11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2473 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

187. mál, frysting kjarnorkuvopna

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í till. þeirri til þál. sem flutt er á þskj. 223 og hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur gert grein fyrir er hvatt til að Íslendingar leitist við að ná samstöðu með öðrum ríkjum Norðurlanda um frystingu kjarnavopna og bann við tilraunum með kjarnavopn. Þá er enn fremur lagt til að Íslendingar skuli hafa frumkvæði um tillöguflutning á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um þau mál á grundvelli ályktunar Alþingis 23. maí 1985.

Áður en lengra verður haldið vil ég því víkja að nokkrum efnisatriðum ályktunar Alþingis um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum sem samþykkt var einróma 23. maí 1985. Í nefndri ályktun Alþingis er í upphafi lögð áhersla á tvö undirstöðuatriði: Í fyrsta lagi gagnkvæman samning kjarnorkuveldanna um alhliða afvopnun og í öðru lagi að framkvæmd afvopnunar verði tryggð með alþjóðlegu eftirliti. Þá er því beint til ríkisstj. að hún skuli styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti. Enn fremur að ríkisstj. skuli hvetja til alþjóðlegra samninga um að árlega verði reglubundið dregið úr birgðum kjarnavopna. Það eru þannig sett nokkur skilyrði fyrir því að Íslendingar geti staðið að eða stutt tillögur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um bann við notkun eða frystingu kjarnavopna.

Stefna ríkisstjórnarinnar í afvopnunarmálum er í samræmi við framangreinda ályktun Alþingis. Á 40. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna voru Íslendingar þannig í hópi þeirra ríkja sem fluttu tillögu um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn. Þessi tillaga uppfyllti skilyrði framangreindrar ályktunar Alþingis, enda var í henni lögð höfuðáhersla á virkt eftirlit með slíku banni, m.a. með alþjóðakerfi jarðskjálftamælinga.

Menn verða í þessu efni að vera raunsæir og viðurkenna staðreyndir svo sem að tómt mál er að tala um afvopnun án vilja og samkomulags risaveldanna. Ljóst er að forsendur slíks samkomulags eru m.a. hernaðarlegt jafnvægi og eftirlit sem aðilarnir una við. Í ályktun Alþingis frá 23. maí 1985 um afvopnunarmál er tekið tillit til slíkra atriða. Sömu sjónarmiða hefur verið gætt af hálfu Íslands þegar greidd hafa verið atkvæði í afvopnunarmálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Í grg. með till. á þskj. 223 er hvatt til að Íslendingar hverfi frá þeirri afstöðu að sitja hjá við atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um frystingartillögu Svía, Mexíkómanna og fleiri. Vísað er til þess að Norðmenn hafi stutt tillöguna á síðasta allsherjarþingi, en þeir höfðu áður setið hjá eins og Íslendingar og reyndar gengur till., sem hv. 5. þm. Austurl. er 1. flm. að og hér kemur til umræðu á eftir, í þá átt.

Í þessu sambandi er vert að geta þess að fyrir síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, sem var hið 40. í röðinni, lágu 74 tillögur um afvopnun. Slíkum tillögum fjölgar ár frá ári og flestar eru síðan endurfluttar. Meðal þessara tillagna eru nokkrar um frystingu kjarnavopna. Við afgreiðslu þeirra hafa Íslendingar ýmist setið hjá eða greitt atkvæði á móti. Þannig greiddu Íslendingar atkvæði gegn frystingartillögu Sovétmanna, enda er hún sett fram í pólitískum tilgangi. Íslendingar sátu á hinn bóginn hjá þegar sú tillaga um frystingu var borin undir atkvæði sem hér skiptir máli, en það er tillaga Svía, Mexíkómanna og fleiri. Þeirri afstöðu réði sú skoðun Íslendinga að í henni gætti ekki nægjanlegs raunsæis. Þannig er fullyrt í þessari tillögu að jöfnuður ríki milli risaveldanna á sviði kjarnavopna. Það er litið fram hjá, hinum nýju kjarnaflaugum Sovétmanna í Evrópu. Íslendingar hafa á undanförnum árum reynt að ná fram breytingum á sænsk-mexíkönsku tillögunni þannig að þeim og fleiri þjóðum sé gert kleift að greiða atkvæði, en þær tilraunir hafa lítinn árangur borið.

Norðmenn voru sama sinnis og Íslendingar í þessu efni, en breyttu afstöðu sinni hvað atkvæðagreiðsluna snertir á síðasta allsherjarþingi. Rétt er að greina frá ástæðum þeirra sinnaskipta og rökstyðja hvers vegna Íslendingar geta ekki látið þau hafa áhrif á sína afstöðu. Eftir þingkosningarnar í Noregi hefur ríkisstjórn Kåre Villochs afar nauman meiri hluta í stórþinginu. Tveir eða þrír þingmenn stjórnarliðs hótuðu að hætta stuðningi við ríkisstjórnina ef hún breytti ekki afstöðu sinni til sænsk-mexíkönsku tillögunnar. Niðurstaðan varð sú að norska ríkisstjórnin afréð að koma til móts við kröfur þessara þingmanna varðandi atkvæðagreiðsluna á allsherjarþinginu og forða þar með stjórninni frá falli.

