13.02.1986
Sameinað þing: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2563 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

261. mál, afplánun dóma vegna fíkniefnabrota

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þeir sem stunda fíkniefnasölu eða dreifingu á fíkniefnum eru í mínum huga eins konar launmorðingjar, menn sem dreifa vörum sem eyðileggja líf, og jafnvel munu þess dæmi að þeir auðgist á því í leiðinni. Í mínum huga er ekki nóg að þessir menn séu dæmdir ef afplánun dregst von úr viti eins og ég tel að sé allt of algengt og hafi verið allt of algengt að undanförnu. Mín skoðun er sú að þessa aðila eigi að taka úr umferð og mér finnst afleitt að þeir geti komist aftur til iðju sinnar ef þeim sýnist svo þótt þeir hafi hlotið dóm.

till. sem ég mæli hér fyrir er á þá lund að beina því til dómsmrh. að sjá til þess að fangelsisdómum vegna fíkniefnabrota verði ætíð fullnægt þegar í stað og hafi afplánun slíkra dóma þannig forgang að öðru jöfnu.

Mér er ljóst að forgangur getur ekki verið algjör. Einhver frávik verða að vera á slíkum forgangi. Ég tel að tekið sé tillit til þess í ályktunartillögunni. Hins vegar er það skoðun mín að hér sé um svo alvarleg brot að ræða að fyllsta ástæða sé til þess að afplánun sé tafarlaus. Þess vegna er þessi þáltill. flutt.

Að lokinni umræðu legg ég til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til allshn. Ég sé ekki ástæðu til lengri framsögu. Till. er einföld og skýrir sig sjálf.