11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

189. mál, afstaða Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Íslendingar hafa verið minntir á þau stóru mál sem hér er verið að ræða í þingsölum með þeim hætti að meiri hluti landsmanna og kannske drjúgur meiri hluti hefur ekki komist hjá að veita því athygli þar sem var sýning íslenska sjónvarpsins á mynd um afleiðingar kjarnorkustyrjaldar sem bar nafnið „Þræðir“ og fékk áreiðanlega ýmsa sem á horfðu til þess að staldra við. Þessi mynd hafði legið um eins árs skeið hjá íslenska sjónvarpinu áður en loks var tekin ákvörðun um að sýna hana, svo viðkvæmt er að draga fram fyrir íslenskan almenning hvaða líkur eru á afleiðingum kjarnorkustríðs hvar sem er á heimsbyggðinni þar sem kjarnorkusprengja fellur. Ég hygg að þessi mynd hafi orðið, a.m.k. í bili, til þess að breyta allverulega afstöðu manna til kjarnorkuvopna og afvopnunarmála yfirleitt.

Í framhaldi af sýningu þessarar myndar var m.a. rætt við formann Almannavarna ríkisins, Guðjón Petersen. Hann var spurður um viðbúnað af Íslands hálfu til að mæta hugsanlegri vá af kjarnorkuvopnum á Íslandi, nánar tiltekið á Suðurnesjum og Reykjavíkursvæðinu. Það var sannast sagna nokkuð sérkennileg mynd sem þar var dregin upp af forstöðumanni Almannavarna, mynd sem í rauninni sagði okkur það, orð forstöðumannsins, að af hálfu íslenskra stjórnvalda hefði nánast ekkert verið hugað að öryggi Íslendinga ef kjarnorkustyrjöld brytist út eða ef kjarnorkusprengju yrði varpað á suðvesturhelming landsins.

Í kjördæmi hæstv. utanrrh. var það mat forstöðumanns Almannavarna að 4-5 klukkustundir þyrfti til að rýma það svæði frá því að aðvörun bærist um yfirvofandi árás, en ef það ekki tækist væru líkur á því að mannfallið á Suðurnesjum strax í kjölfar kjarnorkuárásar á Keflavíkurflugvöll með eins megatonns sprengju væri um 10 000 manns.

Spurður um höfuðborg landsins, sem er örskot frá Keflavíkurflugvelli í loftlínu mælt, voru svörin þau að það hefði aldrei verið litið á Reykjavík sem skotmark í þessu samhengi. Það hefði að vísu verið gerð áætlun um það fyrir 16 árum hvort hægt væri að skýla Reykvíkingum fyrir kjarnorkuárás á Keflavíkurflugvöll og þá hefði verið metið að unnt væri að koma um 70% íbúa höfuðborgarinnar fyrir í kjöllurum þar sem þeir teldust sæmilega óhultir vegna geislunar af eins megatonns sprengju sem félli í Keflavík. En síðan ekki söguna meir. Síðan hefur ekkert að þessum málum verið hugað af hálfu íslenskra almannavarna. Og þegar dregin var upp myndin af viðbúnaði var það allt á eina bókina lært hvað þetta snerti, öryggi hinna íslensku borgara. Þar var nánast ekkert tiltækt sem teldist lágmarksbúnaður, ekki þjálfaður mannafli til að bregðast við slíku, ekki geislamælistöðvar, ekki skýli, ekki viðvörunarkerfi, ekki birgðir af öryggisbúnaði, tæknilega og þjálfunarlega væru Almannavarnir illa undirbúnar.

Nú kann það að vera sjónarmið hjá stjórnvöldum eins lands að gera ekki ráð fyrir að slík vá gerist í reynd, það getur verið sjónarmið, treysta á það eitt að hafa í landinu herstöð annars risaveldisins sem augljóslega býður hættunni heim, hættu sem er vissulega slík að sterkar líkur benda til þess að menn séu þar hvergi óhultir miðað við mat fremstu sérfræðinga og vísindamanna á áhrifum af meiri háttar kjarnorkuátökum, hinn svokallaða kjarnorkuvetur.

