29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

42. mál, löggæsla á höfuðborgarsvæðinu

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég í annað sinn till. til þál. um að komið verði á fót lögregluvarðstöð í Mosfellshreppi, sem þjóni jafnframt Kjalarnes- og Kjósarhreppum. Till. hlaut ekki afgreiðslu úr nefnd á því þingi frekar en í hið fyrra sinn sem hún var flutt. Einnig flutti á seinasta þingi hv. 2. þm. Reykn., Gunnar G. Schram, fsp. um lögregluvarðstöð í Garðabæ.

Í svari hæstv. dómsmrh. við þeirri fsp. kom fram að dómsmrn. væri að láta gera úttekt á löggæslu á höfuðborgarsvæðinu öllu og athuga hvort unnt væri að auka hagkvæmni í starfsemi lögreglunnar. Ég vil við þetta tækifæri fagna því að slík úttekt hefur verið framkvæmd.

Það hefur nýlega komið fram í fréttum að þessari könnun sé nýlokið og því er nú spurt hvort hún muni leiða í ljós úrbætur þær sem fsp. sú, sem ég leyfi mér að mæla hér fyrir, fjallar um og ég flyt ásamt Ólafi G. Einarssyni. En fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvað líður úttekt á löggæslu á höfuðborgarsvæðinu á vegum dómsmrn.?

2. Er þess að vænta að niðurstöður leiði til þess að komið verði upp lögregluvarðstöð í:

a. Mosfellshreppi sem þjóni jafnframt Kjalarnes-og Kjósarhreppum,

b. Garðabæ.“