11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

Verðlagning á olíuvörum

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Olíumál og viðskipti með olíu voru mjög rædd á síðasta þingi og ég held að það væri gott fyrir alla að rifja upp í stórum dráttum hvað sagt var. Það hefur verið deilt um hvort við ættum að hafa olíuviðskipti við Rússland eða ekki. Þetta er spurning sem menn þurfa að velta mjög fyrir sér. En ég er sammála hæstv. bankamálaráðherra og sem betur fer fleiri þm. Ég spyr: Hver yrði okkar staða í útflutningi til Rússlands á saltsíldinni t.d. ef við lokuðum fyrir viðskiptin við Rússland? Það er ákaflega gaman að tala um frjálsræði á öllum sviðum, en við verðum samt að vera raunsæ og líta á þá markaði sem við er að glíma. Ég veit ekki til þess að einn einasti markaður kaupi af okkur saltaða síld nema rússneski markaðurinn, nema þá í mjög litlum mæli, og hvað segja menn um það að við fellum þann atvinnuveg niður þó að við þurfum að kaupa einhverja olíu af þeim?

Árið 1984 flytjum við inn 499 000 tonn af olíuvörum. Af því eru 66% frá Rússlandi. Hitt er tekið að langstærstum hluta af okkar frjálsa markaði. Í miklum viðræðum við olíufélögin í fyrra kom fram að þau töldu það vera sinn aðalvanda að þeim væri skipað af ríkisvaldinu að kaupa þetta stóran hluta frá Rússlandi og þau gætu þess vegna ekki beitt þeirri stýringu í dreifingu og verðlagningu á olíu sem þau óskuðu eftir. Það náðist ekki samkomulag um að ganga nógu langt að mínu mati til að lagfæra þetta. En það voru sett ný lög í fyrra og þar með var lagður niður hinn svokallaði innkaupajöfnunarreikningur. Hann er lagður niður frá síðustu áramótum. Það sem talað er um núna er sú skuld sem er enn þá t.d. vegna gasolíu. Hún var nefnd áðan og er 36 eða 38 millj., ef ég man rétt. Það er skuld á gasolíudæminu þar. Hún er fyrir hendi. Að öðru leyti, mér vitanlega, er innkaupajöfnunarreikningur nokkurn veginn sléttur.

Það áttu að taka gildi um áramótin lög um að hvert hinna þriggja olíufélaga hérlendis fengi sinn eigin innkaupareikning til að skapa þeim hvata til hagstæðari innkaupa. Það hafa þau getað gert. Hefðu þau viljað gera það ættu þau að hafa getað gert það á eigin innkaupareikning. Það átti að stuðla að því að þau gætu farið í samkeppni með þessa vöru út um landið. Hún yrði seld á sama verði alls staðar, hvort það væri í Reykjavík eða fyrir norðan, en hagstæð innkaup áttu að skapa þann möguleika að geta selt olíuvörur lægra verði og þá á sama verði um allt land, Shell þetta verð, BP þetta og ESSO þetta ef þau hefðu viljað. Það var vottur af samkeppni sem þarna átti að taka upp. Ég vil fylgja því eftir að þau geri þetta því að þau hafa verið undir of mikilli ríkisvernd sem þau búa sér til sjálf. Ekki er það að öllu leyti á hendi ríkisvaldsins heldur taka þau það upp hjá sjálfum sér. Þau eru búin að vera of lengi undir vernd ríkisins. Þess vegna var verið að veita þarna smugu til að þau gætu komið sér af stað. Ég vil að því sé fylgt eftir að þau vinni eftir reglum sem settar voru með lögunum á Alþingi s.l. vetur.