11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

248. mál, póstlög

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. því að mér gefst kostur á að fylgjast með vinnu þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem fær frv. til umfjöllunar.

Ég ætla að beina hér spurningu til hæstv. samgrh.: Ef þetta frv. verður að lögum kemur það í veg fyrir að starfsemi annarra aðila, sem nú tíðkast, t.d. Póstfax - ef ég man nafnið rétt á þeirri stofnun sem fer með hraðsendingar á milli landa - geti haldið áfram?

Þegar maður les yfir þessi lagaákvæði finnst manni einkaréttur Pósts og síma orðinn ansi teygjanlegur, sem hann reyndar hefur verið. Er þörf á því að hafa þetta svona fast niðurneglt að helst ekki nokkur maður megi fara með bréf á milli staða án þess að það sé frímerkt, eins og kemur hér fram í 6. gr.?

„Enn fremur má flytja fyrrnefndar sendingar utan pósts ef þær eru frímerktar skv. gildandi gjaldskrá fyrir póstþjónustu og frímerkin síðan gerð ógild, eða þegar einhver flytur sendingar fyrir sjálfan sig eða aðila sem hann starfar fyrir.“ Á að skilja þetta ákvæði svo að hér eigi að fara að herða reglur eða hafa þessi einokunarlög verið það hörð að það má helst ekki fara með skriflegar sendingar á milli staða, hvorki fyrir sjálfan sig né aðra, án þess að hafa á þeim frímerki frá Pósti og síma?

Einnig segir hér í 4. gr., b-lið, með leyfi forseta: „Aðrar lokaðar sendingar, sem uppfylla skilyrði til þess að vera veitt viðtaka í póst að svo miklu leyti sem innihald þeirra er ritaðar orðsendingar eða prentaðar tilkynningar, útfylltar með skrift, að undanskildum vörureikningum, fylgiseðlum, farmskrá og svipuðum fylgiskjölum eða sendingum sem heimilt er að flytja án atbeina póstþjónustunnar.“

Ég verð að viðurkenna að ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir því hvað þetta ákvæði þýðir, að það sé eingöngu hægt að flytja á milli staða skriflegar sendingar, tilkynningar, prentaðar eða skriflegar, sem ekki eru vörureikningar, fylgiseðlar, farmskrár eða svipuð fylgiskjöl. Ég vildi aðeins fá nánari útlistun á því hvað þetta þýðir.

Þegar maður les yfir grg. frv. verður maður lítils vísari um innihald þess. Enn fremur þegar maður fer yfir athugasemdir um breytingu á einstökum greinum, þá er efnið samhljóða 10. mgr. eða 20. gr. núgildandi laga eða nefnt er að ákvæði þessarar greinar séu mjög svipuð og þær lagagreinar sem nú eru í gildi, en mjög lítið um breytingar. Er ekki tími til kominn að við stokkum þetta upp og léttum svolítið á þessari einokun? Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. með það að við höfum nóg af ríkisbönkum hér á landi þótt við hefðum ekki Póst og síma sem einkapóstþjónustuaðila og þar að auki ríkisbanka. Ég tek alveg fyllilega undir þá skoðun ráðherrans en vildi fá aðeins nánari útlistun á því hvað þessar vafagreinar þýða.