17.02.1986
Efri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2569 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

268. mál, húsaleigusamningar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um húsaleigusamninga, nr. 44 frá 1. júlí 1979, sbr. lög nr. 70 30. maí 1984. Frv. þetta er raunar fylgifrumvarp frv. sem er hér til meðferðar í hv. deild um endurskoðun laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Það þótti nauðsynlegt að flytja þetta frv. vegna væntanlegrar lagabreytingar á því sviði.

Frv. til laga um breytingu á lögum nr. 7 frá 1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, felur í sér tillögu um lögfestingu á nýju almennu ógildingarákvæði, eins og segir þar í 6. gr. þess frv. sem liggur hér fyrir hv. deild. En það er gert ráð fyrir í 6. gr. þess frv. að 36. gr. þeirra laga orðist svo: „Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Hið sama á við um aðra löggerninga.“

Ákvæði þetta mun, ef að lögum verður, veita íslenskum dómstólum víðtækari heimild til ógildingar eða leiðréttingar ósanngjarnra samninga en gildandi réttarreglur heimila. Meginbreytingin frá gildandi rétti felst í því að hin nýja regla mun taka til allra samningstegunda á sviði fjármunaréttar og almennt veita heimild til þess að taka tillit til aðstæðna sem ekki voru fyrir hendi við samningsgerð ef talið yrði að ógilda eða leiðrétta þyrfti slíka samninga skv. reglunni.

Tekið skal fram að almenn ógildingarregla var lögleidd í Danmörku 1975, í Svíþjóð 1976 og í Noregi 1983. Hér er því miðað að því að samræma íslenska löggjöf réttarþróun á Norðurlöndum. Þetta er það sem er meginástæðan fyrir frv. um breytingu á lögum nr. 7 frá 1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem hér liggur til umræðu.

Viðskrn. lagði til að 11. gr. laga um húsaleigusamninga yrði algerlega felld niður. Ef fallist hefði verið á þá tillögu hefðu húsaleigulögin sjálf ekki borið með sér að samningi gæti lokið af ógildingarástæðum. Á þessa tillögu var því ekki fallist í félmrn. Þess vegna var gerð tillaga að nýrri 11. gr. húsaleigulaga þar sem fram kemur að leigusamningi getur lokið vegna ógildingarástæðna. Hins vegar var fallist á að ógildingarákvæði skv. 6. gr. frv. um breytingu á lögum nr. 7/1936 gildi einnig um húsaleigusamninga, enda þar rýmri ógildingarheimild en nú felst í 11. gr. húsaleigulaganna.

Eins og kemur fram, virðulegi forseti, er hér um að ræða að breyta 11. gr. núgildandi laga og hún orðist svo:

„Um heimild til að víkja húsaleigusamningi til hliðar í heild eða að hluta eða til að breyta honum, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, gilda ákvæði laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.“

Og 2. gr.: „Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1986.“

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta lengra mál. Þetta skýrir sig sjálft. Að vísu reikna ég með því að hv. deild hafi til meðferðar nokkuð jafnhliða frv. til laga um breytingu á lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þetta fylgist að.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.