11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

189. mál, afstaða Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefur gert grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þá till. sem hann hefur flutt. Reyndar ræddi hann töluvert meira um þessi mál sem eru tengd þeim atriðum sem eru á dagskrá í dag.

Ég vildi þó undirstrika það sem ég gerði að umtalsefni áðan varðandi afstöðu Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna á s.l. ári og skoðun hæstv. fyrrv. utanrrh. sem hann réttilega gerði grein fyrir utan dagskrár 5. des. s.l. og vísaði til samþykktar Alþingis í sambandi við afstöðu Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ég tók líka eftir því að hv. þm. talaði um skoðanir einstaklinga, þó ekki almenna túlkun. Þar má vel vera að hann hafi átt við skoðanir hæstv. fyrrv. utanrrh., en því mætti alveg eins halda fram að skoðanir hans væru persónulegar og einkaskoðanir á túlkun á samþykkt Alþingis frá 1985. Hæstv. fyrrv. utanrrh. byggði sína afstöðu á skilningi sínum á till. sem Alþingi samþykkti.

Hv. 5. þm. Austurl. spurði mig um afstöðu mína til tillagna Gorbatsjoffs. Ég sagði í ræðu minni fyrr í dag að mikilvægasti þátturinn í tillögum Gorbatsjoffs væri ef rétt reyndist að Sovétmenn muni fallast á gagnkvæmt og fullnægjandi eftirlit með framkvæmd afvopnunar, einmitt það sem sérstaklega er tekið fram í ályktun Alþingis frá 1985 og grundvallaratriði í mótun afstöðu til tillögu Svíþjóðar og Mexíkó, krafan um að þetta atriði væri þar með. Ég gat þess í upphafi máls míns að mér sýndist að hér væru stórveldin þegar búin til viðræðna um lausnir þessa máls með svipuðum hætti og Alþingi Íslendinga hefði ályktað og því bæri að sjálfsögðu að fagna. Ég undirstrikaði einmitt að við ættum þess vegna mjög að halda að þeirri stefnu sem Alþingi hefði samþykkt og hér voru allir sammála um.