Ef borin er saman atkvæðaskýring Norðmanna við atkvæðagreiðsluna um þessa tillögu annars vegar árið 1984 og hins vegar 1985 er greinilegt að ekki eru efnisleg rök fyrir breyttri afstöðu við atkvæðagreiðsluna. Í atkvæðaskýringu á 39. allsherjarþingi 1984 töldu Norðmenn að mikilvægis fullnægjandi eftirlits væri ekki nægjanlega gætt í sænsk-mexíkönsku tillögunni. Þá gerðu þeir athugasemdir við málsgreinar er drógu í efa réttmæti varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins. Einnig gerðu þeir athugasemdir við þann stuðning við stefnu annars kjarnorkuveldisins sem fram kemur í tillögunni þrátt fyrir að umrætt ríki, þ.e. Sovétríkin, haldi áfram uppsetningu kjarnavopna, aðallega í Evrópu.

Tillagan sem borin var fram á 40. allsherjarþinginu 1985 var í öllum atriðum óbreytt frá árinu áður. Þar var raunhæfu og framkvæmanlegu eftirliti ekki veitt það vægi sem Íslendingar og Norðmenn höfðu áður kosið og þar var enn að finna gagnrýni á varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins. Í atkvæðaskýringu Norðmanna við afgreiðsluna 1985 segir að Norðmenn hafi afráðið að styðja tillöguna þótt hún sé í sumum atriðum ekki í samræmi við skoðanir þeirra í afvopnunarmálum. Norðmenn leggja áherslu á að samkomulag risaveldanna og virkt eftirlit sé forsenda árangurs. Þeir undirstrika stuðning sinn við varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins og í því sambandi víkja þeir sérstaklega að hinni tvíþættu ákvörðun ráðherrafundar NATO 1979 þar sem ákveðið var að vega upp forskot Sovétmanna á sviði meðaldrægra kjarnaflauga. Norðmenn taka það skýrt fram að þótt þeir greiði atkvæði með sænsk-mexíkönsku tillögunni felist ekki í því gagnrýni á þau ríki sem nú eru að koma upp meðaldrægum kjarnaflaugum á grundvelli ákvörðunar frá 1979.

Af þessu öllu er ljóst að það voru innanlandsstjórnmál í Noregi sem réðu því að ríkisstj. ákvað að greiða umræddri frystingartillögu atkvæði sitt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Sú ákvörðun var liður í lausn kreppu sem norska ríkisstjórnin stóð frammi fyrir. Íslendingar breyta vitaskuld ekki afstöðu sinni á þessum grundvelli. Við höldum fast við sannfæringu okkar og sjálfstæði.

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa átt sér stað atburðir sem gera það að verkum að ég sé ekki ástæðu fyrir okkur Íslendinga að álykta sérstaklega um tiltekna þætti afvopnunarmála á þessari stundu. Leiðtogar risaveldanna, þeir Ronald Reagan og Mikhail Gorbatsjoff komu þannig saman til fundar í nóvember s.l. og voru þá sex ár liðin frá því að leiðtogar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna héldu síðast með sér fund. Í kjölfarið hafa afvopnunarviðræður í Genf hafist á nýjan leik. Ef einhver árangur verður af þeim fundum mun það væntanlega hafa áhrif á málflutning og tillögugerð um afvopnunarmál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Gera má ráð fyrir að á 41. allsherjarþinginu í haust verði fluttar tillögur sem taka mið af þeim viðræðum risaveldanna sem munu hafa átt sér stað þegar allsherjarþingið kemur saman að nýju. Það er t.d. talið líklegt að sænsk-mexíkanska tillagan um frystingu kjarnavopna verði ekki lögð þar fram í óbreyttri mynd. Það sem einkum vekur vonir um að einhvers árangurs megi vænta af afvopnunarviðræðum risaveldanna er að svo virðist sem Sovétmenn hafi loks afráðið að koma til móts við fyrri tillögur Bandaríkjamanna um niðurskurð kjarnavopna.

Mikilvægasti þáttur nýlegra tillagna Gorbatsjoffs er, ef rétt reynist, að Sovétmenn munu fallast á gagnkvæmt og fullnægjandi eftirlit með framkvæmd afvopnunar. Í fyrri samningaviðræðum risaveldanna hefur synjun Sovétmanna á slíku eftirliti komið í veg fyrir haldgóðan árangur. En það á eftir að koma í ljós hvort hugur fylgir máli. Ég hef áður bent á að það er vilji stórveldanna, vissa þeirra um hernaðarlegt jafnvægi og viðunandi eftirlit sem ræður úrslitum í þessum efnum.

Ég dreg saman í örstuttu máli það sem hér hefur komið fram.

Íslendingar hafa greitt atkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með þeim hætti að samrýmist skilyrðum ályktunar Alþingis um afvopnunarmál frá 23. maí 1985. Veigamikil rök voru fyrir því að þeir sátu hjá þegar greidd voru atkvæði í allsherjarþinginu um sænsk-mexíkönsku frystingartillöguna. Norðmenn breyttu afstöðu sinni í atkvæðagreiðslu af ástæðum sem ekki geta haft áhrif á afstöðu Íslendinga. Á síðustu vikum hefur komist skriður á samningaviðræður stórveldanna um afvopnun sem hugsanlega mun breyta viðhorfum manna og tillögugerð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Með hliðsjón af öllu þessu tel ég ekki rétt að Alþingi álykti á þessari stundu um frystingu kjarnavopna eða breyti á nokkurn hátt fyrri ályktun um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum.