13.02.1986
Sameinað þing: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

213. mál, laun, samnings- og verkfallsréttur og lögverndun á starfsheiti kennara

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það væri fróðlegt að fá það upplýst hjá hæstv. fjmrh. hver bannaði honum að veita svör við margítrekuðum kröfum Kennarasambands Íslands fyrr en þann 29. jan. s.l. Fulltrúaráð Kennarasambands Íslands hafði haldið fundi 10. og 11. jan. og ítrekað þar kröfur sínar sem höfðu verið kynntar fjmrn. og hæstv. fjmrh. í viðræðum. Svo er hæstv. fjmrh. að koma hér og afsaka það að hafa fyrst brugðist við þegar boðað hafði veríð til fjölmenns fundar á Hótel Sögu, sem hann gat ekki sótt vegna veikinda, þar sem fram var lagt umrætt bréf.

Alveg sama kemur fram hér í sambandi við samningsréttarmálin og verkfallsrétt. Hæstv. fjmrh. virðist ekki átta sig á þeim staðreyndum sem ég hélt að lægju fyrir einnig gagnvart BSRB að Kennarasamband Íslands er gengið út úr BSRB. Ætlar hæstv. fjmrh. að reka það til baka? Ætlar hann að halda þessum fjölmenna starfshópi frá þeim sjálfsögðu réttindum að fá verkfallsrétt eins og starfsmenn innan BSRB hafa? Ég spyr hæstv. ráðherra.

Ég minni síðan á, herra forseti, að þó að ríkisstj, hafi nú loks hopað fyrir kröfum og samstöðu kennara í málum sem geta varðað miklu eru enn stór mál, stóru málin í sambandi við réttindi kennara og stöðu skólanna í landinu óleyst. Þau verða ekki rædd hér. En það er eins gott að ríkisstj. fari að velta þeim stóru málum fyrir sér ef marka má þann tíma sem það hefur tekið að leysa sjálfsögð réttindamál kennara á undanförnum vikum.