17.02.1986
Efri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2580 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

271. mál, fjarnám ríkisins

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég held að nokkurs misskilnings gæti, eins og hjá hv. 5. þm. Vesturl., að fjarkennslan komi í stað skólakerfis sem við búum við. Hún verður í besta falli viðbót nokkurn veginn alveg. Við getum ekki yfirgefið gömlu aðferðina okkar við kennslu, hin persónulegu tengsl og aðra skipulagningu sem að því lýtur.

Ég þykist nú ekki eiga að svara fyrir það sem ekki hefur komið á ofan í skólakerfi okkar enn þá, en að því dregur náttúrlega því lengur sem ég sit í því sæti sem ég nú geri. En ég hef oft leitt hugann að því hvort hinir margfrægu og margnefndu aðilar vinnumarkaðarins hefðu ekki átt að láta meir og betur til sín taka á ýmsum sviðum en raun ber vitni um. Ég er raunar að gera nokkra tilraun til þess að ná við þá sambandi. Ég finn t.d. til þess sem fyrrverandi forustumaður í samtökum verslunarfólks að harla skammt miðar áfram um menntunaraðstöðu þess miðað við t.a.m. það sem fólk býr við á öðrum löndum eins og hið næsta okkur, á Englandi eða öðrum Norðurlöndum. En allt á þetta kannske sína skýringu. Annað skólakerfi kann að bjóða upp á það sem ella er stundað með þessum hætti þó ég dragi það allmjög í efa.

Ég hafði frumkvæði að því við hæstv. sjútvrh. að hefja umræður um möguleika á samvinnu ráðuneytanna um t.a.m. Fiskvinnsluskólann og ég gerði það vegna þess að mér sýnist fóstrið hjá fagráðuneytunum vera miklu árangursríkara en í bendunni hjá menntmrn. Er ég þó ekkert að færast undan því sérstaklega þar sem það á við fiskiðnað að sinna þeim verkum. En ég ber saman fjárveitingar til Fiskvinnsluskólans á Íslandi og Búnaðarskólans á Hvanneyri sem þegar nýtur háskólaréttinda. Ég man ekki þá tölu nákvæmlega, en mismunurinn er sá að til Bændaskólans á Hvanneyri hverfa einhverjar 45-46 millj. kr., ég er þó ekki að sjá ofsjónum yfir því, en Fiskvinnsluskólinn nýtur einhverra 6 milljóna. Á Íslandi ! Og hann hefur verið olbogabarn. Menn hafa ekki um þetta skeytt. Matvælaiðjulandið Ísland skeytir ekki um matvælaiðnaðinn sem skyldi. Skipstjórnarmenn þykja ekki til þess bærir eða ekki þörf á því að mennta þá í meðferð fisks og fiskafurða sem maður skyldi þó halda að hefði legið beint við og þess vegna hefðum við rekið hér sjávarútvegsskóla skipulagðan að þessu leyti þar sem bæði öflun, meðferð og vinnsla hefðu verið miklu betur tengd.

Við höfum til þess nefnt tvo menn úr hvoru ráðuneyti, við hæstv. sjútvrh., að finna leið í þessu efni, svo að ég segi frá þessu og hvað mun þykja til hliðar við það sem hér er til umræðu, en ég vildi þó að gefnu tilefni að þetta kæmi fram.

Ég er ekki að tala um að þau tengsl við menntakerfið yrðu með öllu rofin sem gilda, en eins og ég leyfi mér að orða það hef ég mikinn áhuga á að koma slíkum sérgreinum í fóstur hjá fagráðuneytunum vegna þess að ég held að það yrði miklu meiri og betri umönnun um þær en undir núverandi skipulagi. Ég fann t.d. til þess dálítið þegar ég var iðnrh. að það þótti ekki taka því, þegar skipuð var nefnd til að endurskoða iðnfræðslulögin, að iðnrn. ætti þar beina aðild að. Þetta skil ég ekki og þess vegna er það að þegar ég er kominn í þá stöðu sem ég nú er í hlýt ég að haga mér dálítið öðruvísi og breyta til ef það gæti orðið til að efla þessar einstöku greinar sem ég er sannfærður um að getur orðið. En allt þurfum við þó að hafa þetta í samhengi þannig að hin skipulagslegu tengsl geti haldist eftir sem áður.

