11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

Verðlagning á olíuvörum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu taka fram að ég er fylgjandi því að verðjöfnun sé í sambandi við olíu á landinu öllu. Ég tel að íhlutun ríkisins í þessi mál sé fyrst og fremst og ekki síst réttlætanleg til að tryggja slíka verðjöfnun á olíu sem annarri orku. Við umræðuna hér hefur það hins vegar komið fram hjá ýmsum þeim sem talað hafa að einn vandi þessa kerfis er hinn staðnaði þríhöfða þurs sem annast dreifinguna á olíuvörunum og hefur reynst afar dýr þjóðarbúinu. Það er ánægjuefni að heyra þm. úr Sjálfstfl. og raunar Framsfl. líka taka undir það sjónarmið því að svo oft höfum við Alþýðubandalagsmenn á það bent í umræðum að þar þyrfti sannarlega að verða breyting á. En það er full nauðsyn á að fara niður í alla þætti á þessu kerfi til þess að reyna að tryggja í senn eðlilega hagkvæmni og sem hagstæðust innkaup sem þeir þrír einokunaraðilar sem versla hér með olíuvörurnar hafa ekki reynst geta haldið betur á en raun ber vitni og skýrt hefur komið fram undanfarnar vikur.