11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

235. mál, loðdýrarækt

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir sem talað hafa hér þakka flm. fyrir að leggja fram þessa till. og get ekki stillt mig um að lýsa stuðningi við meginefni hennar. Ég er reyndar lítt kunnug þessu efni, loðdýrarækt, en mér er það ógleymanlegt þegar ég gerði tilraun til þess á s.l. ári að kynna mér ofurlítið hvernig staðið væri að málum í þessari atvinnugrein. Mér ofbauð gersamlega að heyra um það skipulagsleysi sem ríkt hefur í þessum efnum. Ég spurði m.a. búnaðarmálastjóra að gefnu tilefni hvaða skilyrði menn þyrftu að uppfylla til þess að fá leyfi til rekstrar loðdýrabús. Svarið var, eins og ég raunar vissi þá fyrir, að þau væru engin nema þá það eina skilyrði að menn væru að draga saman í hefðbundnum búskap og fara út í loðdýrarækt í staðinn. Menn þurftu sem sagt ekki að kunna nokkurn skapaðan hlut til verka og ég er ekki í nokkrum vafa um að sú fákunnátta sem lagt var upp með í uppbyggingu loðdýraræktar hefur þegar orðið okkur nokkuð dýrkeypt.

Þarna er að sumu leyti sömu sögu að segja og í fiskeldinu og ýmsum fleiri atvinnugreinum. Okkur Íslendingum hættir til að geysast heldur fyrirhyggjulítið út í eitt og annað. Ég get ekki látið vera að lýsa því að ég skelfist nokkuð þær hrikalegu áætlanir sem maður heyrir um í þessari búgrein, loðdýraræktinni. Ég held að menn ættu að fara örlítið hægar í sakirnar og legg áherslu á að efld verði þekking í loðdýrarækt.

En ég endurtek að ég styð efni þessarar till.