13.02.1986
Sameinað þing: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2553 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

211. mál, fræðsla um kynferðismál

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur leyfi ég mér að bera fram till. til þál. um fræðslu meðal almennings um kynferðismál. Till. er á þskj. 439 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrrh. að efna til fræðsluherferðar um kynferðismál meðal almennings með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir. Sérstök áhersla skal lögð á að upplýsa fólk á aldrinum 15 til 19 ára um kynlíf og getnaðarvarnir. Fræðsluherferðin verði á vegum landlæknisembættisins í samráði við menntmrn. og stofnanir þess, svo sem skólaþróunardeild, Námsgagnastofnun, Æskulýðsráð ríkisins og Ríkisútvarpið. Gerð skal áætlun um kostnað í tæka tíð fyrir gerð næstu fjárlaga svo að unnt verði að hefja fræðsluna af fullum krafti á næsta ári.“

Þessi till. er að sjálfsögðu nátengd till. okkar um þátttöku sjúkrasamlaga í kostnaði vegna getnaðarvarna sem ég mælti fyrir s.l. þriðjudag og verið var að vísa til nefndar áðan.

Það er bjargföst skoðun okkar flm. að vænlegasta leiðin til að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir sé stóraukin fræðsla um kynlíf og getnaðarvarnir og auðveldari nálgun slíkra hluta sem mundi leiða til aukinnar notkunar getnaðarvarna og ábyrgðarfyllri afstöðu fólks til kynlífs yfirleitt. Við höfum reynt að ýta við þessum málum áður hér í þingsölum með fyrirspurnum til yfirvalda heilbrigðismála og menntamála strax haustið 1983 og aftur á s.l. hausti. Engan sýnilegan árangur hafa þær umræður borið og skal því nú reynt að fá Alþingi til að lýsa yfir eindregnum vilja í þessum efnum. Sá vilji er raunar bundinn í lögum, en allt of lítið hefur orðið úr framkvæmdum eins og við höfum ítrekað bent á.

Í maí 1975 voru afgreidd frá Alþingi lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. 2. gr. þeirra laga er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Aðstoð skal veita, eftir því sem við á, svo sem hér segir:

1. Fræðsla og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra.

2. Ráðgjöf fyrir fólk sem íhugar að fara fram á fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð.

3. Kynlífsfræðsla og ráðgjöf og fræðsla um ábyrgð foreldrahlutverks.

4. Ráðgjöf og fræðsla varðandi þá aðstoð sem konunni stendur til boða í sambandi við meðgöngu og barnsburð.“

Að margra áliti skortir verulega á það nú, tæpum ellefu árum eftir setningu laganna, að þessi lögboðna fræðsla og ráðgjöf sé framkvæmd á viðunandi hátt. Er það þeim mun alvarlegra sem hér er í raun og veru um að ræða grundvöll lagasetningar um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir sem II kafli laga nr. 25/1975 tekur til.

Einkum er ástæða til að hafa áhyggjur af vanþekkingu unglinga sem að mati félagsráðgjafa og annarra sem um þessi mál fjalla virðast afar fáfróðir um kynferðismál og getnaðarvarnir. Er fyllsta ástæða til að ætla að bein tengsl séu á milli þessarar fáfræði og mikils fjölda þungana meðal íslenskra stúlkna á aldrinum 15 til 19 ára. Þá virðist enn skorta mjög á að piltum sé ljóst að þeirra er ábyrgðin á afleiðingum samlífs ekki síður en stúlknanna og er brýn nauðsyn að vinna að breyttum viðhorfum hvað það varðar.

Til stuðnings þessum fullyrðingum mætti vitna til fjölmargra skrifa í blöðum og tímaritum. Þau eru orðin býsna mörg dæmin sem ég hef safnað um þessi mál á s.l. árum og þar er flest á eina lund. Kvartað er yfir skilningsleysi, ónógri fræðslu og óeðlilegri umfjöllun þessara mála. Hér er ekki tími til að taka dæmi úr því safni, en aðeins ítrekað að það er að okkar mati algjörlega óforsvaranlegt að yfirvöld heilbrigðismála og menntamála skuli ekki standa sig betur í þessum málum en dæmin sanna.

