enginn. Það liggur því fyrir að þessi mikli verðmunur, sem hér er á olíuvörum miðað við það sem er í grannlöndum okkar, leiðir til þess að atvinna dregst saman í landi, að meira er flutt út af óunnum fiski heldur en ella væri og það þarf ekki að fara mörgum orðum um þjóðhagsleg áhrif af slíkri starfsemi.

Ég tel mig hafa heyrt það býsna oft að undanförnu að þörf væri á að framleiða meira af freðfiski fyrir markað í Bandaríkjunum t.d. þar sem verðlag hefur farið hækkandi. Menn hljóta að spyrja: Hversu lengi á það að ganga þannig fyrir sig að verðbreytingar, verðlækkun, verði á olíuvörum án þess að það komi fram í verðlagningu hér innanlands? Er ekki eðlilegt að mikil verðlækkun á olíu komi fram með einhverjum hætti og helst með skjótum hætti hér innanlands? Er ekki eitthvað bogið við það kerfi sem við búum við í innkaupum og verðlagningu á olíuvörum? Ég spyr hæstv. viðskrh. og vænti þess að hann geti svarað því hér við umræðuna.

Er þess ekki að vænta að ríkisstj. beiti sér fyrir lækkun á olíuvörum alveg á næstunni?