12.02.1986
Neðri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því að ég gat ekki hlýtt að öllu leyti á hv. 3. þm. Reykn. því að ég var að mæla fyrir tveimur málum í Ed. Ég hygg þó að ég hafi verið búinn að fá flestar spurningar hans í byrjun ræðunnar á síðasta fundi hv. Nd.

Skal ég þá fyrst víkja að starfsemi ávöxtunarsjóða. Hv. þm. fann að þremur atriðum er varða starfsemi sjóðanna, ófullnægjandi upplýsingum þeirra til viðskiptaaðila um raunverulega samningsskilmála, réttindaleysi eigenda verðbréfa sem gefin eru út af þessum sjóðum gagnvart stofnendum og stjórn sjóðanna svo og þeirri staðreynd að sama fyrirtæki hefur oft með höndum bæði verðbréfamiðlun og starfrækslu ávöxtunarsjóðs. Hann sagði einnig að lagafrv. um verðbréfamiðlun, sem liggur fyrir hv. Ed., tæki að sínum dómi ekki að neinu leyti á þessum atriðum.

Þessar athugasemdir hv. þm. kunna að eiga við um ástand mála í dag. Hitt er ekki rétt að frv. um verðbréfamiðlun láti sig engu varða þau atriði sem hann nefnir og finnur að. Frv. er beinlínis ætlað að taka til starfsemi ávöxtunarsjóða, sem í frv. eru nefndir verðbréfasjóðir, og vísa ég þá til 3. gr. þess frv. Það gerir einnig ráð fyrir að rík upplýsingaskylda hvíli á verðbréfamiðlara gagnvart viðskiptaaðilum hans. Þegar verðbréfamiðlari veitir upplýsingar skal hann taka tillit til hags og þekkingar viðskiptamanns og til þess að tryggja að þessu ákvæði svo og öðrum ákvæðum frv. sé framfylgt er bankaeftirlitinu falið eftirlit með starfsemi verðbréfamiðlara.

Að mínu viti er það ekki næg ástæða til lagasetningar að uppbygging ávöxtunarsjóðs sé með þeim hætti að áhrif þeirra sem eiga verðbréf sjóðsins séu ekki tryggð á stjórn hans. Einstaklingar og fyrirtæki verða að meta áhættuna af því annars vegar að festa fé sitt í bréfum sjóðs af þessu tagi og hins vegar að leggja það sem sparifé í banka eða sparisjóð. Ávöxtunin í síðast töldu stofnuninni kann að vera eitthvað lægri, en hún er einnig um leið að mínum dómi öruggari.

Sami þm. vék að viðskiptaaðilum Seðlabankans og sagði efnislega að í því væri allt við sama heygarðshornið og samkvæmt gildandi lögum. Þegar þetta er athugað nánar kemur í ljós að ákvæði frv. þrengja hóp þeirra er átt geta viðskipti við Seðlabankann frá því sem er í núgildandi lögum um Seðlabanka Íslands. Þessum aðilum má skipta í tvo hópa ef maður á að leggja út í það. Annars vegar er um að ræða peningastofnanir og hins vegar ríkissjóð og ríkisstofnanir. Um fyrri hópinn er fjallað í 6. gr. frv., en um hinn síðari í 11. gr.

Samkvæmt 6. gr. frv. er meginreglan að einungis innlánsstofnanir, þ.e. viðskiptabankar, sparisjóðir og innlánsdeildir samvinnufélaga, geti átt viðskipti við Seðlabankann. Hér er um verulega þrengingu að ræða frá gildandi lögum. Á hinn bóginn er ekki gengið jafnlangt og tillögur bankamálanefndar gerðu ráð fyrir því að í 6. gr. segir að ráðherra geti í reglugerð ákveðið að aðrar peningastofnanir skuli eiga viðskipti við Seðlabankann.

