11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. Ég vil byrja á að fagna því að umræða er hafin um útflutningsmál. Þar sem mjög skammt er síðan þetta var lagt fyrir Alþingi þá getur maður ekki gert sér fyllilega grein fyrir því hvort þetta á að vera akkúrat á þennan hátt eða annan. En ég vil gera athugasemd við ákvæði í 5. gr. þar sem talað er um að útflutningsráðið sé undanþegið opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs og sveitarfélaga. Hér er verið að tala um ráð sem getur aflað sér tekna sjálft. Enn fremur er sagt að ríkið skuli styrkja slíka starfsemi. Hvað er því til fyrirstöðu að þessir aðilar borgi sína skatta eins og aðrir? Þeir geta þá fengið hærri styrki á móti ef ástæða þykir til. Ég tel að jafnt eigi yfir alla að ganga og tel það alrangt að undanþiggja aðila frá sköttum með lögum, hvort sem er til ríkissjóðs eða sveitarfélaga.

Og önnur athugasemd varðandi 2. gr.: „Heimili og varnarþing Útflutningsráðs Íslands skal vera í Reykjavík.“ Í athugasemdum segir að þessi grein þarfnist ekki skýringa. Það er sem sagt sjálfsagt mál að útflutningsráðið skuli staðsett í Reykjavík. Ég tel þetta ekkert sjálfsagt mál. Ég tel að þessir aðilar geti komið sér saman um það hvar þeir vilji hafa sína starfsemi. Þó líklegt sé að það verði í nágrenni Reykjavíkur þá er alveg óþarft að binda það í lögum.