12.02.1986
Neðri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég stend ekki upp til að svara hinum ýmsu spurningum sem hv. þm. beindi til hæstv. viðskrh. Hins vegar stend ég upp til að segja að mér þótti ræða hans um verðbréfamarkaðinn athyglisverð. Ég er honum algerlega sammála um það að vitanlega er nauðsynlegt að setja þeim markaði ákveðnar reglur og strangar, hafa með honum eftirlit. Þótt ekki væri nema brot af því svo sem hann lýsti er þarna um mjög alvarlegt mein að ræða.

En mér voru það vonbrigði, sem hann sagði, að hann teldi að frv. til l. um verðbréfamiðlun væri tilgangslítið í þessu sambandi. Frv. var ekki lagt fram með það í huga. Það var þvert á móti lagt fram með hitt í huga, að með þeim lögum yrði unnt að ná nokkurri stjórnun og það góðri stjórnun á verðbréfamarkaðnum. Þær umsagnir hef ég m.a. frá Seðlabanka að sú löggjöf sem þar er gert ráð fyrir sé nauðsynleg í þessu skyni.

Það er rétt að verðbréfamarkaðurinn þarf að fá leyfi og það atriði er út af fyrir sig ekki stórt, en þeir sem hyggjast selja verðbréf þurfa að leggja fram bankatryggingu upp á 2 millj. og það er held ég spor í rétta átt. Það sem er kannske mikilvægara er að þessir menn eru upplýsingaskyldir. Þeir eru skyldugir til að leggja fram allar upplýsingar sem bankaeftirlitið krefst. Þeir eru felldir undir bankaeftirlitið. Ég hef litið svo á að 15. gr. þessa frv. væri ein sú mikilvægasta þar sem segir:

„Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skal hafa eftirlit með starfsemi verðbréfamiðlara og verðbréfasjóða. Skal bankaeftirlitinu heimill aðgangur að öllum gögnum og upplýsingum í starfseminni sem það telur nauðsynlegt. Telji bankaeftirlitið að starfsemi verðbréfamiðlara eða verðbréfasjóða brjóti í bága við lög þessi eða eðlilega viðskiptahætti skal það tilkynna það viðskrh.“

Ég er algerlega sammála hv. þm. um að auglýsingar eins og hann greindi frá áðan eru ekki eðlilegir viðskiptahættir, langt frá því. Ég hef bundið vonir við að verði þetta að lögum, ég er ekki að fara hér yfir ýmis önnur ákvæði t.d. nafnskráningu sem er skv. sérstöku frv., verði einmitt unnt með eftirliti bankaeftirlitsins að krefja þessa aðila um eðlilega viðskiptahætti, m.a. í auglýsingum. Það eru ekki eðlilegir viðskiptahættir ef almenningur er blekktur svo sem kom fram í ræðu hv. þm.

Ég vil því fagna því að hv. þm. hefur vakið athygli á þessu máli og mikilvægi þess að þarna sé stjórnun, en ég vonast eindregið til þess að hv. þm. komi á framfæri, t.d. í sambandi við meðferð á frv. til l. um verðbréfamiðlun, þeim breytingum sem þar kynni að þurfa að gera til að ná betri tökum á þessu máli. Ég held að fjh.og viðskn., sem um það mál fjallar nú, hljóti að taka slíkar ábendingar til meðferðar.