17.02.1986
Efri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2570 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

258. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég gerði raunar nokkra grein fyrir efni þessa frv. hér í þessari hv. deild s.l. miðvikudag er ég mælti fyrir frv. til laga um breytingu á útvarpslögum. En í örfáum setningum er meginefni þessa máls það að felld verði niður ein málsgr. úr 3. gr. laga um Þjóðskjalasafn Íslands. Sú málsgr. er svohljóðandi:

„Ríkisútvarp (hljóðvarp, sjónvarp) skal varðveita myndir, plötur og hljómbönd eftir því sem útvarpsstjóri og útvarpsráð ákveða í samráði við þjóðskjalavörð.“

Ég tel rétt að þessi málsgrein verði felld út úr lögunum um Þjóðskjalasafn þar sem ákvæði um þetta eiga tvímælalaust heima í útvarpslögum og það frv., sem ég hef flutt til breytinga á útvarpslögum, hefur að geyma ákvæði um þetta. Ég tel með öllu óeðlilegt að þjóðskjalavörður eða hans virðulega embætti hafi bein og dagleg afskipti af því hvaða efni úr dagskrá útvarps og sjónvarps er varðveitt. Það er í fyrsta lagi óeðlilegt og í öðru lagi er það óframkvæmanlegt, sem er nú kannske meginatriði málsins. Þess vegna eiga þessi ákvæði að vera í útvarpslögum.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til 2. umr. og hv. menntmn.