11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

Verðlagning á olíuvörum

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. sagði að hann vildi algjört frjálsræði í olíuinnflutningi. Hann var að vísu ekki langan tíma viðskrh., en hann var einnig sjútvrh. og ég vil spyrja hann hvaða tillögur hann hafi verið með í frjálsum innflutningi á olíu. Vill hv. þm. veita algjört frelsi í útflutningi á sjávarafurðum og brjóta niður samtök útvegsins eins og í frystum fiski, saltfiski og öðrum afurðum? Vill hann frjálsræði í útflutningi, koma í veg fyrir að Ísland geti á þann hátt gert samninga við Sovétríkin sem hafa verið áratugum saman í gildi? Vill hann hætta á það að við getum ekki selt nokkra síld þannig að um síldveiði verði ekki að ræða á næstu árum? Er þetta stefnan sem hv. þm. hefur núna? En hver var stefnan sem hann hafði þegar hann var ráðherra?

Verðjöfnun á olíu og beinn samanburður við ýmsar hafnir erlendis er ekki réttlætanlegur. Í okkar olíuinnflutningi er reiknað með og enginn hefur dregið í efa að það þurfi að vera birgðir hér sem endist tvo og hálfan til þrjá mánuði. Þessar birgðir eru dreifðar um landið. Það hefur ýmislegt komið fyrir. Hafís hefur legið fyrir Norður- og Norðausturlandi og þá væri nú heldur betur ráðist á stjórnvöld ef hafís kæmi og engar birgðir væru í landinu. Það geta komið líka fyrir tafir á afskipunum á margvíslegan hátt og ef olíulaust væri í landinu og fiskiskipaflotinn yrði þar af leiðandi að liggja í landi held ég að mundi heyrast hljóð úr horni víða. Hér er um verðjöfnun að ræða um allt land. Vill hv. fyrirspyrjandi afnema það? Það er hægt að lækka olíuverðið með því, en þá er líka verið að hækka verð út um hinar dreifðu byggðir landsins. Það var baráttumál strjálbýlismanna og allra þeirra þm. sem á sínum tíma vildu réttlæti að koma á jöfnu verði. Það var gert með þessum hætti.

Það er ekki hægt að halda uppi því formi sem er á innkaupajöfnunarreikningi og segja svo: Okkur varðar ekkert um hvernig innkaupajöfnunarreikningur stendur. Við eigum að draga úr útlánum bankanna, en við eigum samt í öðru orðinu að segja við bankana: Þið eigið að halda áfram að lána í olíuna og útstreymi á innkaupajöfnunarreikningi. Þetta er ekki svo einfalt. Það var rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, 5. þm. Austurl., að þetta væri ekki einfalt mál. Hins vegar var þetta mjög einfalt mál fyrir 3. þm. Reykn. Hann hefur lausn á takteinum þegar hann hefur enga ábyrgð. Tal hans hér áðan var gersamlega ábyrgðarlaust með öllu.