11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (2061)

123. mál, graskögglaverksmiðjan í Flatey

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja örfá orð hér um. Hv. flm. hefur nú gert glögga grein fyrir þessu máli og er það ekki að ófyrirsynju því að þess ber að geta sérstaklega að fyrir utan það að vera gjörkunnugur málum þessarar verksmiðju þá er hv. flm. í raun og veru forgöngumaður um þessi mál í héraði, var það á sínum tíma og ber að geta þess að verðleikum hversu vel hann vann að því máli ásamt öðrum bændum austur þar að koma þessari verksmiðju á fót.

Ég held að það sé þarft umhugsunarefni fyrir okkur hversu illa er í raun og veru komið málum hjá okkur þegar svo er farið fyrir innlendri fóðurframleiðslu. Ég hélt að það væri einróma álit okkar og þjóðhagsleg nauðsyn um leið að við ættum að stuðla að því að styðja svo innlenda fóðurframleiðslu að innkaup fóðurbætis erlendis frá væru ónauðsynleg að mestu eða öllu leyti. Ég hélt að nauðsyn áframhaldandi þróunar í þá átt að gera innlenda fóðurframleiðslu enn fullkomnari, enn fjölþættari væri hafin yfir allan efa. Og þrátt fyrir það að ég viti um vissar ástæður fyrir því að þarna hefur illa gengið held ég að engu að síður sé það staðreynd að hér sé ekki nógu vel að málum hugað af okkur að styðja þessa merku starfsemi og um leið að spara okkur þann gjaldeyri sem í það fer að kaupa erlendan fóðurbæti.

Ég ætla að staðfesta orð hv. flm., þó ég sé því ekki eins kunnugur, um sérstaklega vel rekna verksmiðju. Það er óhætt að segja það. Það fer ekkert á milli mála. Með afbrigðum vel rekna verksmiðju þarna austur frá. Af því að menn tala nú gjarnan um það að fyrirtæki í ríkisins eigu séu meðhöndluð af mönnum á þann hátt að þar fari þeir um með kæruleysi og sinni lítt hag fyrirtækisins af þeim ástæðum að þeir eigi það ekki sjálfir, þá hefur þessu þar verið öfugt farið miðað við það orðspor - sem að vísu er alrangt í allflestum eða öllum tilfellum - vegna þess að þar hafa menn farið höndum um eins og þetta væri þeirra eigin eign og eigin eign sem þeir vildu virkilega fara vel með og gæta vel að. Ég held að við eigum að hlúa að þeim verksmiðjum sem fyrir eru og tryggja eðlilega þróun þar. Ég tek undir með hv. flm. með það að það beri að reyna að afla þessum verksmiðjum nýrra verkefna. Aukin fjölbreytni er þar sjálfsögð. Hann minnti á kornræktina í bessu sambandi og aðstæðurnar í Flatey sem eru hinar ákjósanlegustu og ég tek einnig undir það með honum.

Ég ætla ekki að ræða um rekstrarformið á verksmiðjunni. Þar er áreiðanlega nokkur áherslumunur á milli okkar hv. flm. og ekki ástæða til þess hér að við förum að deila um þann meiningarmun, sem er þar á milli okkar. Ég veit það hins vegar vel að skaftfellskir bændur eru allra manna best hæfir til félagslegs rekstrar - það er að vísu rétt - og kunna allra best að vera með félagsbú og byggja þau þannig upp að það kemst næst því, sem einu sinni var sagt að hér ætti að leggja grunn að, eins konar samyrkjubúum, þó e.t.v. ekki í þeirri merkingu sem hv. flm. veit kannske versta í þeim efnum, heldur þar sem menn vinna virkilega saman, margir að sameiginlegu verkefni og fá út úr því þann arð sem þeim ber hverjum og einum eftir því tilleggi sem þeir leggja þar fram.