11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins fyrst láta í ljós ánægju mína með að þetta frv. er komið fram. Það hefur haft nokkuð langan meðgöngutíma, enda kannske skiljanlegt þar sem mörg sjónarmið þarf að samræma og reyndar sér þess örlítil merki í sumum greinum frv. að þar er um málamiðlun að ræða, m.a. í 4. gr. sem fjallar um stjórn útflutningsráðsins.

Ég vona að með þessu frv., sem vonandi verður að lögum á þessu þingi, verði brotið blað í sögu útflutningsmála á landinu. Lýsir þetta áhuga stjórnvalda almennt á útflutningsmálum. Það nægir að nefna í því sambandi áform fyrrv. iðnrh. um úthlaup í markaðsstarfsemi til hinna fjærstu heimshorna. Utanrrh. lýsti því yfir þegar hann tók við því embætti nú nýskeð að hann hefði mikinn áhuga á þeim málum og hefur heitið öflugum stuðningi. Þá hefur sjútvrh. stofnað til sérstaks markaðsátaks á sviði sjávarútvegsverkefna.

Það er aftur á móti svolítið vafamál hvort kannanir á vegum ríkisins leiði til byltinga í atvinnulífinu, hvort ný starfsemi, eins og t.d. verkefnaútflutningur, verði til beinlínis fyrir atbeina ríkisins. Ríkið hefur í þessu tilfelli ekkert að selja. Markaðsleit á vegum ráðuneytis fyrir vöru og þjónustu, sem það ráðuneyti ræður ekki yfir, er a.m.k. afar einkennileg aðferð. Einstaklingar og fyrirtæki verða að sjá sér hag í því að efla starfsemi sína á þennan hátt. Reynsla og sérþekking manna er yfirleitt ekki ríkiseign hér á landi.

Mín sannfæring er sú að ráðgjafarstarfsemi eða verkefnaútflutningur, verktakastarfsemi, sem rætt hefur verið um sem vænlega útflutningsgrein, sé miklum mun árangursríkari á vegum einkafyrirtækja en ríkisins eins og gerist í Austur-Evrópu. Það getur tekið nokkurn tíma að skapa sér nafn úti í hinum stóra heimi. Þar á ríkisvaldið auðvitað að koma til aðstoðar með áhættulánum. Auðvitað þarf að koma til margvísleg önnur velvild ríkisvaldsins. Það má nefna t.d. að mikil sérþekking er þegar saman komin á hinum ýmsu rannsóknarstofnunum og í Háskóla Íslands, það er mikilvægt að starfsmenn þessara stofnana geti fengið launalaust leyfi til að vinna við verkefni um skamman tíma, t.d. ef íslenskir verktakar erlendis þurfa á því að halda.

En við getum svo sem búið okkur til hálfopinber verktaka- eða ráðgjafarfyrirtæki þar sem opinberar stofnanir leita að viðfangsefnum fyrir verkefnalitla sérfræðinga. Vísir að þessu er Orkustofnun erlendis sem rekin er að nokkru leyti af fé frá iðnrn. og verður næstu þrjú ár. Við gætum alveg eins hugsað okkur Hafrannsóknastofnun á heimsmarkaði sem væri rekin af sjútvrn.

Ég hef hins vegar þá trú að slík fyrirtæki, sem eru í raun og veru undir pilsfaldi ríkisins, verði ekki langlíf. En þau gætu haft varanleg og alvarleg áhrif á einkarekstur á sama sviði sem ekki þyldi ríkisniðurgreidda samkeppni.

Það er hægt að benda á ýmislegt annað sem stjórnvöld geta gert til aðstoðar fyrir verkefnaútflutning og hvernig hægt er að hleypa slíkri starfsemi af stokkunum. Hollensk stjórnvöld stofnuðu t.d. verkefnaútflutningsfyrirtæki fyrir 25 árum, en það er sameignarfyrirtæki flestra hollenskra fyrirtækja sem stunda verktakastarfsemi og verkfræðilega ráðgjöf erlendis. Síðan gekkst hollenska stjórnin fyrir stofnun Holland Fish Foundation sem er ráðgjafarsamsteypa á sviði sjávarútvegs.

Danska stjórnin hefur gengist fyrir svipaðri þróun þar í landi. Það má nefna að Integrated Fisheries Project from Denmark auglýsa nú stíft um heiminn og verður nokkuð vel ágengt.

