11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

257. mál, útvarpslög

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 488 leyft mér að flytja frv. til laga til breytinga á útvarpslögum sem samþykkt voru hér í júní á s.l. ári og tóku gildi um síðustu áramót.

Skemmst er frá því að segja, og óþarfi að rifja það upp í mjög löngu máli, að þegar þessi lög voru samþykkt og afgreidd hér frá hinu háa Alþingi fór síðari umræða um þau fram í Ed., í þessari hv. deild. Þá var staða málsins sú að stjórnarþm., meiri hlutanum í þessari hv. deild, voru settir þeir afarkostir af hálfu menntmrh. og ríkisstj. að þessum lögum yrði ekki breytt hér, ekki stafkrók, eða frv. eins og það kom frá Nd., hér yrði ekki breytt stafkrók. Og það varð að lögin fóru í gegnum þessa hv. deild án þess að í þeim væri nokkru breytt frá því sem hv. Nd. afgreiddi þau, enda þótt á það væri oftlega bent að á frv. væru margvíslegir annmarkar sem gerðu það að verkum að Alþingi gæti sóma síns vegna ekki samþykkt þau í þeirri mynd sem þau komu frá Nd.

Ég sagði þá að óhjákvæmilegt væri að flytja ýmsar brtt. við lögin ef þau yrðu samþykkt óbreytt. Ég hef nú gert það á þessu þskj. sem áður var um getið. Án þess svo sem að fara út í almenna umræðu um útvarpslögin ætla ég bara stuttlega að gera grein fyrir þeim brtt. sem ég flyt á þessu þskj.

1. brtt. er við 3. gr. laganna, þar sem fjallað er um skilyrðin fyrir því að útvarpsréttarnefnd geti veitt sveitarfélögum og öðrum aðilum leyfi til að reka útvarp. 1. brtt. er við 3. tölul., þ.e. þar er lögð sú skylda á útvarpsstöðvar að þeim beri að varðveita til frambúðar frumflutt dagskrárefni sem talið er hafa menningarlegt eða sögulegt gildi.

Mér er ljóst að þetta er orðað hér mjög almennum orðum og má sjálfsagt um það deila hvaða efni hafi sögulegt og menningarlegt gildi. Ég hygg þó að í framkvæmdinni sé þetta ekki mjög erfitt. Auðvitað má hugsa sér annað orðalag á þessu. Ég held að það sé nauðsynlegt að svona ákvæði sé til staðar í lögunum vegna þess að á Ríkisútvarpið er lögð slík skylda, en í 17. gr. laganna segir: „Ríkisútvarpinu ber að stuðla að því að frumflutt dagskrárefni stofnunarinnar verði varðveitt til frambúðar.“ Þetta er nú reyndar mjög ankannalega orðað: Ríkisútvarpinu ber að stuðla að því. Það er engin fortakslaus skylda sem hvílir á Ríkisútvarpinu um að varðveita þetta efni, heldur ber því aðeins að stuðla að því. En ég kem betur að þessu síðar. Ég held að slík skylda eigi að hvíla á öllum útvarpsstöðvum og því er þessi 1. brtt. flutt.

Í öðru lagi er breyting við 7. tölul. 3. gr. sem nú hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að aðrir aðilar en sá, sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar, kosti almenna dagskrárgerð þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði.“ Mér hefur verið á það bent af einum hv. þm. í þessari deild - sem er sjálfsagt rétt ábending - að hér ætti í rauninni að standa: Óheimilt er að aðrir aðilar en þeir sem leyfi hafa til útvarpsrekstrar. Ég orðaði mína brtt. bara eins og þetta er orðað hér í frv., en ég hygg að þessi ábending, sem ég hef fengið, sé alveg rétt og réttmæt. Ég legg til að þetta verði orðað svona:

„Óheimilt er að aðrir aðilar en sá, sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar, kosti almenna dagskrárgerð eða einstaka dagskrárliði. Þetta gildir þó ekki um áður framleitt efni, svo sem kvikmyndir eða fræðslu- og skemmtiefni af myndböndum.“

Þessi brtt. er flutt vegna þess að eins og 7. tölul. er hér, þá er hann ekki einungis óskiljanlegur heldur er hann algerlega óframkvæmanlegur þegar til þess kemur að aðrir aðilar fari að reka útvarpsstöðvar en Ríkisútvarpið.

