11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

235. mál, loðdýrarækt

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þakka flm. fyrir flutning á þessari till. þó að ég haldi að þessi skipulagsmál, a.m.k. í sumum héruðum, séu ekki alveg eins bágborin og mér heyrist á hv. flm. og hv. 2. þm. Austurl. En þarna er að mörgu að hyggja. Það sem er vandamálið í sumum þessum héruðum er fyrst og fremst fóðrið, þ.e. að geta safnað því saman á þeim tímum sem það fellur til og geyma það fram að þeim tímum sem mest þörfin er.

Ég get ekki tekið undir það með hv. þm. Helga Seljan að fyrirgreiðslan sé ekki næg í þessum efnum. (HS: Hafi verið ónóg.) Hún er orðin mjög góð og langtum betri en er í öðrum greinum. Eftir að lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins var breytt 1979 var sýnilegt, eins og á stóð, að koma þyrfti fleiri stoðum undir landbúnaðinn. Þá var stefnt að því að reyna að vinna að þessari búgrein. Það átti að gerast með þeim hætti og hefur verið gert að landbrn. hefur gefið út leyfi. Við lögðum á það margir áherslu strax að fyrst þyrfti að byrja á fóðurstöðvunum og síðan ætti að gefa leyfin út miðað við þær fóðurstöðvar sem hægt væri að byggja.

Það var meining okkar margra þá að samið yrði við þá sem fengju lán og fyrirgreiðslu um að dregið yrði úr hinni hefðbundnu framleiðslu jafnóðum og þetta færi að gefa tekjur og reyna að semja um að sumir hverjir mundu hætta framleiðslu því að það var sýnilegt að þetta fer ekki saman, t.d. sauðfjárrækt og refarækt, vegna þess að annatíminn kemur á svipuðum tíma hjá báðum.

Það er alveg rétt, sem hefur komið fram, að þetta skipulag, sem áformað var, hélt ekki. En það er ekki vegna þess að það hafi ekki verið settar línur. Það voru gefin leyfi dálítið tilviljunarkennt án þess að hugsa fyrir fóðurstöðvunum.

Mesta vandamálið nú er það að búið er að laga fjárhag fóðurstöðvanna að ég tel. Ég er í þeirri aðstöðu að ég hlýt að fylgjast með þessum málum og ég tel að því hafi verið bjargað. Þær stöðvar, sem voru a.m.k. verst settar, hafa fengið fyrirgreiðslu. Ekki var hægt að byggja stöðvarnar miðað við örfá bú. Það var reiknað með að þetta mundi þróast og þess vegna var það út af fyrir sig hagkvæmt að byggja þær nokkuð mikið stærri en þörf var fyrir í bili en það ætti að jafna sig nú a.m.k. á næstu tveimur árum, þessar stöðvar ættu flestar að hafa sæmilega afkomu.

Mér kemur það á óvart ef menn halda því fram að fóðurkostnaðurinn sé um helmingur af veltu. Það er ekki miðað við þær tölur sem mér eru upp gefnar. Ég verð að segja það, miðað við fjármagnskostnað af nýjum búum, að ef fóðurkostnaður fer yfir 50% er öllu til skila haldið að það sleppi. Ég hef haldið að þetta væri í kringum eða innan við 40% miðað við 7 kr. verð eins og ég held að það sé í flestum stöðum. Annars er þetta auðvelt reikningsdæmi, þessi dýr þurfa um 250 grömm á dag sem eru orðin fullvaxin.

Það sem þarf að huga að í þessu sambandi er að það vantar frystihús, það vantar möguleika til að frysta og geyma þessa vöru. Það þarf að koma einhvern veginn í veg fyrir það að nokkrum úrgangi sé hent í sjóinn frá flotanum því að það eru að verða miklir möguleikar á að nota úrganginn, t.d. beinin, ekki einungis í loðdýraeða fiskeldi heldur til manneldis. Það er alveg nýtt, en við sjáum að það hillir undir það nú. En ég ætla ekki að fara meira út í það hér.

Við erum svo heppnir núna og vonandi í framtíðinni að við höfum nokkuð mikið af loðnu, en loðnan er langbesta fóðrið í fiskeldi. Ég lagði leið mína í fjórar rannsóknarstöðvar á Norðurlöndum til þess að spyrjast fyrir um þeirra tilraunir og ég hitti menn sem eru búnir að vinna við þetta í yfir 20 ár. Þeim bar saman um að loðnumélið og loðnan jafnvel beint sé besta fóðrið í fiskeldi. Það er auðvitað hægt að nota líka úrgang úr fiski og er gert, en það er talið lakara.

Ég held að eins og horfir fyrir landsbyggðinni nú í sambandi við þá möguleika að afsetja bæði mjólkurvörur og kjötvörur, ef byggðin á ekki að skreppa saman á næstu árum, þurfi einmitt að skoða þessi mál út frá því sjónarmiði að það eru ekki margir sýnilegir möguleikar til að breyta til. Það er loðdýrarækt. Það er fiskeldi mjög víða, sérstaklega ef hægt er að koma á félagslegu átaki í því efni. Ég fékk mann með mér t.d. til að skoða möguleikana í Norður-Þingeyjarsýslu á milli jóla og nýárs. Miðað við þær forsendur og líkur sem heimamenn gefa sér þar var talið og er talið, ekki einungis af þeim manni sem ég var með heldur af sérfræðingum sem hafa skoðað þetta úti í Noregi, að það ætti að vera hægt að framleiða vandalítið a.m.k. 20 þús. tonn í Axarfjarðarsandi einum af laxi, sandhverfu, bleikju og fleiri tegundum. Það sem kannske verður helsta vandamálið er kalt vatn, ekki heitt. Ég segi þetta í þessu samhengi.

Ég endurtek svo þakklæti mitt fyrir að þessu máli skuli hreyft, en það þarf að athuga þetta og kannske breyta till. því að það sem fyrst þarf að huga að nú er að safna saman fóðrinu á þeim tímum sem minnst er af því vegna þess að þörfin fyrir mesta fóðrið er á þeim tíma sem minnst fellur til. Það kostar mikið að byggja frystiskemmur fyrir það og þarf þá að gera úttekt á því hvort þetta borgar sig ef það reynist rétt sem hv. flm. taldi, sem mér kemur á óvart, að nú sé fóðurkostnaðurinn helmingur af veltunni.