11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

248. mál, póstlög

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér hér að mæla fyrir frv. til póstlaga. Í febr. 1985 skipaði ég nefnd til að endurskoða gildandi póstlög, en þau eru frá árinu 1940, nánar tiltekið nr. 31 12. febr. það ár. Þessi lög eru því nokkuð komin til ára sinna, orðin hálffimmtug og sett á umbrotatímum styrjaldar og örra þjóðfélagsbreytinga.

Í nefndinni, sem fjallaði um þetta mál og samdi þetta frv., áttu sæti Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í samgrn., sem var formaður nefndarinnar, Rafn Júlíusson póstmálafulltrúi og Óskar Kristjánsson forstjóri. Nefndin naut aðstoðar og ráðgjafar Árna Guðjónssonar hrl., lögmanns Póst- og símamálastofnunarinnar og Ragnhildar Hjaltadóttur deildarlögfræðings í samgrn.

Áður en ég geri efnislega grein fyrir frv. langar mig til að stikla á fáeinum atriðum í sögu póstþjónustunnar á Íslandi. Póstþjónusta af hálfu hins opinbera hefst á Íslandi með útgáfu tilskipunar Kristjáns konungs VII. um Póststofnun á Íslandi hinn 13. maí 1776. Opinberum póststofnunum var komið á fót víðast hvar í Evrópu á 16. og 17. öld, í Danmörku, svo að dæmi séu nefnd, 1624, í Noregi 1647 og í Svíþjóð 1636.

Skv. tilskipuninni skyldi póstur ganga þrisvar á ári úr hverjum landsfjórðungi til Bessastaða í tengslum við póstskip milli Íslands og Danmerkur. Stjórn og skipulag póstmála var í höndum stiftamtmanns og sýslumannanna 18. Í tilskipun er skýrt tekið fram að póstferðum sé fyrst komið á fót til þess að áríðandi embættisbréfum yrði greiðlega komið áfram.

Það vekur athygli að ekki er gert ráð fyrir póstferðum frá Bessastöðum til baka. Þá var og í sparnaðarskyni gert ráð fyrir að sýslumenn mættu senda bréfin með t.d. vermönnum. Ætla hefði mátt að undinn hefði verið bráður bugur að því að koma póstferðunum á en það dróst allt til ársins 1782 að fyrsta póstferðin væri farin.

Gjaldskrá var svo gefin út 8. júlí 1779 og skyldi burðargjald skv. henni vera 2 skildingar fyrir bréf úr einni sýslu í aðra og síðan bættust tveir skildingar við fyrir hverja sýslu sem bréfið var flutt um. Hvergi var minnst á burðargjöld fyrir bréf til útlanda og verður því að ætla að þau hafi verið flutt ókeypis.

Fyrsta póstferðin hófst 10. febr. 1782 og hét pósturinn Ari Guðmundsson. Hann lagði upp frá Reykjarfirði við Ísafjarðardjúp, hélt þaðan um Ögur til Ísafjarðar og síðan gangandi alla firði suður uns hann kom 16. febr. að Haga á Barðaströnd. Þar bjó sýslumaður, Davíð Scheving. Þar sem pósturinn hafði aðeins örfá bréf meðferðis þótti sýslumanni ekki svara kostnaði að senda Ara áfram suður heldur bað hann vermann á leið suður fyrir bréfin. Fleiri voru póstferðir ekki það árið og það var ekki fyrr en 1785 að póstferðir í samræmi við tilskipunina frá 1776 hófust reglulega.

Stiftamtmaður hafði með höndum yfirstjórn póstmála til 1803, að bæjarfógetinn í Reykjavík tók við bréfaafgreiðslunni. Fjármál Póststofnunarinnar höfðu aftur frá upphafi verið í höndum landfógeta. Sýslumenn voru sem bréfhirðingarmenn. Að því kom þó að farið var að fela öðrum en sýslumönnum að annast póstafgreiðslu og er fyrsta dæmið um slíkt í Rangárvallasýslu árið 1845 en þá var heimilað að setja póstafgreiðsluna í Odda þar sem sýslumaður hafði þá tekið sér bólfestu í Vatnsdal í Fljótshlíð.

Smátt og smátt fjölgaði póstferðum og um miðja 19. öld munu þær hafa verið átta á ári. Milli Danmerkur og Íslands sigldi póstskip reglulega allt frá 1778, fyrst einu sinni á ári en 1851 var ferðum fjölgað í þrjár á ári.

Framkvæmd og rekstur póstþjónustunnar var ekki í höndum eiginlegrar póststofnunar og ekki einu sinni undir umsjá dönsku póststjórnarinnar heldur heyrði undir ráðuneyti það sem með önnur Íslandsmálefni fór, „Rentekammeret“. Umræður um hvort eigi mundi heppilegt að setja póstþjónustuna á Íslandi undir dönsku póstþjónustuna hófust í kjölfar nýrra póstlaga í Danmörku 1851 og útgáfu fyrstu dönsku frímerkjanna það ár. Það var þó fyrst hinn 25. ágúst 1869 að gefin var út tilkynning um að frá 1. mars 1870 muni danska póststjórnin annast póstferðir milli Danmerkur, Færeyja og Íslands. Póststöðvar voru stofnaðar í Reykjavík og á Seyðisfirði og sérstakur póstmeistari skipaður, Óli Finsen.

