11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

Verðlagning á olíuvörum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það geta vissulega talist betri fréttir en engar að hæstv. ríkisstj. hafi í hyggju að ná fram lækkun á gasolíuverði fyrir sumarmálin. Einhvern tíma fram að þeim tíma megum við vænta þess að verð á gasolíu verði lækkað frá því sem nú er.

Ég benti á hversu tilfinnanlegt það er að verðmunur hérlendis annars vegar og hins vegar í grannlöndum okkar á olíuvörum skuli verða með þeim hætti sem nú hefur orðið og er það raunar engin ný bóla að gasolíuverð sé til muna lægra í nágrannalöndum okkar heldur en hér innanlands. Það er því fyllsta ástæða til þess að fara ofan í saumana á því hvernig á því stendur að þessi staðreynd liggur fyrir og virðist vera nánast óumbreytanleg. Ég tek því undir það að á þau mál sé litið. Ég minni hins vegar á að hér er um flókið mál að ræða eins og raunar hæstv. viðskrh. nefndi og tilraunir sem á sínum tíma voru gerðar í sambandi við innkaup á olíu frá Bretlandi og áttu að færa okkur tekjur í okkar þjóðarbú reyndust snúast upp í andstæðu sína. Gott ef það var ekki þegar hv. 3. þm. Reykn. var viðskrh. að sú tilraun var innleidd.

Ég minni líka á að ég óskaði eftir því við umræðu um þessi mál, af tilefni þáltill. hér á þinginu í fyrra, að við fengjum um það skýrslu frá viðskrh. hver hefði verið þróun á liðnum tíma á verðlagi olíuvara í grannlöndum okkar annars vegar og hér hins vegar. Slík skýrsla hefur hins vegar ekki komið til þingsins og væri fyllsta ástæða til þess. Sá verðmunur sem hér er um að ræða er sannarlega með þeim hætti að það verður að teljast algerlega óviðunandi og það er ekki óeðlilegt, ef menn hafa trú á því að verðlag á olíuvörum haldist til muna lægra heldur en það var þegar keyptar voru inn miklar birgðir í lok síðasta árs, að þessi breyting verði látin koma strax fram með einhverjum hætti í verðinu. Auðvitað er það ákveðið áhættuspil. Menn sjá ekki allt fyrir í þessum efnum, en ég tel þó eðlilegt að menn taki þarna nokkra áhættu og reyni auk þess að endurskoða það kerfi sem í gildi er þannig að við getum vænst þess að þessi saga endurtaki sig ekki og við eigum að búa við þær aðstæður sem nú hafa skapast oft í framtíðinni. Á því tel ég mikla nauðsyn.

Þau olíufélög sem annast innkaupin á olíuvörum til landsins hafa ekki sýnt sig að vera févana ef litið er til fjárfestinga þeirra og samkeppni á undanförnum árum sem allir landsmenn þekkja. Það væri því ástæða til þess að auka hlut þeirra í þessari áhættu fyrir utan það að leita allra leiða til að ná verðinu niður svo geysilega stórt sem þetta hagsmunamál er fyrir okkur öll.

Ég vil að lokum, herra forseti, upplýsa það að á árinu 1984, sem er síðasta árið sem tölur liggja fyrir um olíunotkun hér innanlands, notuðu fiskiskipin 111 021 tonn af gasolíu og af svartolíu 52 523 tonn. Iðnaður og þá einkum loðnuverksmiðjur keyptu á því ári 67 830 tonn. Þetta eru stórar upphæðir og þegar litið er á þann verðmun sem ég gat um hér áðan, 5 kr. verðmun á lítra af gasolíu, eru hér sannarlega stórar upphæðir á ferðinni fyrir íslenskt þjóðarbú.