Í Svíþjóð og Japan er 50% af kostnaði við tilboðsgerð bókstaflega lagt fram sem áhættufjármagn af hinu opinbera. Í Danmörku er slík aðstoð allt að 45% en háð stærð verkefnis og samvinnu a.m.k. þriggja danskra fyrirtækja. Danska utanrrn. hefur m.a. það hlutverk að safna upplýsingum um útboð og koma þeim á framfæri heima og koma dönskum fyrirtækjum á lista um líklega bjóðendur í verk erlendis hjá bönkum og sjóðum úti í heimi. Danska utanrrn. hefur sérstakar skrifstofur og deildir til að aðstoða í þessum efnum út um allan heim. Hollenska ríkisstjórnin hefur mjög svipaða afstöðu og svipaða starfsemi í gangi.

Svo er þróunaraðstoð ýmissa landa beint og óbeint notuð til að afla verkefna fyrir ráðgjafa og verktaka. Ég get sagt frá því að ég kynntist þessu af eigin raun austur í Sri Lanka fyrir nokkrum árum. Þar var forstjóri norsku barnahjálparinnar að ferðast um með umboðsmenn norskra fiskimjölsverksmiðja. Ég rakst á þá í kokkteilboði einu sinni þar sem þeir voru í óða önn að stunda sölumennsku undir handleiðslu barnahjálparsérfræðingsins. Hann var búinn að vera á Ceylon í mörg ár og þekkti orðið mjög marga og notaði þessi sambönd alveg hiklaust til að koma norskri verslunarvöru á framfæri.

Nú skal því alls ekki haldið fram að okkur henti að apa allt upp eftir Dönum eða öðrum nágrannaþjóðum í þessum efnum. Við getum þurft að finna okkar eigin farveg. Við höfum nokkuð lengi átt okkar Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, eins og hæstv. ráðherra gat um. En hún hefur verið á nokkuð þröngt afmörkuðu starfssviði og með heldur litlu olnbogarými.

Þetta frv. um útflutningsráð er að mínu mati stórt skref á framfarabraut og lofar góðu ef að lögum verður, sem ég vona svo sannarlega, og menn kunna að notfæra sér þá möguleika sem það býður. Gert er ráð fyrir því að sameina kraftana með öflugum stuðningi ríkisvaldsins til að kynna íslenska söluvöru erlendis, hvaða nafni sem sú söluvara nefnist. Þessi viðleitni er allra góðra gjalda verð og alveg sérstaklega nauðsynleg. Það er verið að viðurkenna í þessu frv. að við getum bæði gert meira fyrir okkar hefðbundnu útflutningsvörur en jafnframt er litið á þörfina fyrir nýjar útflutningsgreinar.

Við þurfum að læra að hægt er að skapa gjaldeyri með fleiru en fiskútflutningi. Við þurfum að læra að það er ekki endilega sjálfgefið að lán séu svo til sjálfvirk til kaupa á fiskiskipum til að afla hráefnis til gjaldeyrisöflunar. Það er hægt að skapa gjaldeyri með öðrum aðgerðum. Við þurfum vissulega hjálp til að nýta þau viðskiptasambönd sem við eigum erlendis, t.d. ónýtta kvóta í vöruskiptaverslun. Sumir hafa nefnt Sovétríkin í þessu sambandi og tekið mið af verktakastörfum Finna þar í landi. Gallinn er þó líklega sá að Rússar líta frekar á okkur sem þróunarland og telja ólíklegt að eggið geti kennt hænunni mikið í þeim efnum. Það er þó aldrei að vita nema að við gætum á afmörkuðum sviðum komið okkar þekkingu og reynslu á framfæri og á markað fyrir austan tjald.

Við þurfum aðstoð stjórnvalda til að nýta opinber sambönd í alþjóðastofnunum, þó ekki endilega bein afskipti stjórnvalda, það álít ég að sé svolítið vafasamt. Ríkisstjórnir ýmissa þróunarlanda virðast nefnilega líta svo á að ef opinber afskipti koma til við einhvers konar tilboðsgerð þá sé það sjálfvirkt tilboð um þróunaraðstoð eða a.m.k. þá samhjálp eða „joint venture“, eins og það er kallað á erlendum málum, við lausn vandamála þróunarríkisins. Það læðist óneitanlega að sá grunur t.d. að mörg af þeim samböndum, sem sjútvrn. skapaði á s.l. ári og gerir jafnvel enn með sinni starfsemi á þessu sviði, hafi bókstaflega komið til fyrir þann misskilning að í boði væri rífleg þróunaraðstoð vegna þess að það var ráðuneyti með í spilinu. Það er jafnvel spurt feimnislaust - og ég þekki dæmi um það: Hvað ætlið þið að leggja mikla peninga með ef þið fáið tiltekið verkefni að vinna?

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég fagna því, eins og ég sagði áðan, að þetta frv. skuli nú hafa séð dagsins ljós og vona að það fái skjótan framgang.