Það er og misskilningur hjá hv. þm. að það sé Seðlabankinn sem skuli ákveða hvort þessar stofnanir séu teknar í viðskipti. Það er alfarið ákvörðun viðskrh. skv. frv. Ég bið hv. þm. að blanda ekki þessum tveimur aðilum saman. Einnig er heimild ráðherrans í þessu efni sniðinn þröngur stakkur, það skal játað. Hann getur einungis tekið ákvörðun af þessu tagi ef sérstaklega stendur á. Það er skýrt nánar í hinum almenna hluta athugasemdanna sem frv. fylgja. Þar segir að einkum væri um þau tilvik að ræða þar sem geyma þyrfti erlent lánsfé með þeim hætti að það yrði ekki notað til tímabundinnar lánafærslu eða þar sem réttmætri lánsfjárþörf tiltekinna peningastofnana yrði ekki mætt nema með lánum úr Seðlabankanum. Enn fremur segir í athugasemdum að áður en ákvörðun um viðskipti annarra peningastofnana við Seðlabankann sé tekin skuli þess gætt að slíkt stangist ekki á við þá reglu frv. að Seðlabankanum sé óheimilt að keppa um viðskipti við innlánsstofnanir. Með þessu móti er að mínum dómi komið verulega til móts við tillögur bankamálanefndar en um leið allrar varfærni gætt.

Þess skal einnig getið að í nýju norsku seðlabankalögunum er að finna mun rýmri heimildir en í þeim íslensku um viðskipti Seðlabankans við aðra aðila en ríki og innlánsstofnanir. Um 11. gr., þar sem fjallað er um viðskipti ríkissjóðs og þeirra ríkisstofnana sem eru á fjárlögum við Seðlabankann, skal það sagt að efnisrök skorti fyrir tillögu bankamálanefndar að mínum dómi. Það er að mínu viti óeðlilegt að stjórn lánasjóðs geti upp á sitt eindæmi ákveðið hvort sjóðurinn skuli eiga viðskipti við Seðlabankann eða viðskiptabanka, en um þetta geta verið skiptar skoðanir. Þetta lagði hins vegar nefndin til. Seðlabankinn er viðskiptabanki ríkisins og því þarf það ekki að vera óeðlilegt að einstakar ríkisstofnanir eigi við hann viðskipti. Ég minni aftur á ákvæði nýju norsku seðlabankalaganna, en þar er gert ráð fyrir að norski seðlabankinn geti annast bankaþjónustu fyrir ríkissjóð og opinbera fjárfestingar- og lánasjóði. Ég tel að um þessi efni verði einnig að fara töluvert eftir þeim ráðuneytum og ráðherrum sem fara með hina einstöku sjóði eða hin einstöku mál og beri að taka tillit til þeirra óska sem fram kunna að koma á hverjum tíma.

Loks má ekki gleyma því varðandi stöðu viðskiptaaðila Seðlabankans að skv. frv. er það ákvæði núgildandi laga fellt niður sem mælir svo fyrir að innlánsstofnanir, aðrar opinberar lánastofnanir og fjárfestingarsjóðir skuli geyma laust fé sitt í reikningi í Seðlabankanum eftir því sem við verður komið. Þetta bætir stöðu viðskiptaaðila Seðlabankans, m.a. að því er varðar ákvörðun vaxtakjara hjá bankanum en þau voru gerð að umtalsefni s.l. mánudag.

Hv. 3. þm. Reykn. fjallaði um 8. gr. frv., en hún kveður á um heimildir Seðlabanka til innlánsbindingar eða bindingar ráðstöfunarfjár. Eins og ég vék að í minni framsöguræðu er gert ráð fyrir því að þessu stjórntæki verði einungis beitt þegar sérstaklega standi á. Það merkir að því verður einungis beitt þegar telja má að önnur stjórntæki bankans dugi ekki til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Einnig er kveðið svo á að samþykki ráðherra þurfi áður en til beitingar kemur. Þetta ætti að tryggja að bindingu verði beitt í hófi. Ákvæðið verður meðal annarra orða ekki túlkað öðruvísi en svo að það feli í sér þrengri heimild en er í gildandi lögum.

