11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Fyrir afkomu þjóðarbús og landsmanna allra skiptir það miklu máli að vel takist til með sölu á framleiðslu okkar á erlendum mörkuðum. Óneitanlega hefur þáttur sölu- og markaðsstarfsins oft verið vanmetinn hér á landi. Það hefur vissulega tekið okkur lengri tíma en aðrar þjóðir að viðurkenna þýðingu sameiginlegs átaks á sviði markaðs- og kynningarmála erlendis. Tilgangurinn með því að setja á stofn Útflutningsráð Íslands, eins og lagt er til í fyrirliggjandi frv., er að ráða á þessu nokkra bót.

Sameiginlegt starf okkar að markaðs- og kynningarmálum erlendis hefur verið heldur fátítt á undanförnum áratugum. Ástæða er að minna á það merka átak sem gert var þegar Ísland tók þátt í heimssýningunni 1939 og enn fremur má minna á þátttöku landsins í heimssýningunni í Montreal 1967. Á fyrstu áratugum eftir síðari heimsstyrjöldina var einnig á vegum vörusýninganefndar skipulögð sameiginleg þátttaka íslenskra útflytjenda í vörusýningum í Evrópu. Það er hins vegar ekki fyrr en með tilkomu Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins að sett er á laggirnar sérstök stofnun til að sinna markaðsmálum.

Hvatinn að stofnun Útflutningsmiðstöðvarinnar var aðild Íslands að EFTA og þótti þá nauðsynlegt að styrkja iðnaðinn í samkeppni á heimamarkaði og aðstoða útflytjendur iðnaðarvara við að mæta hinni vaxandi samkeppni sem leiddi af afnámi tollverndar.

Í sambandi við EFTA-aðildina veittu Norðurlöndin fjármagnsaðstoð til stofnunar Norræna iðnþróunarsjóðsins til að auðvelda aðlögun iðnaðarins að fríversluninni. Úfflutningsmiðstöð iðnaðarins hefur á starfsferli sínum unnið merkilegt brautryðjandastarf. Enda þótt henni hafi verið ætlað að sinna þörfum iðnrekenda hefur Útflutningsmiðstöðin unnið mjög almennt að því að kynna land og þjóð á erlendum vettvangi. Vörusvið

Útflutningsmiðstöðvarinnar hefur aftur á móti verið mjög þröngt þar eð iðnaðarvörur sem Útflutningsmiðstöðin fjallar einkum um voru aðeins lítill hluti heildarútflutningsins. Sú skoðun hefur því átt vaxandi fylgi að fagna að nauðsynlegt væri að færa markaðsstarfsemina út þannig að hún næði til alls útflutningsins og þá einnig sölu á íslenskri þjónustu. Það er ekki aðeins nauðsynlegt að auka verðmæti útflutningsins og kynna hefðbundna gæðavöru heldur þarf einnig að stuðla með margvíslegum hætti að þróun og sölu nýrra vara. Þá þarf ekki aðeins að rækta mikilvæga og rótgróna markaði heldur einnig þreifa fyrir sér á nýjum mörkuðum.

Haustið 1984 samþykkti ríkisstj. að í samráði við útflytjendur og samtök þeirra yrði hafist handa um heildarendurskoðun á útflutningsmálum og með hvaða hætti æskilegt væri að ríkisvaldið stæði að þeim málum. Hér var m.a. átt við hvort ekki væri rétt að ein og sama stofnunin, útflutningsmiðstöð, annaðist aðstoð við útflytjendur þar sem fulltrúar frá öllum greinum útflutnings ættu aðild að ásamt fulltrúum ríkisvaldsins í sérstöku útflutningsráði.

