17.02.1986
Efri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2585 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

271. mál, fjarnám ríkisins

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Í framhaldi af orðum síðasta ræðumanns vegna fjárveitinga til starfsfræðslunámskeiða í fiskvinnslu finnst mér ástæða til að árétta að þar var um að ræða afgreiðslu sem var að vísu samkvæmt lágmarksþörf til þeirra námskeiða eins og þau voru skipulögð. Þegar ég segi lágmarksþörf á ég við það sem ákveðið var í samráði við sjútvrn. sem hafði milligöngu og forgöngu um tengingu við fjárveitingavaldið í þeim efnum. Ég held að það sé ástæða til að víkja nokkrum orðum að þessum þætti sem er mjög mikilvægur.

Á síðasta þingi flutti ég þáltill. ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni o.fl. um starfsfræðslu í fiskvinnslu. Í þeirri tillögu var gert ráð fyrir að slík starfsfræðsla yrði unnin í samvinnu menntmrn., sjútvrn. og fleiri aðila. Ég held að einmitt á þeim pósti sé sá galli á gjöf Njarðar eins og málið stendur nú að það er ekki nógu mikil tenging við menntmrn. Ég held að fiskvinnslunámskeiðin eigi að fara í gegnum skólakerfið, en í samvinnu við aðra aðila. Þetta er stórt mál sem auðveldara er að vinna fram á þann hátt. Sérstaklega eru tvö atriði sem valda því.

Í fyrsta lagi er auðveldara að afla fjár innan skólakerfisins til að sinna þessu verkefni og reikna með því fast og ákveðið í skólakerfinu. Í öðru lagi er hægt að nýta margs konar húsnæði sem er til í landinu í bóklega þættinum, en síðan kæmi til verklegi þátturinn, þá væntanlega í fiskvinnsluhúsum og á öðrum stöðum sem gætu boðið upp á slíkt. Ég held að mjög miklu máli skipti að taka á þessu máli á þennan hátt til þess að raunhæfur árangur náist á sem skemmstum tíma.

Jafnframt er ljóst, og það er ég viss um að hv. þm. Karl Steinar Guðnason getur tekið undir, að ef unnt er að tengja þetta umrædda nám, þessa starfsfræðslu, menntakerfinu er auðveldara að vinna með því grunn til launahækkana en ef það er á sjálfstæðum námskeiðagrunni í tengslum við sjútvrn. Það hefur sýnt sig í öllu launakerfi landsins að þar sem unnt er að tengja námskeið sjálfu menntakerfi landsins sem föstum lið hefur það gefið hærri laun hvort sem við erum að tala um námskeið hjá kennurum eða öðrum.

Ég held að menn verði að horfast í augu við að þarna þarf að hnýta betur saman. Það er hyggilegast að vinna þetta á breiðum grundvelli þannig að menn geti nýtt það kerfi sem til er og stutt þannig við bakið á fiskvinnslufólki í þessu tilviki um leið og við erum að skapa mun betri aðstæður til að vinna verðmætari afurðir úr okkar hráefni. Ég vona að þetta muni þróast í þessa átt. Ég reikna með að endurflytja þá till. sem ég gat um. Þetta er mál sem skiptir mjög miklu máli í allri grunnmenntun og endurmenntun og fræðslu í þessu tilviki fiskvinnslufólks í landinu.