29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

47. mál, kynlífsfræðsla í skólum

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin, þótt mér þættu þau kannske ekki segja allt sem segja þarf. Ég hef nefnilega ekki ástæðu til að ætla að þessi mál séu á mikilli framfarabraut. Ég held að það skorti fyrst og fremst á að gera starfandi kennurum, eldri kennurum, kleift að fá tilsögn í því að veita þessa fræðslu.

Ég gerði tilraun til þess að gera svolitla könnun á því hvernig kynfræðslu væri sinnt í skólum landsins. Hún var að vísu ófullkomin, enda ekki aðstæður til þess að gera hana víðtæka. Mér virðist sem þessi fræðsla sé í nokkuð góðu lagi í neðri bekkjum grunnskólanna, en af þessari ófullkomnu könnun að dæma held ég að ekki sé of stórt upp í sig tekið að segja að kynfræðsla í efri bekkjum grunnskóla sé gjörsamlega í molum. Framkvæmdin er eingöngu komin undir áhuga hvers og eins kennara. Hún er algerlega skipulagslaus og svör sumra skólastjóranna voru á þá leið að þeir ákölluðu æðri máttarvöld og sögðust engin tök hafa á og ekkert skipulag væri á þessum málum. Þetta væri eingöngu undir því komið hvað kennararnir treystu sér til og til hvers þeir hefðu áhuga.

Ég skora á hæstv. menntmrh. að kynna sér betur hvernig þessu er háttað í efri bekkjum grunnskólanna og gjarnan gera úrbætur.