13.02.1986
Sameinað þing: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

211. mál, fræðsla um kynferðismál

Helgi Seljan:

Herra forseti. Mál þetta hefur verið hér ítarlega reifað og einnig verið rætt hér nokkrum sinnum áður. Í þeim umræðum hef ég tekið þátt, m.a. og alveg sérstaklega í tengslum við frv. um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir sem hér var réttilega minnt á að hefði verið afgreitt sem lög frá Alþingi 1975. Það þarf því ekki miklu við þessa framsögu að bæta efnislega af minni hálfu.

Hins vegar eru þessi mál nú blessunarlega rædd af hispursleysi en jafnframt alvöru eins og vera ber, þó að ekki séu enn allir fordómar úr sögunni. En slík feimnismál, sem þau voru, eru þessi mál þó ekki lengur.

Við ræddum í Ed. á dögunum frv. til laga um fóstureyðingar. Þar vék ég að því sama og kemur fram í þessari grg. og hert er vel á, þ.e. þeim grunni þessara laga sem ég nefndi áður og voru mjög merk á sínum tíma, tímamótamarkandi, eins og sagt er. Þar var beinlínis um. málamiðlun að ræða sem hæstv. þáv. heilbr.- og trmrh. Matthías Bjarnason beitti sér fyrir að ná og var byggð á býsna traustum grunni. Einn hornsteininn í þessu máli er að finna í 2. gr. laganna, eins og hér er reyndar getið um í grg., þ.e. að þá aðstoð skyldi veita sem við ætti, bæði varðandi fræðslu og ráðgjöf í fjórum liðum.

Ég fullyrti þá, eins og ég hef gert oft áður, að þetta ákvæði lægi mjög eftir, eins og reyndar kom fram í máli hv. flm., fræðslan jafnt og ráðgjöfin.

Fræðsluherferð, sem er meginefni þessarar till., ákveðið átak, er vitanlega af hinu góða. Það vekur athygli og skilar örugglega árangri og vissulega er þannig ástatt að slíks átaks er þörf eins og réttilega kom þarna fram. Um það erum við hins vegar sjálfsagt sammála, flm. og ég, að það skiptir öllu að þessum sjálfsagða þætti sé sinnt af hálfu heilbrigðis- og skólayfirvalda alltaf og ævinlega, að hann sé tekinn inn sem eðlilegur námsþáttur án allra óeðlilegra áherslna og falli inn í fræðsluna almennt sem sjálfsagður hlutur. Ég reikna með því að þrátt fyrir það að hér sé lögð slík áhersla á fræðsluherferð, ákveðið skipulegt átak, séum við sammála um að sífellt og stöðugt þurfi að vinna að þessum málum.

Hvað sem líður minni feimni við opna umræðu og minni fordómum varðandi opinskáa fræðslu er sjálfsagt að viðurkenna og leggja áherslu á það enn einu sinni að þessi fræðsla öll er býsna vandasöm og viðkvæm og það er ekki öllum gefið að inna hana af höndum svo að vel sé og svo að hún komi að tilætluðum notum og skapi jafnvel ekki meiri fordóma og meiri vanda en annars yrði. Þessi fræðsla öll er það viðkvæm og vandasöm. Sem gamall skólamaður þekki ég það mætavel að það þarf vel til verka að vanda hvað það snertir til þess að hafa jafnvel ekki öfug áhrif miðað við það sem menn ætluðu sér þó með góðum vilja. Þess vegna legg ég áherslu á það að heilbrigðisyfirvöldin og heilbrigðisstéttirnar þurfa að taka þátt í þeirri almennu fræðslu sem veitt er um þessi mál.

Hitt atriðið skiptir ekki minna máli, þ.e. ráðgjöfin. Við deildum um það í Ed. um daginn hvort hún væri nægileg þegar svo alvarlegir hlutir sem fóstureyðing eða ófrjósemisaðgerð er annars vegar. Að því þarf sérstaklega vel að hyggja þótt ég efi ekki að margt muni þar vel gert og af ýtrustu samviskusemi af þeim sem eiga að veita þessa ráðgjöf áður en slík aðgerð er framkvæmd. En á hitt legg ég áherslu að á ráðgjöfinni, sem bestri upplýsingu um þetta og aðstoðinni byggjum við einmitt alla þessa löggjöf, eins og réttilega kemur fram þegar í upphafi grg. Hún er í raun og veru hornsteinn þessarar löggjafar, skilyrði þess að þessi löggjöf geti farið vel úr hendi og sem áfallaminnst. Ég hlýt því að taka undir tillöguflutning og grg. en minni aftur á nauðsyn sívakandi starfs í þessum efnum þótt sérstök herferð sé vissulega góðra gjalda verð.

Umr. (atkvgr.) frestað.