Viðskrh. ber skv. réttarreglum um Stjórnarráð Íslands stjórnskipulega ábyrgð á utanríkisviðskiptum. Skipaði Matthías Á. Mathiesen þáv. viðskrh. hinn 11. jan. 1985 nefnd til að athuga og gera tillögur um fyrirkomulag útflutningsmála og þá sérstaklega með hvaða hætti mætti efla samstarf útflytjenda og stjórnvalda á sviði útflutnings. Formaður nefndarinnar var skipaður Ólafur Davíðsson, framkvæmdastjóri Félags ísl. iðnrekenda. Nefndin skilaði tillögum sínum til mín í lok des. s.l. og fylgdi því frv. það sem ég nú mæli fyrir. Vil ég nú gera nánari grein fyrir frv.

Skv. því skal stofna Útflutningsráð Íslands og er hlutverk þess þríþætt. Í fyrsta lagi skal ráðið koma á auknu samstarfi fyrirtækja, samtaka og stjórnvalda í málum er lúta að eflingu útflutnings. Í öðru lagi skal ráðið veita útflytjendum alhliða þjónustu og ráðgjöf í því skyni að greiða fyrir og auka útflutning á vöru og þjónustu. Í þriðja lagi skal ráðið vera stjórnvöldum til ráðuneytis í málum sem varða utanríkisviðskipti Íslendinga.

Rétt er að taka fram að aukið samstarf þeirra er sinna útflutningi getur haft margháttað hagræði í för með sér, t.d. í sambandi við kynningu á útflutningsvörum Íslendinga og Íslandi sem ferðamannalandi í ýmsum löndum. Hlutverk ráðsins er ekki einskorðað við útflutning vöru heldur tekur það einnig til þjónustu. Þar undir kemur verkefnaútflutningur, t.d. á sviði sjávarútvegs og jarðhita. Þá tengist ráðið aukningu ferðamannaþjónustu, t.d. með sameinaðri kynningu á Íslandi sem ferðamannalandi og útflutningsvörum okkar. Nokkur reynsla er komin á slíka kynningu erlendis við ákveðin tækifæri, t.d. heimsókn forseta Íslands til annarra landa. Þjónusta ráðsins mundi ekki aðeins felast í kynningarstarfi erlendis, m.a. á vörusýningum eða kynningu á vörum samhliða landkynningarstarfsemi, heldur margs kyns markaðsþjónustu fyrir íslenska útflutningsaðila. Þar undir kæmu almennar markaðskannanir og fyrir einstaka útflutningsaðila og margvísleg aðstoð í því sambandi, t.d. við skjalagerð. Eiginleg sala yrði hins vegar ekki hlutverk ráðsins heldur verkefni einstakra fyrirtækja eða sölusamtaka þeirra.

Útflutningsráð skal opið öllum aðilum sem flytja út vöru og þjónustu eða afla gjaldeyris á annan hátt, svo og samtökum atvinnugreina. Af hálfu stjórnvalda eiga fulltrúar sex ráðuneyta aðild að ráðinu, viðskrn., utanrrn., iðnrn., landbrn., samgrn. og sjútvrn. Almennir fundir ráðsins skulu að jafnaði haldnir tvisvar á ári eða oftar eftir ákvörðun viðskrh. eða stjórnar ráðsins. Viðskrh. eða sá sem hann tilnefnir boðar til þessara funda og stýrir þeim. Stjórn útflutningsráðs skipa síðan átta menn, valdir til tveggja ára í senn. Í stjórninni sitja fulltrúar tveggja ráðherra, viðskipta- og utanríkis-, auk þess fulltrúar fimm fyrirtækjasamtaka, fulltrúar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Sambands ísl. samvinnufélaga, Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, Félags ísl. iðnrekenda og Flugleiða. Ioks skal einn stjórnarmaður tilnefndur sameiginlega af aðilum í útflutningsráði öðrum en þeim sem í stjórninni sitja. Viðskrh. skipar stjórnina skv. tilnefningu viðkomandi aðila.