Hv. þm. kvartaði undan því í ræðu sinni að ríkisvíxlar, skuldabréf og önnur verðbréf, sem eru útgefin af ríkissjóði og Seðlabankinn kaupir á verðbréfamarkaði eða af peningastofnun til að stuðla að jafnvægi á peningamarkaði, skuli ekki teljast lán til ríkissjóðs. Skv. 2. málsgr. 11. gr. frv. er þetta svo. Meginefni greinarinnar fjallar hins vegar um lánveitingar Seðlabanka til ríkissjóðs og er þar kveðið svo á að Seðlabankinn geti einungis veitt ríkissjóði lán til skamms tíma og skuli slík lán greiðast upp innan þriggja mánaða frá lokum hvers fjárhagsárs með lántöku eða annarri fjáröflun utan Seðlabankans. Með þessu er reynt að fyrirbyggja að lántökur ríkissjóðs leiði til nýrrar peningamyndunar hvernig sem á stendur í efnahagsmálum. Ríkissjóður verður þannig að greiða almennan lántökukostnað sækist hann eftir meira lánsfé en svo að samrýmist því ákvæði sem hér er um rætt.

Verðbréfaviðskipti Seðlabankans á markaðnum, bæði með skuldabréf ríkissjóðs og önnur trygg verðbréf, eru af öðrum toga. Hér er um eitt af stjórntækjum Seðlabankans að ræða til að fylgja eftir þeirri stefnu sem mörkuð er á hverjum tíma á sviði peningamála. Þessu tæki hefur ekki verið beitt enn af Seðlabankanum, en á næstu árum gæti komið til þess að því yrði beitt. Markmiðið væri þá ekki að afla ríkissjóði lánsfjár heldur að stuðla að jafnvægi á peningamarkaði, stýra lausafjárstöðu einkaaðila og innlánsstofnana. Væru skuldabréf ríkissjóðs, sem keypt væru í þessum tilgangi, þannig lán til ríkissjóðs gæti það að ófyrirsynju gefið til kynna að fjárhagsstöðu ríkissjóðs væri þannig háttað að hann þyrfti að afla sér lánsfjár á almennum markaði.

Á það ber jafnframt að leggja áherslu að til þess að Seðlabankinn geti beitt þessu stjórntæki í þeim tilgangi sem ég hef hér lýst er nauðsynlegt að hann hafi töluvert sjálfstæði um beitingu þeirra stjórntækja sem hann hefur yfir að ráða lögum samkvæmt. Á það ber einnig að líta að ósennilegt er eðli málsins samkvæmt að Seðlabankinn kaupi skuldabréf ríkissjóðs á markaði samtímis því að ríkissjóður selur ný bréf.

Að því er varðar athugasemd hv. þm. um kaflann um bankaeftirlitið skal það fúslega viðurkennt að heldur hefur verið dregið í land frá tillögu bankamálanefndar, en það er oft sagt, sem hann sagði í sinni ræðu, að bankaeftirlitið sé samkvæmt frv. orðið alger undirsáti í Seðlabankanum og undir þeim sem þar fara með völd að öðru leyti. Ég vil benda á tvennt: Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi forstöðumann bankaeftirlitsins og sérstök samstarfsnefnd ráðuneytis og Seðlabanka fylgist með starfseminni. Með þessu móti eru bein tengsl eftirlitsins og viðskrn. efld.

Þá varpaði sami hv. þm. fram þeirri fsp., sem ég svaraði að vísu á mánudaginn, hvað liði útgáfu reglugerðarinnar um tryggingarsjóð viðskiptabanka. Þessi reglugerð, eins og ég sagði þá, var gefin út 31. janúar og ég vænti þess að bæði viðskiptabankar og einkabankar tilnefni í næstu viku sína menn í stjórn sjóðsins. Eins og ég sagði á mánudaginn væri ég tilbúinn að skipa formann tryggingarsjóðs.

