17.02.1986
Efri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

271. mál, fjarnám ríkisins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að segja nokkur orð varðandi þá skoðun flm. að það þurfi að gera meira en að fræða fólk aðeins um það er lýtur að starfsgrein þess. Ég er sammála því og ég taldi upp nokkur atriði sem mörg hver fjalla um slíka hluti. Það er stefnt að því að fræðsla fari fram er lúti að starfinu og ýmsu er getur orðið til uppbyggingar að öðru leyti.

Ég minntist á það líka að nú er í bígerð að setja á fót námskeið í tíu hlutum, afmarkaðar fjórar stundir hvert. Það er auðvitað allt of skammur tími. En við sjáum fyrir okkur að ef við ætluðum að taka 20 tíma í hvert námsefni yrði ekkert úr þessu. Þá yrði ekkert úr þessu og enginn fengi neina fræðslu. Þess vegna er meiningin að byrja á að afmarka tímann og koma þessu af stað. Síðar er meiningin að koma á fleiri námskeiðum, ítarlegri og betri námskeiðum, meiri menntun og meiri þjálfun fyrir fólkið á vinnustöðunum. Við erum að þreifa okkur af stað og ég vona að sú leið sem nú er valin verði til þess að af þessu geti orðið.

Ég verð þó að hryggja menn með því að við, sem með þetta höfum að gera, töldum að það þyrfti um 20 millj. til að koma þessu vel af stað. Alþingi var svo rausnarlegt að láta okkur hafa 5 millj. í þetta og þá, þegar 5 millj. höfðu fengist í þetta, var búið að eyða 1 millj. kr. svo að við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér í þessu efni. En fjárveitingavaldið sýndi ekki mikinn lit. Hitt er annað að vonir okkar stefna í að hægt verði að láta þetta verða að veruleika og við treystum því og trúum og munum berjast fyrir því.

En ég ætlaði ekki aðeins að einskorða þessa umræðu við þetta heldur vildi ég segja það líka að frv. um fullorðinsfræðslu hefur hvað eftir annað komið fram á Alþingi og ekki fengið meðferð vegna hvers konar ágreinings hinna ýmsu aðila og vegna andstöðu fjárveitingavaldsins. Framhaldsmenntun eða fullorðinsfræðsla er mjög brýnt mál í þjóðfélaginu og það þarf að sinna því mjög vel. Mér sýnist þetta frv. lúta að þessu sem beinagrind að nokkru leyti. En ég hygg að sú skoðun flm. að setja upp nýtt kerfi, eins og mér skilst á 10. gr. þar sem rætt er um starfslið og daglega framkvæmd, að dagleg framkvæmd verði í höndum starfsfólks í miðstöð fjarnáms ríkisins, kalli á hugrenningar um hvar eigi að fá peningana. Oft er það sem góður vilji verður að lúta í lægra haldi vegna þess að fjármunir eru ekki fyrir hendi.

En ég vona og vænti þess að það frumkvæði sem hefur átt sér stað með flutningi þessa frv. verði til þess að umræður um fullorðinsfræðslu geti orðið marktækar og verði til að ýta við fólki, ýta við atvinnulífinu, ýta við ráðamönnum í þá átt að sinna þessum málum betur en gert er.

Ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að það er gert ráð fyrir að fólk sem hefur notið lítillar skólamenntunar geti haft aðgang að fjölbrautaskólum. Því miður er ástandið þannig að fólk hefur það ekki nema mjög takmarkað. Ég þekki til dæma frá minni heimabyggð þar sem fólk þarf að vera í mörg ár í slíku námi í öldungadeild vegna þess að hinar ýmsu greinar fást ekki kenndar. Ég held að við ættum að sinna því betur eins og öðru.