Útflutningsráðið skal starfrækja skrifstofu hérlendis þar sem starfar framkvæmdastjóri og annað starfslið. Mikilvægur þáttur í starfsemi útflutningsráðs verður þó á vegum fastra starfsmanna erlendis og með ferðalögum að heiman um markaðssvæðið. Aðeins með þeim hætti er unnt að skapa þau tengsl við markaðinn sem eru nauðsynleg forsenda árangurs. Í þessu sambandi má benda á að undanfarin ár hafa starfað viðskiptafullfrúar við sendiráð erlendis. M.a. starfaði Sveinn Björnsson skrifstofustjóri í viðskrn. í nokkur ár sem viðskiptafulltrúi við sendiráð Íslands í París og nú starfar Stefán Gunnlaugsson deildarstjóri í viðskrn. sem viðskiptafulltrúi við sendiráð Íslands í London. Þá starfa nú tveir viðskiptafulltrúar á vegum Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins, Úlfur Sigurmundsson fyrrv. framkvæmdastjóri Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins sem viðskiptafulltrúi í New York og Björn Guðmundsson sem er viðskiptafulltrúi í Þórshöfn í Færeyjum. Skal útflutningsráði heimilt að ráða viðskiptafulltrúa að höfðu samráði við viðskrn. og utanrrn. og starfa þeir í sendiráðum Íslands.

Um aðstöðu þeirra við sendiráðin skal að sjálfsögðu semja við utanrrn. Þá yrði útflutningsráði einnig heimilt að ráða eða styrkja menn til starfa erlendis í þágu þeirrar starfsemi sem ráðinu er ætlað að sinna. Tekjur útflutningsráðs eru af útflutningsgjaldi, iðnlánasjóðsgjaldi, árgjöldum aðila, framlagi ríkissjóðs, þóknun fyrir veitta þjónustu og sérstökum framlögum. Breyta þarf lögum um útflutningsgjald og Iðnlánasjóð vegna tekjuöflunar ráðsins. Miðað er við að útseld þjónusta standi undir kostnaði við þau störf sem unnin eru skv. beiðni einstakra fyrirtækja, a.m.k. ef þessi þjónusta fer umfram ákveðin mörk.

Varðandi tekjuöflun útflutningsráðs af útflutningsgjaldi lét fulltrúi Landssambands ísl. útvegsmanna í nefndinni bóka að hann væri andvígur því að taka ætti hluta útflutningsgjalds til ráðsins. Sem svar við þessu létu fulltrúar helstu útflutningssamtakanna er sæti áttu í nefndinni bóka að sameiginlegt átak í útflutningsmálum styrkti stöðu allra sem að þeim málum vinna. Þeir tóku fram að æskilegast virtist að geta nýtt þann tekjustofn sem útflutningsgjald væri í stað þess að leggja á nýtt gjald. Leiddi hins vegar sú endurskoðun sem nú stæði yfir til þess að útflutningsgjaldið yrði fellt niður yrði að sjálfsögðu að leita þarna annarra fjármögnunarleiða. Viðskrh. getur skv. tillögu stjórnar útflutningsráðs sett nánari ákvæði um skipulag og starfsemi ráðsins í reglugerð. Skv. frv. mundu lög um Útflutningsmiðstöð iðnaðarins falla úr gildi við gildistöku laganna um Útflutningsráð Íslands og tæki ráðið við starfsemi miðstöðvarinnar. Útflutningsmiðstöð iðnaðarins hefur um margt haft svipað hlutverk á sviði iðnaðar og Útflutningsráði Íslands er ætlað. Hlutur Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins í iðnlánasjóðsgjaldi mundi renna til útflutningsráðs.

Á Alþingi hafa ýmsir þm. oft rætt um nauðsyn þess að efla markaðsstarfsemi fyrir íslenskar vörur og þjónustu erlendis. Þetta er einmitt tilgangur þessa frv. og vænti ég þess að það fái fljóta og góða afgreiðslu Alþingis, en í því er gert ráð fyrir gildistöku laganna 1. júní n.k. Ég tel að leggja beri höfuðáherslu á að þau ráðuneyti, sem þetta mál og Útflutningsmiðstöð varðar mestu, komi til með að hafa aukin áhrif þegar fjallað er um þau málefni eða þá málaflokka sem undir þau heyra.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.