Án þess að ég ætli að lengja þessar umræður mjög eru allar slíkar umræður og tillögugerðir, eins og hér liggur fyrir frá hv. 11. þm. Reykv., af hinu góða. Við erum að byrja að velta þessum möguleikum fyrir okkur sem verða ómælanlegir að kalla í framtíðinni eftir hinum nýju leiðum fjölmiðlunar. Við höfum fyrir framan okkur aðeins spurningar enn þá sem við þurfum að leita svara við. Til þess að greiða fyrir því hafa hér verið fluttar tillögur eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur flutt í Sþ. um opinn háskóla og nú frá hv. 11. þm. Reykv. g hef þess vegna skipað nefnd þriggja manna til að hefja upplýsingaöflun í þessu skyni sem hv. 2. þm. Reykn. Gunnar G. Schram hefur tekið að sér að veita forstöðu og í eiga sæti með honum háskólarektor og útvarpsstjóri. Þetta er aðeins yfirstjórn þeirrar gagnaöflunar og frumálitsgerðar sem ég hyggst beita mér fyrir því að ég held að tíminn kunni að vera naumur og við þurfum að taka þegar til óspilltra málanna, hef þá ekkert á móti því að ályktunartillögur eða tillögur með öðrum hætti gangi í gegnum Alþingi vegna þess að nefndastörf geta greitt fyrir gagnaöfluninni. T.a.m. vænti ég þess að þegar þetta frv. hverfur til nefndar bregði nefndin hart við um að senda það til þar til bærra aðila til umsagnar því að það getur, eins og ég segi, orðið innlegg í bankann okkar, þennan fræðslubanka, upplýsingabanka sem við þurfum að koma okkur upp og að þessu máli lýtur. En þótt haldin væri hér ráðstefna á laugardaginn um opinn háskóla er það misskilningur ef menn halda að þessi nefnd eigi einvörðungu að hafa með höndum þau atriði sem að opnum háskóla lúta, heldur um fjarkennslu einnegin, hvers lags fjarkennslu.

Ég er ekki sérfróður maður að þessu leyti, en gerði það af áhuga að kynna mér þetta aðeins á Englandi fyrir skemmstu. Ég get ekki um það dæmt að hve miklu leyti það getur átt við okkar þjóðfélag sem þar er tíðkað. Ég held að við þurfum að rannsaka þau mál afar ítarlega. Ég held að undirbúningurinn skipti mestu að þessum málum, að við rösum ekki um ráð fram, en við megum ekki slugsa yfir þessum málum heldur taka til óspilltra málanna og undirbúa sem best ef það á að gefa þá raun sem við væntum.

Maður leiðir hugann að mjög mörgum atriðum, eins og t.a.m. endurmenntun og réttindamenntun kennara sem er mjög sársaukafullt atriði og við þurfum verulega að huga að. Getum við ráðið þá gátu með þessum hætti? Í stað þess að smala öllum saman á námskeið, sem hefur gengið treglega, að sumarlagi getum við kannske með fjarkennslunni kippt þessu að verulegu leyti í liðinn. Enn fremur hljótum við að leiða hugann að þeim sem eiga af öðrum ástæðum erfitt um vik að sækja venjulega skóla, hreyfihamlaða með einhverjum hætti, sem hlýtur nú að vera eitt aðaláhugamál manna að sinna þeim, og eins öldruðum. Það er geysilega skemmtileg tilhugsun að geta sinnt þessu fólki heima hjá sér með fræðslu í margháttuðum greinum allt upp í háskólastig.

Maður leiðir hugann líka að því sem vinnuveitendur og aðilar vinnumarkaðarins eins og það heitir hafa verið afskaplega daufir um, að þjálfa fólkið sitt, þjálfa það í starfinu. Það gera Bretar. Þeir þjálfa ýmsar greinar í gegnum fjarkennslu. Ég held að aðilar vinnumarkaðarins ættu að taka þetta alveg sérstaklega fyrir. Það er grundvallarmisskilningur hjá fiskiðnaðinum í landinu, vinnuveitendum í fiskiðnaði, ef þeir halda að það borgi sig að halda fólkinu óþjálfuðu og ómenntuðu og geta af þeim ástæðum haldið því í lægstu laununum. Þetta eru hundgömul alúrelt viðhorf. Þvert á móti sýnir það sig að þegar til lengdar lætur gefur þetta meira og betra í aðra hönd. (Gripið fram í: Þeir hafa talið til þessa að þetta borgað sig.) Já, og þessu þurfum við líka að breyta. Sannleikurinn er sá að þeir eru orðnir eftirbátar vinnuveitenda og viðhorfa þar í stétt á öðrum löndum og hið næsta okkur. Og þótti mér satt að segja, þegar ég gerði mér grein fyrir þessu, heldur illt að heyra og skilja.

Ég, virðulegi forseti, orðlengi þetta ekki frekar. Ég ítreka að ég legg ekki dóm á það hér hvort hið háa Alþingi vill afgreiða frv. með þessu sniði eins og það er lagt fram hér. En umræðan er af hinu góða, starf í nefnd til þess að afla frekari gagna er af hinu góða og getur liðkað fyrir og þess vegna fagna ég fram komnu frv.