11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

124. mál, bann við framleiðslu hergagna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að segja nokkur orð um þessa till. Við Íslendingar erum sú þjóð sem er búin að vera lengst vopnlaus. Það hefur verið okkar aðalsmerki og á að vera á erlendum vettvangi okkar aðalsmerki að halda því á lofti að vopnabúnaður eigi að hverfa og reyna að stuðla að því að það verði samkomulag um að draga úr smíði þeirra eftir því sem mögulegt er. Í réttu framhaldi af því, ef þetta er okkar hugsun, hljótum við enn fremur að lýsa því yfir að við viljum ekki að í okkar landi sé hannað né framleitt nokkuð sem til hernaðar gæti talist.

Hér er þó eitt orð í þessari till. sem ég stöðvast við, „gereyðingaráform“. Er það áform einhverra, gereyðing? Er það ekki frekar gereyðingarmöguleikar? Getum við ætlað nokkrum það að áforma slíkt? Ég held ekki. Það væri brjálaður maður eða brjálað fólk sem hugsaði þannig. Þess vegna mundi ég vilja breyta þessu orði.

En ég held að sú nefnd, sem fjallar um þetta, utanrmn., hljóti, ef við erum sjálfum okkur samkvæm, að leggja til að tillaga í þessa átt, hvort sem hún á að vera nákvæmlega svona orðuð, verði samþykkt.

Umr. (atkvgr.) frestað.