3. gr. er till. um nýjan tölul. Ég sé nú raunar í einu dagblaðanna að hæstv. menntmrh. hefur gefið út reglugerðir í dag þar sem um þetta er fjallað. Sé nokkuð að marka blaðafregnir síðdegisblaðsins þá er þetta nokkuð með sama hætti og ég hef hér lagt til, þ.e: að erlendu sjónvarpsefni, sem sýnt er í íslenskum sjónvarpsstöðvum, skuli jafnan fylgja tal eða texti á íslensku, eftir því sem við á hverju sinni, nema um sé að ræða beina útsendingu eða endurvarp erlendis frá þar sem þýðingu verður ekki við komið.

Á þeirri ágætu ráðstefnu, sem hæstv. menntmrh. beitti sér fyrir í Þjóðleikhúsinu 1. desember, var samþykkt tillaga, held ég, um að allt efni skyldi þýtt eða textað. En það er auðvitað ekki hægt vegna þess að það þýddi í raun bann við því að taka á móti beinum útsendingum um gervihnött og það dettur auðvitað engum í hug. Ég held að þetta ákvæði eigi að vera í lögum, ekki reglugerð, og sé skynsamlegast að hafa það í þessa veru eins og hér er orðað. Sem sagt að þessi þýðingarskylda sé nema um sé að ræða beina útsendingu. - Hinu vildi ég svo skjóta inn í, þar sem ég á sæti í útvarpsráði, að útvarpsráð hafði látið í ljós þær óskir að fá þessar reglugerðir ráðherrans um útvarpsrekstur og annað a.m.k. til skoðunar, helst umsagnar, áður en þær yrðu látnar á þrykk út ganga og gildi taka. En við því hefur ekki verið orðið og ég held að það séu heldur óheppileg vinnubrögð vegna þess að ég á von á því að útvarpsráð hefði e.t.v. getað komið með ýmsar ábendingar sem betra er að komi fram á undan en eftir.

Í fjórða lagi geri ég brtt. við 17. gr. laganna þar sem segir eins og ég hef áður vitnað til: „Ríkisútvarpinu ber að stuðla að því að frumflutt dagskrárefni verði varðveitt til frambúðar.“ Ég held að þetta eigi að vera miklu ótvíræðara og legg til að þessi grein verði orðuð þannig:

„Útvarpsstjóri setur að fengnu samþykki útvarpsráðs reglur um frambúðarvarðveislu þess dagskrárefnis stofnunarinnar sem rétt er talið að varðveita vegna menningarlegs eða sögulegs gildis.“ Síðari hluti greinarinnar er óbreyttur.

Ég held að útvarpsstjóri eigi að setja slíkar reglur. Og eins og margvíslegar aðrar reglur, sem útvarpsstjóri setur, eru þær lagðar fyrir útvarpsráð einfaldlega til þess að útvarpsráð geti komið að sínum athugasemdum, en það er útvarpsstjóri sem hefur þetta vald.

