29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

40. mál, erfðalög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. hefur beint til mín fsp. um hvað hefur verið gert eða áætlað að gera til þess að kynna fólki þau réttindi til setu í óskiptu búi sem fengust með lögum nr. 29/1985.

Lögin hafa að sjálfsögðu verið birt í Stjórnartíðindum eins og kveðið er á um í lögum. Það hefur hins vegar stundum komið fyrir að löggjafinn hefur talið þörf á sérstakri kynningu þar fyrir utan og kveðið á um það í lögunum sjálfum. Slíkt ákvæði er ekki í fyrrnefndum lögum nr. 29/1985. Annars mun ekki venja að stjórnvöld kynni almenningi ný lagaákvæði nema sérstakar ástæður þyki vera til slíkrar kynningar, t.d. ef lög veita tiltekinn frest til að neyta réttinda sem lögin kveða á um. Þá er vitanlega sjálfsagt að gera það og hefur verið gert.

Hvað lög nr. 29/1985 varðar munu skiptaráðendur að sjálfsögðu kynna fólki efni laganna eftir þörfum og leiðbeina við gerð yfirlýsinga er þar greinir. En að öðru leyti hafa lögin ekki verið kynnt sérstaklega og ekki er enn þá ákveðið með frekari kynningu á þeim.