11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

188. mál, frysting kjarnorkuvopna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það kemur fyrir að maður hefur á tilfinningunni að það ætti að vera óþarfi að ræða mál hér á hinu háa Alþingi og ekki síst þau mál sem nú hafa verið á dagskrá og reyndar fleiri.

Við Alþýðubandalagsmenn höfum frá upphafi og löngu áður en nokkur umræða hófst af skynsamlegu viti á hinu háa Alþingi um þetta mál lagt fram ótal tillögur um að vígbúnaðarkapphlaupið yrði stöðvað eða a.m.k. að Íslendingar beittu sér fyrir því. Heldur hefur þokast í áttina að umræðu um þessi mál á hinu háa Alþingi og þess vegna ríkti að sjálfsögðu fögnuður hér þegar till. var samþykkt um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum 25. maí 1985. En það er greinilegt á máli hæstv. utanrrh. að honum tekst að lesa þá ályktun ansi miklu öðruvísi en okkur hinum.

Í þeirri ályktun stendur: „Alþingi fagnar hverju því frumkvæði sem fram kemur og stuðlað getur að því að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins.“

Í sömu till. sem Alþingi Íslendinga samþykkti segir líka: „Leita verður allra leiða til að draga úr spennu og tortryggni milli þjóða heims og þá einkum stórveldanna. Telur Alþingi að Íslendingar hljóti ætíð og hvarvetna að leggja slíkri viðleitni lið.“

Hvað eru þeir hv. þm. sem hér hafa talað fyrir tveim till. og þeir hv. þm. sem lagt hafa fram till. sem liggur fyrir á þskj. 225 að gera annað en að reyna að leggja þeirri viðleitni lið? Orðhengilsháttur á borð við þann sem fram kom í máli hæstv. utanrrh. getur ekki skipt neinu minnsta máli í þessu samhengi.

Ég sé ekki hvaða máli það skiptir nákvæmlega hvernig þessar till. eru orðaðar. Aðalatriði þessa máls er auðvitað að stöðva þá vitfirringu sem á sér stað og öllum heiminum stafar meira en ógn af. Menn og konur í þjóðþingum heimsins sitja og ræða um menningu þjóða, verndun náttúruauðlinda og framtíð barna heimsins og um önnur atriði er varða framtíð mannkynsins, en á sama tíma er eytt milljörðum í að búa til tæki til að leggja þetta líf í auðn! Þetta er svo gjörsamlega fráleitt og mælir svo móti allri skynsemi að ég býst við að stéttarsystkin hv. 3. landsk. þm. hljóti að flokka þetta undir geðsjúkdómafræði. Og það er auðvitað sú tilfinning sem sækir á mann við að horfa á fréttir dagsins að við búum á einu allsherjar geðveikrahæli.

Það hefur löngum verið viðfangsefni hverrar lifandi og hugsandi manneskju að halda viti sínu og helst að samræma það tilfinningum sínum, en þessar aðgerðir eru eitthvað allt annað og nálgast undarlegan geðklofa eða hvað það nú heitir í geðsjúkdómafræði. Um það veit hv. 3. landsk. þm. meira en ég. En að heyra hæstv. utanrrh. Íslendinga vera að fárast yfir því hvernig tillögur um að stöðva þessa geggjun séu orðaðar er sorglegt. Ég bið hæstv. ráðh. forláts, en mér fundust þetta satt að segja lítilfjörlegar röksemdir.

Þá þykir mér ástæða til að taka upp hanskann fyrir hæstv. forsrh. Noregs þótt fátt eigum við sameiginlegt annað en kannske það að vera tvær lifandi manneskjur á þessari jörð áður en hún verður eyðilögð. Ég væri feimin við að bera honum það á brýn að hann hafi séð sér leik á borði til að fá að lafa í forsætisráðherrastól sínum að vera svo sem nokkuð sama þó að Noregur druslaðist þá til að greiða atkvæði með tillögu um frystingu kjarnorkuvopna. Svo ómerkilegur trúi ég ekki að forsrh. Noregs sé. Þetta er raunar skynsamur maður að mörgu leyti. Ég held að hann hafi einungis gert það sem ég vildi óska að íslenska ríkisstjórnin gerði líka. Hann hefur sest niður og farið að hugsa á vitrænan hátt og komist að þeirri niðurstöðu að nú væri nóg komið, þetta gæti ekki gengið lengur.

Við sjáum dag hvern atburði gerast sem jafnvel tæknilærðustu menn heims hafa ekkert vald á, eins og atburð þann sem gerðist á Kennedy-höfða fyrir nokkrum dögum. Þar voru 1,2 milljarðar sænskra króna sprengdir í loft upp. Það mun láta nærri að vera um 60 milljarðar íslenskra kr. Á einu andartaki þrátt fyrir allan undirbúning og sjö manneskjur fengu þar að fara sömu leið! Halda menn að slík óhöpp geti ekki komið fyrir þrátt fyrir alla þá tækni sem maðurinn ræður yfir? Hættan liggur í því að hafa þessi skelfilegu tæki undir höndum.

Og nú á að færa leikinn út í himingeiminn og menn tala um geimvarnaáætlun. Á meðan svíða menn sína eigin jörð. Á hverju ári eru höggnir skógar á svæði sem er jafnstórt Svíþjóð. Hungursneyð er yfirvofandi í Brasilíu vegna þess að regnskógunum hefur verið eytt. Á þessa vitfirringu alla saman hlustum við og hvað getum við í raun og veru gert annað en reyna að spyrna á móti?

Ég er ekki viss um að við Íslendingar getum mikið ráðið þessari ferð, en við getum að minnsta kosti reynt. Og þessar dauðyflislegu skýrslur starfsmanna hæstv. utanrrh. um orðalagsbreytingar til eða frá sæma ekki jafnljúfum og um margt góðum manni og hæstv. utanrrh. er. Ég veit að hann vill ekki taka þátt í þessu heldur. Og ég veit að hann er ekki það barn að hann viti ekki að herstöðin á Miðnesheiði er meiri hætta Íslendingum en nokkuð annað. Ekki heyrði ég betur en þeir marskálkar þar suður frá viðurkenndu í fréttatíma íslenska sjónvarpsins fyrir stuttu að vitanlega væri herstöðin skotmark.

Hversu lengi ætlum við að leika þetta leikrit? Það er löngu komið að því að hætta þessu. Ég skal ekki vera að erfa alla þá vitleysu sem menn hafa látið á okkur dynja, Alþýðubandalagsmönnum, sem augljóslega náðum fyrr áttum í þessu máli. Ég held að það sé engin ástæða til að erfa það. En því aðeins að menn reyni að taka sönsum. Og að Íslendingar sitji hjá ásamt örfáum öðrum þjóðum við atkvæðagreiðslu um tillögu eins og sænsk-mexíkönsku tillöguna á þingi Sameinuðu þjóðanna er auðvitað fráleitt. Alþingi Íslendinga á að taka þarna af skarið og fara að þeirri till. sem var samþykkt á Alþingi 23. maí 1985 þar sem fram kemur afgerandi vilji þingsins til að hafa frumkvæði um allt það er stuðlað geti að því „að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins“.

Herra forseti. Ég gæti haldið áfram lengi, en ég skal nú láta máli mínu lokið. Ég bið hv. þm. að taka höndum saman í hverju því máli sem hér er borið fram sem stuðla mætti að stöðvun þessa skelfilega leiks.