13.02.1986
Sameinað þing: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2561 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

229. mál, skólasel

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil hér í stuttu máli taka undir þessa till. sem hv. flm. Kristín Halldórsdóttir hefur mælt hér fyrir og rökstutt í sínu máli. Ég tel að hér sé þörfu máli hreyft og ástæða til þess af hálfu Alþingis að álykta um það í þá veru sem hér er gerð tillaga um. Ég þekki nokkuð til þróunar þessara mála varðandi skólasel úr mínu kjördæmi, Austurlandi, þar sem slík sel eru starfrækt á nokkrum stöðum. Að því er ég hef heyrt er reynslan af þeirri starfsemi talin fremur góð þó að við ýmsa erfiðleika geti verið að etja eins og flm. gat raunar um í máli sínu áðan.

Það er auðvitað æskilegt og raunar mín skoðun að heimaaðilar eigi að ráða sem mestu um tilhögun skólahalds, hver á sínu svæði. Æskilegast er að frumkvæði að skipan mála geti komið úr heimabyggðum og fái eðlilega meðferð og séu framkvæmd á grundvelli tillagna frá fræðsluráðum, foreldrasamtökum og öðrum sem láta sig einkum skólamálin varða. Og vissulega höfum við ágætt dæmi um að þannig sé tekið á málum. Hitt sakar ekki - síður en svo - að framkvæmdavaldið ýti þar á eftir og greiði fyrir því að slík þróun eigi sér stað.

Ég vek athygli á því í þessu samhengi að mjög eru gagnrýndir af hálfu sveitarfélaga uppgjörshættir og fjármálaskil ríkisins gagnvart sveitarfélögunum í sambandi við grunnskólahald. Ég hygg að fyrir utan ýmsan eftirrekstur af hálfu menntmrn. í sambandi við þessi efni, bæði upplýsingar um möguleika og fyrirgreiðsla af þeirra hálfu, skipti það mjög miklu máli fyrir dreifbýli það sem hér er um að ræða fyrst og fremst að breyting verði á ýmsu sem snertir uppgjörshætti ríkisins gagnvart sveitarfélögum varðandi skólakostnað af grunnskólahaldi.

Ég er ekki hér með fyrir framan mig upplýsingar og ályktanir sem ég veit að stjórnvöldum hafa borist að undanförnu um þessi efni. En ég geri ráð fyrir því að þm. og hæstv. menntmrh. kannist við rökstuddar umkvartanir af hálfu fræðsluráða í heilum kjördæmum varðandi þessi efni sérstaklega. Á þessu þarf nauðsynlega að verða breyting því að hér er í rauninni um klyfjar að ræða sem ríkið hleður á sveitarfélögin gagnstætt lögum, að mínu mati, og um stóra hagsmuni að ræða, ekki síst hjá hinum fámennari sveitarfélögum.

Ég hef vikið að málefnum skólaselja í sambandi við eitt þingmál fyrr á yfirstandandi þingi, þ.e. till. til þál. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga. Ég benti þar í grg. á leiðir til að örva sameiningu sveitarfélaga en viðhalda jafnframt sjálfræði dreifbýlishreppanna í ákveðnu formi. Ég benti á í framsögu fyrir þessu máli og í grg. með þessari till., sem ég flyt ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að þótt sveitarfélög sameinist, svo sem æskilegt getur talist, í stærri heildir, sé þrátt fyrir það algerlega ástæðulaust að svipta minnstu sveitarfélögin, hreppana sem nú eru, yfirumsjón með þáttum sem eingöngu varða íbúa þeirra. Ég nefndi þar sem dæmi fjallskil, félagsheimili og skólasel.

Á bak við þennan tillöguflutning felst það sjónarmið, sem einnig kemur fram í þeirri þáltill. sem við ræðum hér, að æskilegt sé að unnt sé að leysa fræðslu yngstu árganga barna heima fyrir, sem næst foreldrahúsum. Það er svo vissulega rétt, sem flm. gat um hér áðan, að ekki er alls staðar unnt að ná fram þeirri stefnu með skjótum hætti við þær aðstæður sem við nú búum við. Sums staðar getur það verið álitamál hvað hægt er að leggja mikinn daglegan akstur á yngstu nemendur því að vegalengdir eru í vissum tilvikum slíkar að það getur verið tvísýnt hvort sé skárri kostur að aka nemanda til skólasels eða að um sé að ræða dvöl í heimavist. Það er vissulega matsatriði í vissum tilvikum.

Einnig þarf að gæta þess að til staðar sé í skólaseljum eða hið næsta þeim lágmarksbúnaður til að bregðast við aðstæðum sem geta alltaf skapast í okkar misvindasama og óblíða landi hvað veðráttu snertir, þannig að nemendur geti fengið aðhlynningu um nótt og jafnvel svo dögum skiptir. Á þetta vildi ég aðeins minna í sambandi við þetta þarfa mál, sem hér hefur verið reifað, um leið og ég lýsi fylgi mínu við tillöguna.