Þessi danska póstþjónusta stóð í tvö ár því að 26. febr. 1872 var gefin út ný tilskipun um póstmál hér á landi. Tilskipunin gerði ráð fyrir að stofnsettar yrðu 15 póstafgreiðslur og 54 bréfhirðingar. Með henni má segja að grundvöllurinn hafi verið lagður að póstþjónustu og póstlöggjöf eins og henni er háttað nú á dögum.

Fyrstu póstlögin voru sett árið 1907. Þeim lögum var breytt nokkrum sinnum en heildarlöggjöf var gefin út 1921 og síðan var sett sú löggjöf sem þetta frv, til póstlaga fellir úr gildi, þ.e. póstlögin frá árinu 1940.

Tilefni endurskoðunar póstlaganna frá 1940 er í fyrsta lagi það hversu úrelt þau eru orðin um allt, bæði vegna þróunar póstmála hér á landi en ekki síst vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á alþjóðavettvangi og Ísland hefur þegar gengist undir með aðild sinni að alþjóðapóstsamningum. Óhætt er að fullyrða að í reynd hefur þessi skipan mála ekki komið svo mjög að sök, hvorki fyrir viðskiptavini né rekstur póstþjónustunnar sem slíkrar, þar sem í gjaldskrám og reglugerðum, settum með heimild í lögunum frá 1940, hefur þess verið gætt að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum breytingum.

Markmið þessa frv. er því fyrst og fremst það að lögfesta þær breytingar á þjónustu póstsins sem þegar eru að nokkru leyti komnar til framkvæmda. Jafnframt eru tekin inn ákvæði sem nefndin, er samdi frv., taldi að horfðu til bóta svo og er þess freistað að færa ákvæði núgildandi laga í nútímahorf. Frv. er flutt hér nánast óbreytt frá því sem nefndin skilaði því, með einni undantekningu þó.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. lagði nefndin til að það nýmæli yrði tekið inn í frv. að póstgíróstofunni verði heimilað að veita viðskiptamönnum sínum hliðstæða þjónustu og bankar og sparisjóðir veita varðandi inn- og útlán. Á þetta var ekki fallist en það er að sjálfsögðu opið fyrir þingnefnd að taka málið upp ef hv. þm. sýnist svo. Ég ákvað að taka þetta út úr frv. af þeirri einu ástæðu að ég tel eins og fleiri að nóg sé til af bönkum í þessu landi. Hins vegar er það opið hv. þdm. hvort þeir vilja taka þetta inn í frv. eða ekki.

Í starfi sínu leitaði nefndin víða fanga og kynnti sér m.a. póstlöggjöf Dana og Svía. Enn fremur fór hún vandlega yfir og ræddi álit nefndar sem Norðmenn komu á fót í nóv. 1980 og skilaði áliti ásamt drögum að frv. til póstlaga seint á árinu 1983. Að sögn nefndarinnar auðvelduðu gögn þessi mjög allt starf hennar.

Frv. er skipt í 8 kafla og 39 lagagreinar. Í 1. kafla er póstþjónustan skilgreind og verksvið hennar markað. II. kafli fjallar um einkarétt póstþjónustunnar og eru efnisákvæði hans að mestu óbreytt frá núgildandi póstlögum.

Í Ill. kafla frv. eru ákvæði um póstleynd. Í núgildandi póstlögum eru nokkuð skýr fyrirmæli um það hvað leynt skuli fara með í meðferð póstsins þannig að ekki var talin ástæða til að breyta þar um en rétt er að benda á 10. gr. frv. sem veitir heimild til þess að opna póstsendingar í undantekningartilvikum eftir sérstökum reglum er settar skulu af ráðherra.

IV. kafli frv. fjallar um meðferð póstsins og eru ákvæði hans efnislega hliðstæð ákvæðum núgildandi póstlaga en lagagreinum er fækkað með það í huga að gera ákvæðin skýrari. Mörg atriði í núgildandi lögum varðandi póstmeðferð eiga frekar heima í reglugerð og önnur atriði eru orðin úrelt.

Í V. kafla frv. eru ákvæði er snerta gjaldskrá póstsins og frímerki. Engin nýmæli eru þar á ferðinni en þess er freistað að gera ákvæðin skýrari.

VI. kaflinn fjallar um skaðabætur og í VII. kafla er greint frá viðurlagaákvæðum frv.

Rétt er að benda á tvö nýmæli í kaflanum um skaðabætur. Í fyrsta lagi er það nýmæli í 33. gr. að verði tjón á sendingu meðan hún er á íslensku póstsvæði greiðast skaðabætur eins og um innlenda sendingu sé að ræða, enda sé það hagstæðara fyrir hlutaðeigandi tjónþola.

Í öðru lagi er nýmæli í 34. gr. Þar er sett inn ákvæði sem heimilar Póst- og símamálastofnuninni að bæta tjón skv. almennum skaðabótareglum ef ástæður eru slíkar að ákvæði þessa kafla þykja ekki eiga við.

Ég hef hér greint frá þeim efnisatriðum frv. til póstlaga sem ég tel skipta mestu máli og sé ekki ástæðu til að hafa þessa framsögðu lengri. Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umræðu og hv. samgn.