17.02.1986
Efri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2585 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

271. mál, fjarnám ríkisins

Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. 3. þm. Suðurl. um að það er æskilegt að tenging sé milli menntmrn. og einstakra ráðuneyta sem fjalla um hinar ýmsu starfsgreinar og þar af leiðandi láta sig allt starfsnám miklu skipta.

Við hv. 6. landsk. þm. erum algerlega sammála um að það verður að velja og hafna ef ekki er fé til og velja kennslugreinar sem heppilegastar og nytsamastar eru í hvert sinn. Úr því að fjármagnið sem fæst er alltaf minna en þarf á að halda verður náttúrlega ýmsu að hafna.

Hv. 5. þm. Vesturl. sá fyrir sér örlitla hættu á því að nemendur sætu heima frekar en mæta til skóla í strjálbýli. Ég sá aftur á móti fyrir mér þá hættu að nemendur sem búa afskekkt mættu ekki til skóla sem þeir ættu að koma í og fengju enga fræðslu. Þetta geri ég vegna þess að ég hef rekist á fjölda fólks sem þannig er ástatt fyrir. Það hefur búið afskekkt og það hefur ekki sótt tilskilda skólamenntun af þeim sökum. Það hafði ekki fé til að afla menntunarinnar og það var engin fær leið fyrir það. Það er þess vegna m.a. sem þetta er inni í 1. gr. frv.

Ég veit ekki hvort er við hæfi að nefna það, en ég get ekki stillt mig um það, að fyrir nokkrum árum kynntist ég konu sem var þrítug og hafði lokið skóla 12 ára gömul. Hún bjó í sveit og hafði af einhverjum ástæðum ekki haldið áfram námi. Þegar hún var búin að vera í viku í skólanum hjá okkur byrjuðu kennararnir að kvarta undan henni því að hún var svo klár. Það varð að færa hana úr lélegustu deild í næstu þar fyrir ofan og þegar hún var búin að vera þar í hálfan mánuð var hún aftur færð um bekk og lauk öllu grunnskólanámi á hálfum vetri. Þessi stúlka hafði greinilega geysilega námshæfileika, en hún hafði ekki notið þess á nokkurn hátt. Að vísu hafði hún öðlast alls konar þekkingu. Hún hafði ekki komist hjá því slík gáfumanneskja sem hún var. En skólanám hafði hún ekki. Þarna geystist hún fram úr öðrum nemendum og á þessu hálfa ári aflaði hún sér þeirrar þekkingar sem boðið var upp á og var náttúrlega hæst um vorið. Hún var með næstum 10 í hverri einustu grein. Síðan fór hún í gegnum öldungadeildina í Hamrahlíð á líkum hraða. Slíku fólki höfum við ekki efni á að missa af, jafnvel þótt það búi afskekkt.

En ég veit að við hv. 5. þm. Vesturl. erum ekki ósammála um þessi mál. Við nálgumst málið frá tveimur hliðum, hann frá hlið skólans síns í sveitinni og ég frá sjónarhóli manneskju sem hefur rekist á of marga slíka nemendur.