12.02.1986
Neðri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

225. mál, almannatryggingar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 453 flyt ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og Steingrími J. Sigfússyni frv. til l. um breytingu á lögum um almannatryggingar sem gerir ráð fyrir því að við úrskurð um örorku verði kostur á því fyrir öryrkja að skjóta máli sínu til örorkumatsnefndar sem verði skipuð fulltrúum Öryrkjabandalags Íslands, Hæstaréttar og heilbr.- og trmrn.

Þetta frv. hefur áður verið flutt á Alþingi og hefur ekki hlotið afgreiðslu. Þó liggja fyrir frá fyrri þingum mjög ítarlegar umsagnir um þetta mál. Það er eðlilegt að gera þá kröfu til hv. Alþingis að frv. verði afgreitt á þessu þingi. Þetta er í fjórða sinn sem ég flyt frv. og af einhverjum undarlegum ástæðum hafa menn ekki einu sinni skilað nál. um það hvað þá heldur meir þó að hér sé um að ræða mál sem snertir verulegan fjölda fólks og hefur hlotið meðmæli Öryrkjabandalagsins.

Ég hef séð umsagnir um þetta mál frá síðasta þingi frá fleiri aðilum en Öryrkjabandalaginu og þá sérstaklega frá tryggingayfirlækni, Birni Önundarsyni, sem að sjálfsögðu leggst gegn frv. Það er eðlilegt miðað við það sem áður hefur frá honum komið um þessi efni. Það er eðlilegt vegna þess að hann fer með það vald sem þarna er verið að taka á að skert yrði skv. frv. sem hér er á ferðinni.

Ég tel að hér sé um að ræða gífurlega stórt réttindamál fyrir öryrkja í landinu og þá sem þurfa að skipta við Tryggingastofnun ríkisins. Ég tel að það sé í raun og veru alveg kostulegt að hv. Alþingi skuli láta það líðast þing eftir þing og ár eftir ár að snerta ekki á þessu máli. Hér er um að ræða það óvenjulega ástand að öryrkjar á Íslandi, sem þurfa að sækja um mat á sinni örorku, verða að búa við einveldi eins manns. Þetta er auðvitað alveg óþolandi fyrirkomulag. Ég tel að það sé raunar algert lágmark að heilbr.- og trn. hv. Nd. myndi sér skoðun á þessu máli og taki á því. Ég skora á hv. heilbr.- og trn., sem fær málið væntanlega til meðferðar, að taka á þessu máli og afgreiða það með einhverjum hætti. Auðvitað vildi ég helst að það yrði afgreitt jákvætt, en mér leiðist að nefndin sé að væflast með mál af þessu tagi ár eftir ár án þess að þora að taka afstöðu til þess bara vegna þess að umræddur embættismaður reynir að beita þm. þrýstingi í þessu máli.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.

Umr. (atkvgr.) frestað.