Samkvæmt skýrslu landlæknisembættisins um fóstureyðingar árin 1976-1983, sem kom út í september 1985, er fæðingartíðni meðal stúlkna undir tvítugu langtum hærri hér en á hinum Norðurlöndunum. Vitnað er í tölur frá 1981, en þá voru 49 lifandi fædd börn á hverjar 1000 stúlkur 15 til 19 ára hér á landi samanborið við 24 í Noregi, 17 í Finnlandi og 14 í Danmörku og Svíþjóð. Fæðingartíðnin hefur farið lækkandi í öllum þessum löndum, en einna minnst á Íslandi. Þá hefur fóstureyðingum fjölgað í þessum aldurshópi hér á landi á undanförnum árum um leið og þeim hefur fækkað á hinum Norðurlöndunum. Vert er þó að geta þess að enn er tíðni fóstureyðinga hjá stúlkum undir tvítugu allt að helmingi lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Allar þessar staðreyndir tala sínu máli.

Um nokkurra ára skeið hefur verið unnið markvisst á hinum Norðurlöndunum að fræðslu um kynferðismál, getnaðarvarnir, barneignir og fóstureyðingar, og er það átak talið hafa skilað verulegum árangri í fækkun þungana hjá 15 til 19 ára stúlkum. Má það vera okkur til hvatningar og eftirbreytni.

Í fyrrnefndri skýrslu landlæknisembættisins eru margar fróðlegar og umhugsunarverðar upplýsingar og vil ég sérstaklega benda nefndarmönnum í hv. félmn., sem ég vænti að fái þetta þingmál til umfjöllunar, á að kynna sér efni þessarar skýrslu. Hér er ekki tími til að vitna ítarlega í skýrsluna, en ég get þó ekki stillt mig um að vitna í niðurlag hennar. Þar segir svo á bls. 141, með leyfi forseta:

„Í umræðum á Alþingi um frv. það sem varð að núgildandi lögum um fóstureyðingar voru þm. ósammála um ýmis atriði, en um eitt voru þeir almennt samdóma og það var mikilvægi I kafla, sem fjallar um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, og kom skýrt fram í máli þeirra að á þetta bæri að leggja áherslu.

Eins og fram kemur í II. kafla þessarar skýrslu hefur ýmislegt gerst á sviði ráðgjafar og fræðslu um kynlíf og barneignir, en það starf hefur einkum beinst að heilbrigðisstofnunum og skólum. Fræðslu- eða upplýsingaherferð fyrir almenning, t.d. með hjálp fjölmiðla, gerð veggspjalda eða aðgerðir til að auðvelda fólki aðgang að getnaðarvörnum, hefur ekki komist lengra en á umræðustig, m.a. vegna fjárskorts. Vantar talsvert á að ákvæði laganna um ráðgjöf og fræðslu hafi náð fram að ganga eins og til var ætlast.

Hin mikla fjölgun fóstureyðinga á undanförnum árum og sú staðreynd að í sjö af hverjum tíu fóstureyðingum voru engar getnaðarvarnir viðhafðar er þungun varð gefur tilefni til að álykta að ekki hafi verið nóg gert í sambandi við fyrirbyggjandi starf. Er því átaks nú þörf til að ákvæði laganna í þessum efnum verði að veruleika. Auka þarf kynfræðsluefni fyrir skóla og almenning og fylgja því eftir með námskeiðum fyrir kennara og aðra sem málinu tengjast. Huga ber að því hvort beina eigi fræðslu sérstaklega til þeirra þjóðfélagshópa sem öðrum fremur fá fóstureyðingu, þ.e. ungra ógiftra eða áður giftra kvenna. Athuga þarf hvort starfsfólk heilbrigðisstétta fái markvissan undirbúning í sínu námi fyrir það hlutverk sem margra bíður á sviði ráðgjafar og fræðslu. Auka þarf kynningu á þeim aðilum sem lögum samkvæmt ber að hafa ráðgjöfina með höndum og einnig að vekja þá til umhugsunar um hlutverk sitt í þessum efnum. Mikilvægt er að fræðsla og ráðgjöf um kynlíf og barneignir sé aðgengileg fyrir jafnt konur sem karla.“

Og í lokaorðum á bls. 142 segir svo, með leyfi forseta:

„Vert er að minna á að fjöldi fóstureyðinga á hverjum tíma ræðst af fleiri þáttum en lagaákvæðum eingöngu, svo sem öryggi getnaðarvarna og notkun þeirra og viðhorfum fólks til barneigna og fóstureyðinga. Meginforsenda þess að hægt sé að hafa áhrif á fjölda fóstureyðinga er að þessi atriði liggi ljóst fyrir og hópurinn sem beina skal að fyrirbyggjandi starfi sé þekktur. Athugun á fóstureyðingum undanfarinna ára sýnir að í um 70% tilvika höfðu engar getnaðarvarnir verið notaðar er þungun varð og að tíðni fóstureyðinga var einna hæst meðal kvenna 25 ára og yngri, áður giftra og ógiftra. Þá kemur og fram að mikið vanti á að ákvæðum laganna um fræðslu og ráðgjöf hafi verið fram fylgt sem skyldi. Barneignir og fóstureyðingar eru vart einkamál kvenna og því ber að hafa í huga að fyrirbyggjandi starf nái ekki síður til karla en kvenna. Verði átak gert í þessum efnum ætti að vera hægt að snúa þróuninni við svipað og gerst hefur á hinum Norðurlöndunum þar sem tíðni fóstureyðinga fer nú lækkandi.“

57 konur úr öllum stjórnmálaflokkum og ýmsum starfsstéttum mynduðu áhugahóp um þessi efni fyrir tæpum þremur árum. Þær vöktu athygli á þeim vanefndum sem orðið hafa á framkvæmd I. kafla laga nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, og skoruðu á ráðamenn mennta- og heilbrigðismála að ráða bragarbót á því ófremdarástandi. Þær lögðu til að landlæknisembættinu yrði falið að skipuleggja átak til fræðslu um kynferðismál fyrir almenning og með sérstöku tilliti til unglinga. Þær lögðu einnig til að myndaður yrði sérstakur hópur unglinga til að fá viðbrögð þeirra við efni og tillögum og ábendingar frá þeim áður en gengið væri frá því fræðsluefni sem unglingum væri ætlað. Eftirfarandi eru nánari tillögur þessa áhugahóps um hvernig að slíkri fræðsluherferð um kynferðismál meðal almennings mætti standa og vitna ég hér beint til þess bréfs sem hópurinn sendi ráðherrum, með leyfi forseta:

„1. Gerð verði fræðsluþáttaröð fyrir sjónvarp í 3-4 hlutum sem fjalli um æxlun, getnaðarvarnir, kynlíf, kynsjúkdóma, rétt til fóstureyðingar og foreldraábyrgð. Þættir þessir verði varðveittir á myndböndum sem Námsgagnastofnun, framhaldsskólar, kynfræðsludeildir og fleiri aðilar sem við kynfræðslu fást hafi síðan aðgang að og noti.

2. Landlæknir beiti sér fyrir samstarfi við útvarp, m.a. umsjónarmenn unglingaþátta.

3. Landlæknir láti gera 2-3 sjónvarpsauglýsingar sem hvetji unglinga til að nota getnaðarvarnir. Fjármagni verði veitt til að birta þessar auglýsingar nokkrum sinnum ár hvert.

4. Landlæknir láti hanna 2-3 veggspjöld sem hafa sama markmið og sjónvarpsauglýsingarnar. Þau verði hengd upp í framhaldsskólum, apótekum, læknastofum, heilsugæslustöðvum, æskulýðsmiðstöðvum, íþróttahúsum og öðrum samkomustöðum unglinga.

5. Jafnframt verði gerður upplýsingabæklingur sem beinist að unglingum 15-19 ára og dreifist á sömu stöðum. Í bæklingnum verði unglingar m.a. hvattir til að leita frekari fræðslu hjá kynfræðsludeildum þar sem þær eru.

6. Landlæknir birti auglýsingu á áberandi stað í símaskrá með símanúmeri kynfræðsludeilda. og hvatningu til almennings til að leita hennar.

7. Aðgangur unglinga að getnaðarvörnum verði bættur, t.d. með sjálfsölum á almannafæri.“

Þessar tillögur og viðvörunarorð kvennanna vöktu athygli og umtal á sínum tíma, en annan sýnilegan árangur hefur framtak þeirra ekki borið.

Tvívegis hefur verið reynt að ýta við yfirvöldum menntamála og heilbrigðismála með fyrirspurnum á Alþingi, í nóvember 1983 og í nóvember 1985. Þessi till., sem hér er til umræðu, er enn ein tilraunin til að fá núverandi ástandi breytt til betri vegar. Það er sannfæring flm. þessarar till. að með stóraukinni fræðslustarfsemi og aðgerðum til aukinnar notkunar getnaðarvarna megi koma í veg fyrir fjölda ótímabærra þungana og þar með fóstureyðinga og barnsfæðinga hjá kornungum stúlkum.

Herra forseti. Að lokinni umræðu um mál þetta legg ég til að því verði vísað til hv. félmn.