18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

253. mál, norsku- og sænskunám í grunnskóla og framhaldsskóla

Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. greinargóð svör hans og fagna því að eitthvað mun þokast áleiðis í málefnum norsku- og sænskunema. En ég vil endurtaka að gera þarf mjög stórt átak til þess að málin komist á almennilegan rekspöl. Mér er kunnugt um að bara það sem af er þessum vetri hefur þurft að ljósrita handa þessum nemendum kennslubókaefni upp á 60 000 blaðsíður. Það er afskaplega óheppileg aðferð til að halda uppi námsefni handa þessum nemendum. Þetta er svo dýrt. Því fagna ég því að það skuli vera komin hreyfing á að framleiða meira námsefni fyrir sænsku og norsku, en einnig get ég hugsað mér að það væri hægt að fá námsefnið ódýrara frá hinum Norðurlöndunum með því að fá Norðurlandaþjóðirnar til að fella niður söluskatt sem þær hafa verið fremur tregar til að gera.