11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessari umræðu en geri það í örfáum orðum vegna þess að hv. 4. þm. Vesturl. lenti í nokkrum útistöðum í umræðunni. Ég ætla mér fyrst og fremst að víkja að 4. gr. frv. Ég held að það fari ekkert á milli mála að það er réttur skilningur hv. 4. þm. Vesturl. að það sé ekki og alls ekki beinlínis gert ráð fyrir því að fulltrúar launþegasamtaka í landinu velji einn af stjórnarmönnum útflutningsráðs. Ég held að um þetta þurfum við ekki að deila. Hins vegar er það jafnljóst að það er ekkert sem bannar það, einfaldlega vegna þess að Alþýðusamband Íslands er fyrst upp talið af þeim aðilum sem aðild munu eiga að ráðinu. (Gripið fram í: Samkvæmt stafrófinu.) Já, já, það getur vel verið að sú uppröðun sé á grundvelli stafrófs. Það er ekkert sem bannar það að þessi sameiginlegi aðili á vegum útflutningsráðsins verði einmitt frá ASÍ. En það er ekkert sem gerir ráð fyrir því að þaðan komi stjórnarmaður. Í þessu efni mætti allt eins segja að þeir aðilar, sem viðskrh. og/eða utanrrh. eiga að skipa í stjórn útflutningsráðsins, gætu verið frá ASÍ. Það er ekkert sem bannar það. Ég ætla ekki í þessari umræðu að halda því fram að það sé óumflýjanlegt að fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands eigi sæti í stjórninni. Ég er ekki viss um að það sé meginmál í þessu efni þó ég viðurkenni það að allur sá varningur sem seldur er sé unninn af höndum þess fólks sem þar á aðild að. Í þessu efni vil ég einmitt taka undir orð hv. 5. þm. Norðurl. e. þar sem hann vék að þeirri sérhæfni sem þarf til þess að fjalla um þessi mál, sölumálin.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil taka undir - eins og raunar allir aðrir sem hér hafa tekið til máls - að þetta er mjög þarft frv. og er að meginefni í þeim anda sem ég hefði getað hugsað mér að fyrirkomulag þessara mála verði. Ég óttast hins vegar að slíkt ráð geti orðið of mikið bákn, að öll málsmeðferð geti orðið, ef menn ugga ekki að sér, of þung í vöfum. Og ég vil mælast til þess að þegar til framkvæmdarinnar kemur þá verði reynt að sníða þessari starfsemi einfaldan en skilvirkan stakk.