29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

42. mál, löggæsla á höfuðborgarsvæðinu

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Borin hefur verið fram fsp. til mín um úttekt á löggæslu á höfuðborgarsvæðinu, í tveimur liðum.

Í fyrsta lagi: „Hvað líður úttekt á löggæslu á höfuðborgarsvæðinu á vegum dómsmrn.?" Því er til að svara að að úttekt á löggæslu á höfuðborgarsvæðinu hefur verið unnið nú síðari hluta sumars. Hefur norskt ráðgjafarfyrirtæki haft veg og vanda af þeirri úttekt. Er um að ræða ráðgjafarfyrirtækið Industri Konsulenf í Osló, en það hefur áður unnið að sambærilegum störfum varðandi lögregluna í Osló og Kristiansand í Noregi. Þau atriði, sem fyrirtækinu var falið að kanna og setja fram tillögur um, voru eftirfarandi:

1. Hvort unnt væri að fá betri nýtingu á störfum lögreglunnar og hvort bæta mætti þjónustuna án þess að verja til þess auknu fjármagni eða fjölga mönnum.

2. Kanna skiptingu starfa milli almennrar lögreglu og Rannsóknarlögreglu ríkisins.

3. Gera tillögu að skipuriti fyrir lögreglustjóraembættið í Reykjavík þar sem áhersla væri lögð á fyrirbyggjandi starf. Enn fremur hvort hagstætt sé að sameina löggæslu á höfuðborgarsvæðinu undir eina stjórn.

4. Gera tillögu að skipuriti fyrir Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Norska ráðgjafarfyrirtækið skilaði skýrslu sinni til ráðuneytisins s.l. föstudag og er verið að þýða hana á íslensku. Má búast við að hún liggi fyrir eftir tvær vikur. Mér hefur ekki gefist tóm til að kynna mér skýrsluna ítarlega og tel ekki rétt á þessu stigi að greina neitt frá innihaldi tillagnanna því að eftir er að kynna lögreglustjórum, rannsóknarlögreglustjóra og sveitarstjórnum tillögurnar. Mun ég m.a. hitta sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu n.k. laugardag í þessu skyni.

Á næstu vikum og mánuðum verður farið yfir tillögurnar og ráðist í framkvæmdir og breytingar eftir því sem heppilegt þykir.

Síðari liður fyrirspurnarinnar er um hvort þess sé að vænta að niðurstöður leiði til þess að komið verði upp lögreglustöð í Mosfellshreppi sem þjóni jafnframt Kjalarnes- og Kjósarhreppum og Garðabæ? Að því er varðar þessa spurningu skal tekið fram að í tillögum ráðgjafarfyrirtækisins er gert ráð fyrir að bæði í Mosfellssveit og Garðabæ verði starfrækt lögregluvarðstofa með líku sniði og er á Seltjarnarnesi. Er það í samræmi við þá stefnu sem kemur fram í tillögunum um að reyna að tengja betur saman íbúa og lögreglu á hverju svæði.