Þá vildi ég, með leyfi forseta, aðeins minnast hér á annað mál sem er á dagskrá næst á eftir og ég hef einnig flutt frv. um. Í lögum um Þjóðskjalasafn er nú ákvæði sem er á þessa leið: „Ríkisútvarp (hljóðvarp, sjónvarp) skal varðveita myndir, plötur og hljómbönd eftir því sem útvarpsstjóri og útvarpsráð ákveða í samráði við þjóðskjalavörð.“ Ég gerði nokkrar athugasemdir við þetta á sínum tíma í nefndinni þegar um þetta var fjallað en vildi ekki flytja brtt. á því stigi vegna þess að það var lögð mikil áhersla á að afgreiða þetta frv. um Þjóðskjalasafn. Ég held að þjóðskjalavörður, með fullri virðingu fyrir embætti hans, geti ekki og hafi ekki aðstæður til að blanda sér inn í daglegan rekstur Ríkisútvarpsins með þeim hætti sem þetta ákvæði gerir honum skylt. Það þarf daglega meira og minna að taka ákvarðanir um hvaða efni skuli varðveitt til frambúðar úr dagskrá dagsins áður, dagskrá undangenginnar viku eða mánaðar. Það þarf stöðugt að vera að taka þessar ákvarðanir og ég held að allar ákvarðanir um þetta eigi að taka innan Ríkisútvarpsins. Þarna er mikið efni sem kemur til greina að varðveita. Það er mikill kostnaður sem fylgir þessari varðveislu vegna þess að myndsegulbönd, a.m.k. sem nota þarf til að varðveita það efni sem flutt er í sjónvarpi, eru dýr. Þetta er spurning um kostnað. Og auðvitað er þetta spurning um pláss og rými. Jafnvel þótt ágætt Þjóðskjalasafn hafi nú fengið heila mjólkurstöð til umráða þá kemur líka að því að þar þrýtur rými. Þetta þarf líka að vera aðgengilegt til endurflutnings. Ég held að þetta ákvæði í lögunum um Þjóðskjalasafn sé út í hött og það eigi að fella niður, þessu máli sé ágætlega borgið með því að þetta sé í höndum útvarpsstjóra og starfsmanna stofnunarinnar.

Þá kem ég að 5. gr. þessa frv. sem er breyting á 34. gr. laganna. Í henni segir að hver sá, sem hafi heimild til rekstrar útvarps samkvæmt lögum þessum, skuli varðveita í 18 mánuði a.m.k. hljóðupptöku af öllu frumsömdu efni. Ég margbenti á það í fyrra, virðulegur forseti, að þessi grein er tómt rugl. Af hverju á að varðveita frumsamið efni í 18 mánuði? Ef tilgangurinn með þessari varðveislu er bara sá sem segir í síðustu setningu greinarinnar, að skylt sé að láta þeim sem telji misgert við sig í útsendingu í té afrit af hljóðupptöku, þá á það ekki að gilda eingöngu um frumsamið efni, það á að gilda um allt efni sem flutt er í dagskránni. Og 18 mánuðir er þá óhæfilega langur tími. Venjan er sú að þetta eru fjórir mánuðir eða sex mánuðir.

Mín tillaga er sú að hver sá, sem heimild hefur til rekstrar útvarps, skuli varðveita í a.m.k. fjóra mánuði hljóðupptöku af útsendri dagskrá. Þetta er til að tryggja það, ef ágreiningur rís út af einhverju sem sagt hefur verið eða ekki sagt, að þá gerist það innan fjögurra mánaða. Það er því miður tiltölulega skammt síðan Ríkisútvarpið fór að varðveita alla dagskrána frá morgni til kvölds. Ég ítreka að 34. gr. útvarpslaganna eins og hún er nú er tómt rugl og raunar til vansa.

Í síðasta lagi er það tillaga mín að við ákvæði til bráðabirgða bætist - þar segir nú að lögin skuli endurskoða innan þriggja ára og mér þykir rétt að um það séu ákvæði hér líka - að menntmrh. leggi fyrir Alþingi nýtt frv. til útvarpslaga á árinu 1988, þannig að tryggt sé að endurskoðunin leiði til þess að breytt frv. verði lagt fram, og í öðru lagi að menntmrh. skuli árlega flytja Alþingi skýrslu um málefni Ríkisútvarpsins og framkvæmd útvarpslaga. Ég held að það sé nefnilega mjög góður siður, og kemur alveg heim og saman við það sem hæstv. ráðh. sagði í gær, að við ættum að hafa svona menningarmálaumræðu hér í þinginu sem fastan lið. Ég held að það ætti að vera fastur liður að ræða málefni Ríkisútvarpsins á Alþingi einu sinni á ári, og ræða framkvæmd útvarpslaga, sérstaklega eftir að margir aðilar verða farnir að útvarpa og sjónvarpa.

Ég sé ekki ástæðu til, virðulegur forseti, að fara fleiri orðum um þetta en legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til 2. umr. og menntmn. þessarar hv. deildar.