En við hljótum að staldra við þessi efni þegar verið er að ræða um blekkinguna varðandi það öryggi sem okkur Íslendingum á að vera búið af því að hafa herstöð í landi okkar, að vera hér með búnað sem tekið getur við kjarnorkuvopnum, að vera með áætlanir vestur í Washington sem gera ráð fyrir því að fluttar verði kjarnorkusprengjur til Íslands, 48 talsins, og gögn sem utanrmn. voru sýnd sem staðhæfðu og báru stimpla um að Bandaríkjaforseti hefði á sínum tíma veitt heimild til slíks. Og Bandaríkjastjórn hefur ekki borið það til baka og gerði íslenska utanrrh. afturreka þegar hann spurði í einfeldni sinni og barnaskap: Hvernig í ósköpunum stendur á því að svona gögn eru á kreiki?

Við erum ekki að ræða sérstaklega um herstöðina í Keflavík og annars staðar á landinu þó það tengist þeim málum sem hér eru til umræðu. Við erum að ræða um afstöðu Íslands til afvopnunarmála, til kjarnorkumála. Og þau mál komu til umræðu utan dagskrár í Sþ. að gefnu tilefni þann 5. des. s.l., þegar degi eftir að það varð uppvíst, sem þáv. hæstv. utanrrh. hafði haldið fyrir sig, einnig gagnvart utanrmn. Alþingis, að Ísland stæði eitt eftir Norðurlanda í afstöðu til frystingartillögu Mexíkó og Svíþjóðar.

Ég hafði innt hæstv. utanrrh. eftir því á mánudegi, á fundi í utanrmn., hver yrði afstaðan. Hann sagði rétt til um það. Hugmyndin er að fylgja óbreyttri afstöðu. En hann greindi ekkert frá því mati sem upp væri komið og þeirri breyttu afstöðu annarra Norðurlanda sem Íslendingar þó hafa hengt sig aftan í í þessum efnum, hafa hengt sig aftan í fyrst Dani og Norðmenn, síðan Norðmenn eina, en síðan stöndum við eftir eins og þvörur, og hæstv. utanrrh. landsins stóð hér í ræðustól og reyndi að beita fyrir sig samhljóða samþykkt Alþingis um afstöðu til afvopnunarmála til að rökstyðja þessa dæmalausu afstöðu sína á þingi Sameinuðu þjóðanna og arftaki hans, núverandi hæstv. utanrrh., er við sama heygarðshornið. Hann vill nota samþykkt Alþingis frá 23. maí s.l. til að verja sig í þessu máli, sem rökstuðning fyrir þessari steingerðu afstöðu Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem menn sátu með hendur í skauti á sama tíma og hendur allra annarra Norðurlanda ýttu á græna hnappinn með jái við tillögunni. Hvað segir hæstv. utanrrh. okkur hér? Hann segir okkur: Ja, afstaða Norðmanna er bara óbreytt. Það er óbreytt afstaða frá 1984 hjá Norðmönnum. - En munurinn er sá að þeir greiddu till. atkvæði og að baki var breytt afstaða í norska þinginu til málsins. Meiri hluti í norska þinginu var á móti afstöðu hægri manna. Svo talar hæstv. utanrrh. um afstöðu Íslendinga og afstöðu Norðmanna eins og það sé einhver einn pakki, það sé heilagur pakki.

Það gæti verið að jafnvel núv. hæstv. utanrrh. ætti eftir að lifa þá stund, ef ekki sem ráðherra þá sem þm., að það væri ekki þessi steingerða afstaða, krafa Bandaríkjanna til Íslands um afstöðu í þessu máli, sem gilti á Íslandi. Það gæti svo farið, en til þess þurfa aðstæður á Alþingi Íslendinga að breytast frá því sem nú er. Til þess þurfa flokkar sem ekki hafa getað gert upp hug sinn í þessu máli að taka afstöðu. Þar hlýt ég að nefna fyrstan samstarfsflokk núv. hæstv. utanrrh. í ríkisstj., Framsfl., sem ekki hefur tekið hreina afstöðu í þessu máli, varð fyrir því degi eftir umræðuna 5. des. og reyndar samdægurs að formaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., arkaði yfir fordyri Alþingis yfir til forsrh. og greindi honum frá: Ef þessir piltar, formaður þingflokks Framsfl. og hans nótar þar í flokki, ætla að fara að derra sig eitthvað í utanríkismálum, ætla að fara að hafa uppi einhverja aðra skoðun á þeim en mér hentar er þessari stjórn slitið, þá er þessu stjórnarsamstarfi slitið. Þetta voru skilaboðin. Að vísu hafði hæstv. forsrh. ekki fyrir því að flytja samflokksmönnum sínum þessi skilaboð þannig að þeir fengu þau í gegnum morgunfréttirnar morguninn eftir. Þar heyrðu þeir fyrst af þessari stjórnarslitahótun Sjálfstfl. og þótti nú ýmsum nokkuð byrst og fóru að gefa yfirlýsingar, en þeir voru náttúrlega kveðnir í kútinn og innsiglaðir samdægurs, þetta var á föstudegi.

