13.02.1986
Sameinað þing: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2564 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

261. mál, afplánun dóma vegna fíkniefnabrota

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hér er vikið að miklu alvörumáli.

Þessi till. er svo nýkomin á borð okkar að maður er nýbúinn að lesa hana. Það vill til að hún er stutt og grg. einnig þannig að það er fljótlegt að fara yfir hana.

Vissulega er ástæða til að taka af festu á þessum málum öllum, m.a. varðandi dóma vegna fíkniefnabrota. Ég dreg ekkert úr því.

Það er vissulega hart til þess að vita að menn skuli eiga jafnvel þrjá, fjóra dóma yfir höfði sér vegna þess að þeir hafa sloppið út aftur og komist til sinnar fyrri iðju, eins og hv. flm. nefndi. Ég þekki því miður til nokkurra ógæfumanna af þessu tagi sem hafa í þessu lent. Þá er ég kannske kominn að þeirri ástæðu sem varð til þess að ég kom hér upp.

Ég dreg ekkert úr sekt þeirra sem við þetta fást, síður en svo. Ég veit það hins vegar að mjög margir þeirra eru aðeins verkfæri í annarra höndum, því miður. Ég bendi á að í allt of mörgum tilfellum eru þeir sakfelldir og dæmdir, réttilega vegna þess að þeir eru að framkvæma ólöglegt athæfi, en þeir sem höfuðábyrgðina bera og arðinn hirða af þessari ógeðslegu starfsemi sleppa. Stórlaxarnir á bak við sleppa. Það er kannske umhugsunarefni nú þegar till. af þessu tagi kemur fram hvernig í ósköpunum við því megi bregðast. Það hafa menn reynt annars staðar, í öðrum löndum þar sem þessi vá hefur verið miklu meiri og alvarlegri, stundum tekist, en í miklu fleiri tilfellum mistekist að ná til þeirra sem þar bera aðalábyrgð.

Til viðbótar er svo rétt að benda á að á bak við sölu og dreifingu fíkniefna stendur mikið fjármagn. Það eru engir fátæklingar eða aumingjar sem hafa þessa menn í sinni þjónustu og nota þá úti á akrinum, ef svo má segja, svo fallegur sem sá akur er. Það eru engir aumingjar þó vissulega sé það til einnig að menn séu að fást við þetta m.a. með smygli milli landa í minni mæli. En meginhlutinn af þessu er alls staðar fjármagnaður af einhverjum fjársterkum bakaðilum sem líka hafa kannske þau ítök og þau völd og þau áhrif að til þeirra verður aldrei náð.

Ég vil ekki taka afstöðu til þessarar till. að öðru leyti en því að mér þykir það býsna sjálfsagt að þessum dómum verði fullnægt sem allra fyrst. Ég veit nefnilega dæmi þess að slík mál hafa verið það lengi að veltast í kerfinu og dómur komið það seint að í raun og veru, eins og ég hef stundum orðað, hefur það verið allt annar maður sem dæmdur er en sá sem framdi brotið. Ungan mann sem ég þekki mætavel held ég að sé útilokað að telja sama manninn og þann sem var fyrir nokkrum árum verkfæri í höndum aðila til þess að annast dreifingu og sölu á fíkniefnum. Sá maður stundar nú sitt starf, hefur gengið í gegnum skóla og stofnað heimili og í raun og veru snúið gjörsamlega frá því líferni sem hann er að taka út dóm fyrir einmitt þessa dagana.