17.02.1986
Efri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2583 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

271. mál, fjarnám ríkisins

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. flm. og reyndar líka vegna orða hæstv. menntmrh., sem er ekki lengur í salnum, vil ég ekki fallast á að ég hafi misskilið þetta frv. Mér dettur ekki í hug að halda og þaðan af síður að halda því fram að þetta frv. sé flutt til að brjóta niður hinn hefðbundna grunnskóla eða framhaldsskólakerfið eða annað sem að þessu lýtur þegar lengra dregur í skólakerfinu. Alls ekki. Ég varaði í mínum orðum við vissum þáttum þessa máls og ekki síst að því er varðaði frjálst val á svokölluðu fjarnámi, eins og það er nefnt hér, í hinum dreifðu byggðum. Í þessu efni vil ég endurtaka að marga skóla í fámennum byggðum skortir ýmislegt á svo að þeir séu reknir með eðlilegum hætti. M.a. þess vegna hygg ég að reynst hafi örðugt að fá kennara til þessara skóla. En fleira kemur til.

En áfram með misskilninginn. Ég leyfi mér að vitna til þess sem stendur um 1. gr. frv., með leyfi forseta: „Víða úti um land eiga skólar í erfiðleikum með að veita þá fræðslu sem óskað er vegna fámennis eða kennaraeklu. Við slíkar aðstæður mun fjarnám og fjarfræðsla koma skólum og nemendum á grunnskóla- og framhaldsskólastigi að góðum notum, einnig sem viðbót við kennslu í einstökum kennslugreinum. Margir nemendur búa afskekkt og þeir verða að dveljast langdvölum að heiman til að fá almenna skólafræðslu. Fjarnám og fjarfræðsla gæti stytt þeim dvölina að heiman og lækkað námskostnað þeirra til muna.“

Þetta segir mér að í vissum tilvikum komi fjarnámið í stað skólavistar. Því verður ekki móti mælt. Þess vegna vísa ég því á bug að ég hafi misskilið eitthvað í þessu frv. Tilgangur minn með því að koma öðru sinni í ræðustól vegna frv. var einmitt að taka af öll tvímæli um það.