13.02.1986
Sameinað þing: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

213. mál, laun, samnings- og verkfallsréttur og lögverndun á starfsheiti kennara

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Kennarasambandið sagði sig úr BSRB í lok síðasta árs. Það hefur komið fram í þessari umræðu að launamismunur hefur verið á þann veg á síðasta ári að á fyrri hluta ársins höfðu félagsmenn í Kennarasambandi Íslands hærri laun en kennarar innan Hins íslenska kennarafélags. Þetta snerist síðan við. Það hefur þess vegna verið alveg ljóst að ekki hefur verið hægt að tryggja jöfnun þarna á milli til frambúðar nema um væri að ræða einn samningsaðila og einn samning. Eftir að Kennarasambandið gekk úr BSRB var reynt að finna leiðir sem gætu tryggt þessa stöðu með eðlilegum hætti til frambúðar. Eina lagalega heimildin sem var fyrir hendi til þess að veita samningsrétt var að veita heildarsamtökum innan opinberra starfsmanna þennan rétt og það var gert með því að bjóða Bandalagi kennarafélaga samningsréttinn á þeim grundvelli að taka þá ákvörðun sem tekin var fyrr í dag. Ég mótmæli því þess vegna harðlega að það hafi verið um neinn óeðlilegan drátt af hálfu ráðuneytisins að tefla í þessu máli.