Þá spurði þm. hvað liði fækkun og sameiningu viðskiptabanka, að bankaeftirlitið hefði krafið skoðunarmenn Útvegsbankans um reikningsuppgjör skv. 45. gr. laga um viðskiptabanka. Þess er að vænta að reikningsuppgjör berist ráðuneytinu innan tíðar ásamt greinargerð bankaráðsins um málefni bankans og umsögn bankaeftirlitsins. Þegar þessi gögn liggja fyrir kveða lögin svo á að ráðherra skuli leggja fyrir Alþingi tillögur um ráðstafanir er grípa skuli til. Hér er um grundvallargögn að ræða þegar rætt er um fækkun og sameiningu viðskiptabanka. Þess vegna verður Alþingi enn um sinn að bíða þangað til unnt er lögum samkvæmt að leggja fyrir þingið tillögur um ráðstafanir, en það verður hins vegar gert þegar þetta liggur fyrir.

Þá spurði hv. 3. þm. Reykn. hvers væri að vænta í sambandi, við greiðslukort og hvort væri að vænta framlagningar frv. til laga um greiðslukort. Það er mín skoðun að ekki séu nægar ástæður til sérstakrar lagasetningar á þessu sviði heldur beri að setja reglur um greiðslukort á grundvelli gildandi laga. Í 2. málsgr. 8. gr. laga nr. 56 frá 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, kemur fram að þegar horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar geti Verðlagsráð ákveðið tilteknar aðgerðir er miða að því að hindra að slíkt gerist. Meðal þessara aðgerða er setning reglna um verðlagningu og viðskiptakjör sem Verðlagsráð telur nauðsynlegar hverju sinni. Með vísan til þessa ákvæðis í fyrrnefndum lögum óskaði viðskrn. eftir við Verðlagsstofnun snemma í síðasta mánuði að hún gerði tillögu til ráðuneytisins varðandi tvo þætti greiðslukortaviðskipta.

Í bréfi ráðuneytisins er óskað eftir að samdar verði reglur er geri verslunum óheimilt að veita notendum greiðslukorta betri kjör en þeim sem staðgreiða. Ráðuneytið telur að þessu markmiði verði m.a. náð með því að banna útgefanda greiðslukorta að leggja kostnað við rekstur greiðslukerfisins á þá sem samþykkja að taka við greiðslum gegn framvísun greiðslukorta frá hlutaðeigandi útgefanda. Einnig gæti komið til greina að mati ráðuneytisins að skylda verslanir sem taka við greiðslukortum til þess að veita viðskiptavinum sem staðgreiða sérstakan afslátt sem væri sá sami og kostnaður verslunarinnar vegna greiðslukortaþjónustunnar. Þá er jafnframt óskað eftir að athugað sé hvort unnt er að takmarka notkun greiðslukorta við tiltekin viðskiptasvið. Í því sambandi leggur ráðuneytið áherslu á að athugað verði hvort notkun greiðslukorta sé heppileg í matvöruviðskiptum og telur rétt að kannað sé hvernig notkun greiðslukorta fari fram að þessu leyti í helstu nágrannaríkjum.

Þessi beiðni ráðuneytisins hefur legið fyrir Verðlagsráði og verðlagsstjóra síðan og er nú unnið að tillögum í þessu efni. Að vísu var settur frestur til síðustu mánaðamóta, en mér hefur verið tjáð að þetta mál væri svo erfitt og tímafrekt að nauðsynlegt væri að framlengja þennan frest nokkuð. Vitaskuld er ekki nema eðlilegt og sanngjarnt að gera það.

Ég held að ég hafi þá svarað í öllum höfuðatriðum beinum fsp. hv. þm., en eins og ég sagði bæði við lok framsöguræðunnar þegar ég fylgdi frv. úr hlaði og eins í ræðu minni á mánudaginn eru hér auðvitað mörg atriði sem koma til athugunar hjá þeirri hv. nefnd sem fær frv. til meðferðar og þá verður hægt að skýra mun nánar og betur það sem þm. óska eftir að fá upplýsingar um.