Hv. þm. Páll Pétursson mælti fyrir till. sem ég hef leyft mér að kalla hálfgerða moðsuðu í sambandi við þetta mál, sérstaklega með tilliti til tilefnisins. Þessi tilraun hans og þingflokks framsóknarmanna til að halda andlitinu með einhverjum hætti hefur tekist mjög óhönduglega í þessu efni. Hv. þm. var 1. flm. þess máls sem var næstsíðasta málið sem lagt var hér fyrir. Hann var gjörsamlega kveðinn í kútinn í þingflokki Framsfl. með þá hugmynd sína að styðja eindregið till., sem ég hafði undirbúið, um að Alþingi tæki afstöðu með Svíþjóðar-Mexíkó tillögunni um frystingu, greiddi atkvæði með henni. Um það snerist málið. Hv. þm. Páll Pétursson lét sig svo hafa það, eftir að hafa orðið þarna undir í þingflokki, að standa að þessari moðsuðu, að reyna að verja undanhaldið. Það er mannlegt og það er skiljanlegt. Og till. er meinlaus sem slík. En hún skiptir ekki máli. Hún er skot fram hjá.

Þegar þetta lá fyrir, um það leyti sem þeir voru að gera upp gagnvart Páli Péturssyni þingflokksformanni niðri í þingflokksherbergi framsóknar, tók Kvennalistinn þá afstöðu að endurflytja till. sína um frystingu kjarnavopna sem þingflokkur Kvennalistans hafði flutt á tveim þingum áður að ég hygg. Og því ekki það? Góð vísa aldrei of oft kveðin. En til þeirrar till. höfðum við tekið afstöðu þegar hún lá fyrir í utanrmn. í sambandi við samþykkt afvopnunartillögunnar 23. maí. Þar er tekin afstaða með frystingu kjarnavopna. En auðvitað styð ég till., sem hér var til umræðu áðan frá Kvennalistanum, um slíka afstöðu. Sú till. er efnislega hin sama og ég mæli fyrir og liggur fyrir á þskj. 225, till. til þál. um afstöðu Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar. Hún er flutt af mér og Steingrími J. Sigfússyni og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi lýsir yfir stuðningi við ályktunartillögu Svíþjóðar, Mexíkó og fleiri ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar risaveldanna (frystingu) og felur ríkisstj. að styðja þá tillögu á allsherjarþinginu eins og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert.“

Þessi till. er hér flutt. Ég legg til, herra forseti, að henni verði vísað til utanrmn. sem væntanlega fær þessar þrjár till. til meðferðar. Ég skal ekkert segja að hve miklu leyti á þetta mál reynir í því formi sem þessi till. fjallar um á þessu ári við upphaf næsta allsherjarþings eða á 42. allsherjarþinginu, en að því er vikið í lok grg. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Gera má ráð fyrir að hliðstæð tillaga og L.18 verði flutt að ári á 41. allsherjarþinginu og má heldur enginn vafi leika á um afstöðu Íslands þegar þar að kemur. Einnig þess vegna er tímabært að Alþingi taki af allan vafa um afstöðuna til hugmyndarinnar um frystingu kjarnavopna. Raunar er eðlilegt að Ísland leiti eftir að gerast meðflytjandi að tillögu Svíþjóðar, Mexíkó o.fl. ef hún kemur fram á 41. þingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1986.“

