13.02.1986
Sameinað þing: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

213. mál, laun, samnings- og verkfallsréttur og lögverndun á starfsheiti kennara

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Vegna þeirra ábúðarmiklu umræðna sem hér hafa farið fram kynnu menn að ætla að það væru geysilega miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og hér væri um að ræða mikla kjarabót til handa kennurum. Hér er um að ræða leiðréttingu sem er gerð í nafni kjörorðsins um sömu laun fyrir sömu vinnu. 3000 manns fái 5% kauphækkun til samræmis. Þetta eru kannske rúmlega 1000 kr. á mánuði eða svo. Af því tilefni er rétt að rifja upp að sú gamla þumalfingursregla hefur lengi gilt í fjmrn. að af kauphækkun opinberra starfsmanna um hverja eina krónu, að gefnum forsendum um meðalverðbólgu s.l. 10-15 ár, 40% á ári, skili 75% sér greiðlega og mjög fljótlega í ríkissjóð aftur. Með hliðsjón af því hversu laun kennara eru nú orðin lág og verðbólgustigið er nálægt þessu meðaltali má eiginlega slá því föstu að meira en 2/3 hlutar, meira en 75 aurar af hverri einustu krónu eða meira en 750 kr. af þessum umrædda þúsundkalli skili sér strax til gjaldheimtu eða í gegnum neyslu og óbeina skatta til ríkissjóðs aftur. Það er rétt að þessar upplýsingar komi fram, að þetta verði rifjað upp, vegna þess að ella kynnu menn að hafa haldið að hér væri um meiri háttar gjafmildi eða örlæti ríkisstjórnar að ræða eða áfangasigur í kjarabaráttu, en svo er ekki.