12.02.1986
Neðri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2532 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þakka svörin frá ráðherra svo langt sem þau náðu. Vitaskuld er rétt að það er verið að þrengja hóp þeirra sem geta haft viðskipti við Seðlabankann frá gildandi lögum, enda tók ég fram í minni ræðu að það væri verið að víkka hann frá frv. bankamálanefndar á sínum tíma: Það held ég að hæstv. viðskrh. hafi viðurkennt.

Að því er varðar viðskipti ríkisstofnana, hvort þau eigi að vera í viðskiptabönkunum eða Seðlabankanum, geta menn náttúrlega haft hvora skoðunina sem þeir vilja, en þarna hefur átt sér stað, eins og kom fram hjá ráðherra trúi ég, breyting frá því sem bankamálanefnd hafði lagt til.

Um 11. gr., sem ráðherra gerði mjög að umtalsefni, að því er varðaði ríkisvíxla, skuldabréf og önnur verðbréf útgefin af ríkissjóði, hafði ég vakið athygli á því að meiningu þeirrar málsgreinar hefði verið gjörbreytt frá því sem var í hugmyndum bankamálanefndar. En víst kemur til álita að opna með þessum hætti þessa leið fyrir ákveðið stjórntæki þó að það hafi ekki verið hugmynd bankamálanefndarinnar.

Varðandi sjálfstæði bankaeftirlitsins kom fram hjá hæstv. ráðh. að það væri öðruvísi en bankamálanefnd hefði gert ráð fyrir. Ég held að við ættum ekki að setja á neina tölu um hversu ósjálfstætt það sé orðið. Ég segi bara æ, æ.

Hæstv. ráðh. upplýsti það varðandi Útvegsbankann í tilefni af fsp. minni á grundvelli 45. gr. viðskiptabankalaganna að skoðunarmenn hefðu verið krafðir um grg. en hún ekki borist, en hún mundi væntanlega koma og þá mundu tillögur frá ráðherra koma. Ég hefði gjarnan viljað vita hvaða tímasetningar væru í þessu, hvaða frestur skoðunarmönnum hefði verið gefinn, hvort þess væri ekki að vænta að þetta gæti gerst fljótlega og hvort ráðherra treysti sér ekki til að koma með einhverjar dagsetningar í því tilviki.

Ráðherra svaraði ekki fyrirspurn minni um löggjöf um peningamálastjórn og að því er greiðslukortin varðar vil ég vekja athygli á því vegna ummæla ráðherra að það eru einkum tvö atriði sem ég tel að hafi ekki komið fram í þeirri nálgun þessa vandamáls sem ráðherra lýsti að hann hefði gert ráð fyrir að tileinka sér. Það er spurningin um hvaða réttar menn njóta og hvernig með skuli fara þegar kort glatast eða komast í hendur aðila sem fara rangt með þau, eiga ekki með það að gera að vera með þau undir höndum. Hitt er það atriði, sem ég tel að eigi sérstaklega heima í þeirri löggjöf sem hér er til umræðu, og það er að með útgáfu kreditkorta er í raun verið að gefa út peninga og stunda lánastarfsemi. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir Seðlabankann og bankaeftirlitið að hafa rétt til þess að fylgjast með því hversu mikil umsvif eru í þeim efnum ef menn ætla að hafa sínar heildarstærðir í lagi varðandi peningaumsvif í þjóðfélaginu og greiðslustrauma. Það ákvæði tel ég að eigi alla vega alveg ótvírætt heima í þeirri löggjöf sem við erum að fjalla um núna.

Ráðherra svaraði kannske ekki fsp. minni um þörf fyrir sérstaka löggjöf varðandi ávöxtunarsjóði heldur vitnaði til frv. til laga um verðbréfamiðlun. Ég verð að endurtaka það, sem ég hef sagt áður, að ég tel að það frv. taki ekki nægjanlega á þeim atriðum sem hér um ræðir, að það sé ekki sniðið að þeim vandamálum og viðfangsefnum sem við þurfum að taka á í sambandi við ávöxtunarsjóði. Nú veit ég að vísu og það kom fram hjá hæstv. ráðh. að hann hafði ekki fylgst með ræðu minni áðan nema að hluta til og ég skal ekki endurtaka það sem ég sagði þá, aðeins drepa á að ég minnti á atriði eins og það hvernig með skyldi fara þegar bréf glataðist eða væri ekki innleyst, ég minntist á að sjóðirnir ættu að vera óháðir verðbréfasölum, ég minntist á skilyrði um innlausnarákvæði sem eru í þessum bréfum, ég minntist á auglýsingamálin og ég minntist á nauðsyn þess að þessum fyrirtækjum væri ekki frjálst að útreikna einhverja ávöxtun og birta hana og auglýsa út og suður án þess að nokkur innsýn væri í það og ég minntist á birtingu að öðru leyti á gögnum sjóðanna, kostnað við sjóðina og þar fram eftir götunum. Mér finnst að þau lög um verðbréfamiðlun sem ég hef lesið snerti aðeins við því að svona fyrirbæri geti verið fyrir hendi, þau innihaldi ekki ákvæði sem séu sniðin að og sem gera verði kröfu til að fyrir hendi séu þegar í rekstri eru ávöxtunarsjóðir af þessu tagi.

Ég vil sem sagt aðeins vísa til ræðu minnar í þeim efnum og vænti þess að ráðherra sjái sér fært að fá útskrift af henni og kynna sér hana eða láta starfsmenn sína líta á hana með tilliti til þessa máls þannig að unnt verði að taka á því með viðunandi hætti og menn geti náð saman um það höndum.

Mín skoðun er sú að hugsanlegt sé að hafa einungis hluta af ákvæðunum varðandi þetta tilgreinda efni í seðlabankalöggjöfinni, en að öðru leyti mætti gera ákvæði frv. til laga um verðbréfamiðlun fyllri en þau eru til að taka á þessu verkefni.