29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

36. mál, tollar Efnahagsbandalagsins á saltfiski

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að lýsa því yfir að ég mun gera allt sem ég get til að halda þeirri baráttu áfram sem hefur nú staðið um alllangan tíma og það er ekki í fyrsta skipti sem Efnahagsbandalagið vill blanda því saman að fá viðskiptafríðindi fyrir fiskveiðiréttindi. Það vill svo vel til að ég þekki þau mál frá fyrri tímum að þegar sendinefnd Efnahagsbandalagsins kom hingað hvað eftir annað eða átti fundi við Íslendinga úti í Brussel um fiskveiðiréttindi hér, þá neituðum við alfarið öllum slíkum réttindum og Efnahagsbandalagið fékk aldrei annað svar frá okkar hendi.

Hv. fyrirspyrjandi og ég erum alveg sammála í afstöðunni til þessa máls og ég vænti þess að skilningur einstakra þjóða innan Efnahagsbandalagsins sé að verða hallur undir okkar málstað í sambandi við toll á þessa tilteknu vöru. Það er í samræmi við það sem túlkað var þegar bókun 6 var gerð á sínum tíma þó að hún kæmi ekki til framkvæmda fyrr en eftir að þorskastríðinu var lokið.