Nú er það svo, herra forseti, að nýr hæstv. utanrrh. tekur við utanríkismálum í landinu þegar mikil hreyfing hefur komist á umræðuna um afvopnunarmál milli risaveldanna og með hlutdeild margra annarra ríkja og þar á meðal ríkja sem leyfa sér þann munað, sem hæstv. utanrrh. vill helst frábiðja Íslandi, að hafa frumkvæði í þessum efnum og hafa sjálfstæða skoðun í þessum efnum eins og Svíþjóð og Mexíkó og fjölmörg önnur ríki sem hafa látið að sér kveða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og knúið á risaveldin um að slíðra vopnin, að taka upp samræður um afvopnun, að forða mannkyninu frá þeirri gereyðingu sem annars er á næsta leiti nema þarna verði snúið við blaði.

Auðvitað eru það tíðindi þegar annað risaveldanna, eins og Sovétríkin, hefur lýst og viðrað á alþjóðavettvangi tillögur sem eru með þeim hætti að æðstu ráðamenn vestur í Washington glenna upp skjáinn og spyrja, og ég hygg að hæstv. utanrrh. geri það líka: Hvað er að gerast? Að mati Reagans, ég hef það hér skráð í blaðaummælum fyrir framan mig, er um stórtíðindi að ræða sem hann og hans menn hafa enn ekki skýrt afstöðu sína til.

Ég inni, herra forseti, um leið og ég dreg í land með mál mitt hér og nú, hæstv. utanrrh. eftir afstöðu hans til þeirra tillagna sem aðalritari kommúnistaflokks Sovétríkjanna hefur kynnt á alþjóðavettvangi og hafa þótt verulegum tíðindum sæta. Hver er afstaða hans til þeirra tillagna og hvað telur hann líklegt að geti orðið framhaldið í ljósi þess frumkvæðis sem þó kom fram á þessum vettvangi og full ástæða er til að taka eftir? Reagan orðaði það svo í blaðaummælum að þetta sé í fyrsta sinn sem sú hugmynd sé sett fram að losa heiminn á ný við kjarnavopn. Ég hygg að það hafi verið aldamótin sem þessi forustumaður Sovétríkjanna nefndi í þessu samhengi.

Nú vil ég ekki vera að gera því skóna að Sovétríkin hafi aðeins einn og engilhreinan vilja í sambandi við afvopnunarmál. Menn hljóta að skoða þeirra tillögur gagnrýnið og af fyllsta raunsæi hvað þar er á ferðinni, en menn mega þó ekki láta það henda sig að kasta tækifærum sem skapast, hvaðan sem þau koma, til þess að brjóta ísinn, til þess að rjúfa vítahring vígbúnaðarins. Við heyrðum Edward Kennedy lýsa þeirri skoðun frá Moskvu fyrir fáum kvöldum að svo virtist sem þau skilyrði sem Bandaríkin helst hafa borið fyrir sig vegna þeirra mjög svo nýstárlegu hugmynda sem forustumenn Sovétríkjanna hafa kynnt í þessum efnum, eins og það að Bandaríkin falli með öllu frá SDI eða stjörnustríðsáætluninni, séu í reynd ekki fyrir hendi. Er mögulegt á árinu 1986, sem af hálfu Sameinuðu þjóðanna hefur verið lýst ár friðarins, séu að skapast skilyrði til að vinna sig út úr þeim geigvænlega og mér liggur við að segja brjálaða heimi sem við búum í og búum við þessa stundina? Í þessum málum hefur Alþingi Íslendinga ekki efni á að taka ekki afstöðu. Alþingi Íslendinga á að taka afstöðu til þessara mála. Flokkar sem ekki geta gert upp hug sinn, eins og Framsfl., og ég lýsi líka eftir afstöðu Alþfl., eiga að gera upp sinn hug til afvopnunarmálanna. Það má ekki leika vafi á því hvað felst í þeim ályktunum sem Alþingi samhljóða hefur gert þannig að utanrrh. Íslands og aðrir geti ekki skotið sér á bak við orðhengilshátt og túlkanir sem eru þeirra einkaskoðanir að margra mati.