18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2591 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

216. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið var ekki gert ráð fyrir því við afgreiðslu Alþingis á lánsfjárlögum fyrir árið 1986 að sérstök lántökuheimild væri til þessa verkefnis. Ég hygg að ekki hafi verið ágreiningur um á því stigi máls að ógerningur væri að seilast lengra af opinberri hálfu til innlendrar lántöku og fullt samkomulag um að ekki var unnt að ákveða meiri erlendar lántökur en lánsfjárlög gera ráð fyrir.

En eins og fram kemur í nál. frá meiri hluta hv. fjh.og viðskn. Ed. segir að það sé mat nefndarmanna að hér sé um þarft verkefni að ræða og rétt þyki að beina þeim fyrirtækjum sem æskja lána í þessu skyni til langlánanefndar og innlendra lánastofnana. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér frá viðskrn. hafa enn ekki borist lánsbeiðnir frá fiskimjölsverksmiðjunum til langlánanefndar að því er þessi verkefni varðar.

Ég er hins vegar sammála því áliti, sem hv. fjh.- og viðskn. Ed. lét í ljós við afgreiðslu lánsfjárlaga, að hér er um mikilvægt mál að ræða og full þörf á að gera átak í mengunarvörnum hjá fiskimjölsverksmiðjunum. Hins vegar eru ekki fyrir hendi sérstakar heimildir á lánsfjárlögum til erlendrar lántöku í þessu skyni, en það eru heimildir til lántöku á vegum langlánanefndar undir liðnum Atvinnufyrirtæki sem samtals nemur 2,5 milljörðum kr.

Ég legg á það áherslu með sama hætti og hv. fjh.- og viðskn. Ed. að fyrirtækin leiti þeirra leiða, sem þar er bent á, að óska eftir lántöku á þessum grundvelli eða hjá innlendum lánastofnunum. Hv. fjh.- og viðskn. beindi ekki sérstökum tilmælum til ríkisstj. að þessu leyti. Ég tel rétt að sú ábending, sem fram kom í nál. til viðkomandi fyrirtækja, verði höfð í huga í þessu sambandi, en útilokað að auka á heimildir til erlendrar lántöku þó vissulega sé hér um að ræða mjög þarft og brýnt verkefni.